Sandkassaleikur

Jæja, sennilega verður ekkert hjá því komist að blogga um ástandið.

Mér ofbíður einfaldlega svo þessi sandkassaleikur sem aðalhausarnir í þessu landi eru að leika núna. Í stað þess að sína samstöðu í að efla ímynd þjóðarinnar og koma á fjárhagslegum stöðugleika, þá standa ríkisstjórnin, seðlabankinn og fjármálaeftirlitið í vísifingursbendingum og ábyrgðafirringu. 

Davíð steig vasklega fram í morgun og hóf enn eina skothríðina til að gera allt vitlaust í þjóðfélaginu, hafi það nú ekki verið orðið nógu vitlaust áður. Af í hverju í ósköpunum getur þessi maður ekki bara einbeitt sér að því sem skiptir máli og hætt þessum endalausu tilraunum til að fegra sig og sína? Geir svarar síðan gagnrýni Davíðs á ríkisstjórnina eins og bjáni til þess að styggja ekki kónginn og vísar ábyrgðinni á bankana, að sjálfsögðu.

Á meðan svarar Ingibjörg Sólrún gagnrýninni fullum hálsi og Öskur einfaldlega valtar yfir seðlabankastjórnina í heild, í raun það eina gáfulega sem út úr honum hefur komið síðan hann steig í ráðherrastólinn. 

Það er alveg ljóst að hvort sem Davíð bera ábyrgð á ástandinu eður ei, þá verður einfaldlega koma honum frá völdum svo hann haldi ekki áfram að leika leiki eins og í morgun, haldandi það að hann sé "ennþá" kóngurinn. Svo er reyndar ekki.
mbl.is Ábyrgðin liggur hjá bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta ástand!

Það er nokkuð ljóst að það er til lítils fyrir mig að blogga um ástandið; hrun, kreppu, skandala, afskriftir, afsagnir, aðgerðaleysi o.s.frv. Til þess höfum við alla besservisserana á Moggablogginu. Allt saman eru þetta stjórnmálafræðingar af bestu gerð og hafa sjálfsagt allir rétt fyrir sér.

Ég veit ekki hvort maður á að skammast sín eða vera glaður þegar ástand, eins og nú er ,kemur lítið sem ekkert við mann. Ég finn voðalega lítið fyrir þessu öðruvísi en að matvælaverð hefur hækkað. Reyndar hefur það meira en hækkað hér á Djúpavogi, því Samkaupskeðjan hefur víst hækkað mest allra matvöruverslana á landinu. Og það fer ekki framhjá neinum sem við Samkaup versla. En aftur á móti hefur bensín lækkað og ég spái því (og það má hljóma asnalega miðað við stöðun) að það eigi eftir að lækka enn frekar.

Það jaðrar þó við maður sé svolítið skömmustulegur þegar maður heyrir allar sögurnar að sunnan, af fólkinu sem hefur ekki efni á að borga af húsunum sínum og bílunum og rambar á barmi gjaldþrots. Á maður að skammast sín fyrir að finna ekki eins mikið fyrir þessu? Ég geri það allavega pínu og vorkenni hverjum einum og einasta sem á erfitt, hvort sem þeir "eiga það skilið" (en það eru margir sem vilja meina að þeir sem eyddu um efni fram eigi gjaldþrot skilið, sem er að sjálfsögðu ekki sniðugt) eða ekki.

Svo má vel vera að kreppan skelli á mér von bráðar án þess að ég fái við nokkuð ráðið. Sjáum til.


Þetta gengur ekki lengur

Ég er mikið að velta fyrir mér að gerast bloggari aftur. Ég hef reyndar haldið úti bloggsíðu síðan 2001 en staðið mig afskaplega illa sl. ár. Einungis bloggað í törnum eða bara ekki neitt. Nú held ég að tími sé kominn að ég gerist reglulegur bloggari aftur.

Annars er svo komið að bloggrúnturinn sem ég var vanur að fara er orðinn ískyggilega stuttur. Margir af mínum vinum sem voru frábærir bloggarar eru hættir og er það miður. Nú eru allir komnir með Facebook og láta það nægja. Facebook er þó sem betur fer mikil snilld og því hægt að fyrirgefa því fólki sem hefur látið hana koma í staðinn fyrir bloggið. Það eru þó enn einhverjir bloggarar eftir; síðustu Móhíkanarnir, og er ég að spá í að slást í lið með þeim og viðhalda hinu sígilda bloggi. 

Þeir bloggarar sem eftir standa og ég fylgist með eru eftirtaldir:

Andrés Skúlason. Þessi tvöfaldi sveitungi minn heldur úti einni skemmtilegustu bloggsíðu sem ég skoða, það má hann eiga. Þrátt fyrir að ég sé ósammála honum í einu og öllu hef ég gaman af flestu því sem hann skrifar. Auk þess deilir hann með lesendum aragrúa af skemmtilegum myndum, enda einn besti ljósmyndari á Íslandi.

Kristján Ingimarsson. Hann bloggar nokkuð reglulega og er hnyttinn. 

Magni í Brekkubæ. Magni hefur upp á síðkastið bloggað reglulega og fer mikinn. 

Ingþór Sigurðarson. Gullkálfurinn frá Vegamótum er án efa einn skemmtilegasti bloggari landsins. 

Heiða á Bakka. Það kemur fyrir að ég æli úr hlátri þegar ég les bloggið hennar.

Þar með er bloggrúntinum lokað hjá mér. 

Síðan eru bloggarar eins og Harpa Rún, Frekja litla frænka, Dagur bróðir, Bidda litla, G. Þorkell o.fl. sem blogga af og til og hitta þá í mark.

Hins vegar skora ég á þá sem einu sinni héldu út frábærum bloggsíðum (eða blogga mjög sjaldan) að hugsa sinn gang og endurskoða þá ákvörðun að hætta að blogga. Þeir eru eftirtaldir:

Þröstur Fannar Árnason
Guðmundur Björnsson Hafþórsson
Hafþór Snjólfur Helgason
Arnar Pétursson
Hólmfríður Jóhanna Lúðvíksdóttir
Garðar Valur Hallfreðsson
Magnús Einþór Áskelsson
Hilmar Garðarsson

Nóg um það.

Af öðru er þetta er helst að frétta:

Þeir sem ekki eru búnir að fá sér Facebook eru vinsamlegast beðnir um að bæta úr því strax.

Þeir sem ekki hlusta á Kings of Leon eru beðnir um að bæta úr því strax.

Þeir sem ekki hafa séð Burn after reading eru löglega afsakaðir (það kunna ekki allir að dánlóda)

Fleira var það ekki.


Það er Síminn

Að hringja í 800-7000 og vera númer 50 í röðinni...

Það er Síminn.


Misjafn smekkur manna (og barna)

Hilmir að horfa á EmilSonur minn er svolítið sérkennilegur að einu leyti. Sem betur fer er hann ekki líkari mér en svo að hann er bara sérkennilegur að einu leyti. Þessi sérkennilegheit líta að barnaefni.

Hann hefur engan áhuga á teiknimyndum og hefur aldrei viljað horfa á þær. Það næsta sem kemst að teiknimynd sem hann sýnir áhuga er Bubbi byggir. Hann hefur svolítinn áhuga á honum en ekki meiri en svo að hann er hættur að horfa eftir tíu mínútur. Það þýðir t.d. ekkert að planta honum fyrir framan morgunsjónvarpið því þar eru sýndar eintómar teiknimyndir.

Þegar ég segi frá þessu, heyrist; "Jújú hann á eftir að fá áhugann, minn krakki byrjaði ekki að hafa gaman af barnaefni fyrr en þriggja ára.." og svo fram eftir götunum. Það má ekki misskilja þetta þannig að ég hafi áhyggjur af þessu, síður en svo. Hann er mikill áhugamaður um barnaefni. Bara ekki teiknimyndir.

Hann getur setið stjarfur tímunum saman yfir Emil í Kattholti, Línu langsokki, Saltkráku og eiginlega flestu eftir Astrid Lindgren. En efnið verður að vera leikið. Annars hefur hann ekki áhuga. Hann situr stjarfur yfir Stundinni okkar og Krökkum á ferð og flugi en missir áhugann þegar teiknimyndir taka við.

Það nýjasta er að hann situr dáleiddur yfir Spaugstofunni. Hún er það skemmtilegasta sem hann veit fyrir utan Astrid Lindgren myndirnar.

Hann er tæplega tveggja ára. Ég hef það einhvern veginn á tilfinningunni að honum finnist teiknimyndir fyrir neðan sína virðingu.

Það er sem ég segi: Hann er misjafn smekkur manna.


Fartölvur...

..eru verkfæri djöfulsins.

Ég hef aldrei átt fartölvu. Ætla aldrei að eignast fartölvu.

Samt vinn ég við þetta drasl allan daginn og uppsker ekkert nema bras og vandræði.

Fari þetta í helvíti.


Hlandhausar

Hannes Smárason
Lárus Welding
Sigurjón Árnason
Hreiðar Már Sigurðsson

... og hvað þeir nú heita allir.

Pælið í því.

Þetta eru allt saman hálfvitar sem voru hársbreidd frá því að setja íslensku þjóðina á hausinn.

Allir með 50+ milljónir á mánuði.

Veflestir þeirra eru fæddir í kringum 1970, s.s. varla orðnir fertugir. Ennþá blautir á bakvið eyrun.

Lárus Welding er fæddur 1976. Hann er 32 ára. Hvaða andskotans himbrimum datt í hug að ráða hann sem forstjóra fjármálafyrirtækis, þegar hann er nú ekki kominn lengra á viðskiptaferlinum en svo að hann er tiltölulega nýhættur að éta sand?

Mér er andskotans sama hvað þessir menn eru búnir að mennta sig og er með margar gráður, það hefur einfaldlega komið á daginn að það er enginn þeirra starfi sínu vaxinn. Enginn.

Nú er allt á leið til andskotans, bara vegna þess að svona ræfilstittir sinntu ekki vinnu sinni.

Og allt er þetta Framsóknarflokknum að kenna. Er það ekki annars?

Það er allavega alltaf niðurlagið þegar illa gengur eða allt fer til andskotans.


Egils djús

untitled-1.jpgÉg hef orðið var við að gert sé grín af því að ég kaupi djús, þ.e. Egils þykkni.

Mér er andskotans sama.

Mér finnst þetta fínn drykkur og ekkert verri en hver annar.

Og hana nú!


Aðeins af okkur

Þá erum við semsagt orðin fjögur í fjölskyldunni eftir vel heppnaða ferð á Fjórðungssjúkrahúsið á Norðfirði.

Reyndar var biðin helst til löng, en við biðum í viku á Fáskrúðsfirði og tvo daga í Neskaupsstað. Annars var vel hugsað um okkur á báðum stöðum á meðan biðinni stóð. Jakó og Doddi sáu um að gefa okkur að éta á Fáskrúðsfirði og hið óviðjafnanlega starfsfólk á FSN gerði allt til að láta okkur líða sem best á Neskaupsstað.

Það er nokkuð ljóst að munurinn á að fæða í Reykjavík og á Norðfirði er umtalsverður. Það er næstum því ekki hægt að líkja því saman. Það er svipað og að líkja saman farfuglaheimili og 5 stjörnu hóteli. 

Við viljum þakka FSN kærlega fyrir stórkostlega þjónustu og dásamlegt starfsfólk. 

Eins ber að þakka öðlingnum Bjössa Guðmunds fyrir íbúðina á Fáskrúðsfirði, en hún bjargaði okkur alveg.

Þá fær mamma endalausar þakkir fyrir að sjá um Hilmi á meðan við vorum á Norðfirði. 

Þetta er að verða eins og Óskarinn.....

Öllum heilsast vel og ég er svangur.

dsc01026_large_687537.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

dsc01128_large.jpg

 


Dallas Group

Hér til hliðar, í svokallaðan tónlistarspilara, hef ég komið fyrir lagi sem hljómsveitin Dallas Group frá Djúpavogi hljóðritaði á áramótadansleik á Hótel Framtíð árið 2006 (að ég held). Þó svo að hljómgæði séu svosem ekki upp á marga fiska og Kristján Ingimars fari á köflum með kolrangan texta, ákvað ég að láta það í spilarann.

Lagið er Húsið og ég og án vafa er ég að brjóta helling af einhverjum reglum með því að setja það hér inn (ég hef sko leyfi frá Dallas, en ekki Grafík). 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband