Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Það er Síminn

Að hringja í 800-7000 og vera númer 50 í röðinni...

Það er Síminn.


Meira nördatal - Góð ráð

computer_virus_protectionNú hef ég unnið við það í hjáverkum í 10 ár að berjast við vírusa. Á þessum 10 árum hef ég lært ýmislegt og fer yfirleitt leikandi létt með að ná vírusum og öðrum óværum úr tölvum. Ég hef reyndar ekki þurft að berjast við stóran vírus síðan Chernobyl, vinur minn (og Þrastar), var og hét. Hann grandaði bæði tölvunni hans og minni. Það er í eina skiptið sem ég hef þurft að játa mig sigraðan, enda mjög erfitt að ráða við eitthvað sem ber þetta nafn.

Nú þegar maður er orðinn svona "sjóaður" í vírusviðskiptum, þá er ég kominn með ákveðnar vinnureglur sem ég fer alltaf eftir þegar ég vírushreinsa tölvur. Ég geri alltaf sömu rútínuna og yfirleitt virkar hún, í c.a. 7 af hverjum 10 tilfellum. Ég ætla hins vegar ekki koma með góð ráð um hvernig eiga að vírushreinsa tölvur, heldur koma með góð ráð um hvernig eigi að sleppa við þá.

Ég nota þessar aðferðir á mína tölvu og ég hef ekki fengið vírus eða aðra óværu í hana í 5 ár. Það er þó ekki þar með sagt að allir sem nota þessar aðferðir sleppi við vírusa.

Fyrst vil ég tala um vírusvörnina sjálfa. Mér er reyndar meinilla við vírusvarnir, því flestar þeirra má líkja við vírus; þær hægja að mörgu leiti á tölvunni og eru yfirleitt til ama og leiðinda, sem dæmi má nefna minn helsta óvin sem er Symantec Norton Antivirus. Ekki nota hana.

Þó eru nokkrar sem eru mjög góðar s.s. NOD, AVG o.fl. og svo sú sem ég nota og set upp í allar tölvur sem ég kemst nálægt. Avast! heitir hún. Hún fæst frítt á netinu, það fer lítið fyrir henni, hún hleypir sáralitlu í gegnum sig (allar vírusvarnir hleypa einhverju) og ég hef enn ekki lent í neinu brasi með hana. Avast! vírusvörnina má nálgast á heimasíðu þess fína fyrirtækis. Beinn linkur á hana er hér. Notendur sem hala vörninni niður þurfa að skrá sig (það er gert á sömu síðu og linkurinn er á) og fá sendan lykil í tölvupósti sem síðar þarf að nota til að opna vírusvörnina eftir að hún hefur verið sett upp. Sáraeinfalt og svínvirkar.

Ég mæli með að tölvueigendur noti forrit eins og t.d. Lavasoft Ad-Aware til að skanna tölvuna fyrir minniháttar óværum (svokölluðum böggum) á c.a. 2 vikna fresti. Ad-aware fæst einnig frítt á heimasíðu þeirra hér.

Með þetta tvennt áttu að vera nokkuð örugg(ur). Þó vil ég í lokin bæta við einni snilld. Þessi snilld er í raun besta vírusvörnin á markaðnum. Þetta er pínulítil skrá sem heitir hosts og er vistuð í Windows möppunni. Þessi skrá er í öllum tölvum með Windows 2000, XP og Vista en það er í raun ætlast til að menn bæti í hana sjálfir sem getur reynst tölvuhræddum einstaklingum erfitt. Skráin virkar þannig að í hana eru settar slóðir á vefsíður sem taldar eru vafasamar, jafnvel taldar innhalda vírusa eða aðrar óværur. Það eru fjölmargir sem stunda það að setja inn í þessa skrá allar vafasamar vefsíður og hægt er að sækja uppfært eintak af þessari skrá á netinu. 

Ég mæli með því að skráin sé sótt á þessa vefsíðu: http://www.mvps.org/winhelp2002/hosts.htm
Ofarlega á þessari síðu má sjá litla gula möppu þar sem við stendur Download: Hosts.zip
Þú downloadar einfaldlega þessari .zip skrá (hún er pínulítil og tekur sekúndu að downloadast), opnar hana og þú sérð að í henni eru nokkrar skrár. Ég mæli með að þú skiptir þér ekkert af hinum skránum, heldur dragir bara hosts skrána úr .zip skránni og yfir í möppu á slóðinni á C: drifinu, nánar tiltekið; c:\Windows\system32\drivers\etc. Þar fyrir er hosts skráin sem fylgdi stýrikerfinu og þegar þú ert spurð(ur) að því hvort þú viljir vista yfir hana (overwrite) þá segir þú já.

Síðast þegar ég athugaði þá innihélt þessi uppfærða hosts skrá fleiri þúsundir vefsíða sem þykja vafasamar. Hér má sjá listann yfir þær vefsíður sem eru í nýjustu skránni. 

Semsagt.

Avast! Antivirus
Lavasoft Ad-Aware
Uppfæra hosts skrána

Þá ertu nokkuð safe. 


mbl.is Yfir milljón tölvuóværur í umferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nördatal

Windows_XP_Logo-thumbÞað er nokkuð ljóst að Microsoft myndi tapa öllum mínum stuðningi ef þeir myndu ákveða að taka Windows XP af markaði. Windows Vista er eflaust að mörgu leiti jákvætt en það sem ég sé að því er að þú þarft mikið vinnsluminni og auk þess þarftu, sem vanur XP notandi, að læra að labba upp á nýtt.

Microsoft-menn hafa svosem alltaf verið þekktir fyrir þetta. XP er talandi dæmi um þeirra vinnubrögð. Loksins þegar XP er að verða mjög gott stýrikerfi (sem hefur tekið 7 ár að gera gott), þá koma þeir með eitthvað nýtt drasl sem eflaust verður gott eftir 7 ár. Annars verður spennandi að sjá nýja stýrikerfið sem þeir ætla að gefa út eftir 2 ár. Vill svo skemmtilega til að það heitir Windows 7. Kannski tilviljun eða þá bara að Microsoft menn eru að viðurkenna að það tekur 7 ár að þróa gott stýrikerfi... þ.e. 7 ár eftir að það hefur verið gefið út. 


mbl.is Hvetja Microsoft til að taka Windows xp ekki af markaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HD ready

HD-Ready-BraviaNú segja þeir að HD-DVD sé að játa ósigur sinn gagnvart Blu-Ray. 

Er þá öll fínu "HD ready" sjónvörpin sem allir eru að kaupa einskis virði?

Djöfull væri það nú fyndið. 


mbl.is Hvítt flagg hjá HD-DVD?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Keith Moon - In my life

Flestir sem eitthvað hafa kynnt sér tónlistarsöguna vita hver Keith Moon var. Hann er án efa einn besti og litríkasti trommari sögunnar og barði húðir með hljómsveitinni The Who. Það er alveg sama hvaða rokksukkara menn nefna, Keith Moon gekk alltaf skrefinu lengra. Keith Moon þurfti alltaf meira.

Gott dæmi um þetta eru hrossadeyfilyfjasagan af honum. Hann sem hafði prófað allt sem tengdist eiturlyfjum, heyrði að ef þú tækir eina töflu af hrossadeyfilyfjum myndirðu finna vímu sem ekki væri lík neinni annarri. Þannig að hann tók fimm. Að sjálfsögðu þoldi hann það ekki og féll í yfirlið yfir trommusettið á miðjum tónleikum. 

Keith Moon gerði margar tilraunir til þess að losna við eiturlyfjabölið sem fylgt hafði honum meira en helming ævi sinnar. Það er kaldhæðni örlaganna að síðasta tilraunin dró hann til dauða. Honum hafði gengið vel að halda sér frá eiturlyfjunum með læknalyfjum sem áttu að draga úr lönguninni. En þar sem Keith Moon vildi alltaf meira ákvað hann að taka fyrir svefninn tvöfaldan skammt af þessum læknalyfjum en það varð honum um megn og hann lést í svefni. Lyfin sem áttu að lækna hann drógu hann til dauða. Myndin hérna til hægri er síðasta myndin sem tekin var af Keith, kvöldið áður en hann dó.

Keith Moon hafði mikið dálæti af því að syngja. Honum hafði þó verið sagt það hvað eftir annað að hann væri vitalaglaus og gæti ekki sungið til að bjarga lífi sínu. Þess vegna gaf hann út sólóplötu, til þess að sanna fyrir öðrum að hann væri í raun fínasti söngvari. Platan, sem hét Two sides of the moon, kom út árið 1975 og var rökkuð niður af öllum gagnrýnendum enda ekki mikið eyrnakonfekt þar á ferð. Þó fundust inn á milli ágætis lög og eitt þeirra var ábreiða Keith's af Bítlalaginu In my life. Ég heyrði bút úr þessu lagi á netinu fyrir margt löngu og það var eitthvað við það sem heillaði mig. Þess vegna hef ég mikið haft fyrir því að finna þessa plötu og leitin bara árangur fyrir stuttu.

Að mínu mati er þetta besta ábreiða In my life sem ég hef heyrt. Söngurinn er, eins og við mátti búast, ekki stórfenglegur en einlægnin er mikil og viljinn til að gera vel er fyrir hendi.

Ég mæli með því að menn tékki á þessu lagi í nýja, fína tónlistarspilaranum hérna til vinstri. 

 

 Fram- og bakhlið plötunnar Two sides of the moon

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


JúTjúb
Meðlimir The Who o.fl. tala um Keith Moon


Sýndarvinir

Hvað í fjandanum gengur mönnum til með öllu þessu Mæspeis og Nettlogg fári? Þetta virðist engan endi ætla að taka og menn eyða mörgum klukkustundum á dag í að sinni sínu heimasvæði á þessum satans svæðum. Það skal þó viðurkennast að þegar þetta MySpace var komið vel á veg hér á landi þá að sjálfsögðu skráði ég mig í þetta og taldi þetta stórsniðuga hugmynd til þess að halda sambandi við vini sem maður hafði ekki hitt í langan tíma og eins bara daglega vini mína. En sú snilld var nú fljót að breytast í rugl.

Þetta var voðalega gaman fyrst, alltaf einhver að biðja mann um að vera vinur manns og maður leitaði sveittur að einhverjum sem maður þekkti einhverntíma til að biðja þá að gerast Mæspeis vinur manns. Þegar fólk sem ég hafði aldrei heyrt um eða allavega ekki talað við, en þó vitað af, var farið að beiðast eftir vinskap þá fannst mér nóg komið og þá held ég að ég hafi verið búinn að sinna mínu mæspeis svæði í rúman mánuð. Síðan þá hef ég ekki snert þetta. En ég er alltaf að sjá í póstinum hjá mér ótrúlegast fólk að biðja mig um að "adda" sér sem vinum mínum (maður fær sko sent ímeil á netfangið sitt ef einhver leitar til manns). 

Nei, takk. Svona sýndarveruleikadrasl sem virðist heilla alltof marga (heillaði mig reyndar en þó bara í mjög stuttan tíma) er að hertaka þessa jörð. Sýndarvinir... er það ekki svoldið kjánalegt? Að eiga agalega góða vini sem maður hefur kannski aldrei hitt eða yrt á?

Það getur verið að ég sé bara svo leiðinlegur að ég kunni ekki á svona netvinasístem. Eða að ég eigi ekki nógu marga vini til að þetta sé eitthvað sport. Ég var kominn í 84 vini þegar ég hætti að sinna þessu en það eru margir sem eiga 3-400 vini. Þeir heppnir. Hljóta líka að vera rosalega skemmtilegir af því að þeir eiga svo marga svona góða vini.

Svo virðist Nettlogg vera nýjasta æðið. Virkar alveg eins og Mæsepeis en er bara flóknara og óaðgengilegra. Vona að það heilli einhverja.

Bæ. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband