Keith Moon - In my life

Flestir sem eitthvað hafa kynnt sér tónlistarsöguna vita hver Keith Moon var. Hann er án efa einn besti og litríkasti trommari sögunnar og barði húðir með hljómsveitinni The Who. Það er alveg sama hvaða rokksukkara menn nefna, Keith Moon gekk alltaf skrefinu lengra. Keith Moon þurfti alltaf meira.

Gott dæmi um þetta eru hrossadeyfilyfjasagan af honum. Hann sem hafði prófað allt sem tengdist eiturlyfjum, heyrði að ef þú tækir eina töflu af hrossadeyfilyfjum myndirðu finna vímu sem ekki væri lík neinni annarri. Þannig að hann tók fimm. Að sjálfsögðu þoldi hann það ekki og féll í yfirlið yfir trommusettið á miðjum tónleikum. 

Keith Moon gerði margar tilraunir til þess að losna við eiturlyfjabölið sem fylgt hafði honum meira en helming ævi sinnar. Það er kaldhæðni örlaganna að síðasta tilraunin dró hann til dauða. Honum hafði gengið vel að halda sér frá eiturlyfjunum með læknalyfjum sem áttu að draga úr lönguninni. En þar sem Keith Moon vildi alltaf meira ákvað hann að taka fyrir svefninn tvöfaldan skammt af þessum læknalyfjum en það varð honum um megn og hann lést í svefni. Lyfin sem áttu að lækna hann drógu hann til dauða. Myndin hérna til hægri er síðasta myndin sem tekin var af Keith, kvöldið áður en hann dó.

Keith Moon hafði mikið dálæti af því að syngja. Honum hafði þó verið sagt það hvað eftir annað að hann væri vitalaglaus og gæti ekki sungið til að bjarga lífi sínu. Þess vegna gaf hann út sólóplötu, til þess að sanna fyrir öðrum að hann væri í raun fínasti söngvari. Platan, sem hét Two sides of the moon, kom út árið 1975 og var rökkuð niður af öllum gagnrýnendum enda ekki mikið eyrnakonfekt þar á ferð. Þó fundust inn á milli ágætis lög og eitt þeirra var ábreiða Keith's af Bítlalaginu In my life. Ég heyrði bút úr þessu lagi á netinu fyrir margt löngu og það var eitthvað við það sem heillaði mig. Þess vegna hef ég mikið haft fyrir því að finna þessa plötu og leitin bara árangur fyrir stuttu.

Að mínu mati er þetta besta ábreiða In my life sem ég hef heyrt. Söngurinn er, eins og við mátti búast, ekki stórfenglegur en einlægnin er mikil og viljinn til að gera vel er fyrir hendi.

Ég mæli með því að menn tékki á þessu lagi í nýja, fína tónlistarspilaranum hérna til vinstri. 

 

 Fram- og bakhlið plötunnar Two sides of the moon

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


JúTjúb
Meðlimir The Who o.fl. tala um Keith Moon


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband