Aðeins af fótbolta

Ég horfði á leik AC Milan og Liverpool í gær. Leikurinn var nú yfir það heila freka bragðdaufur og allt að því leiðinlegur jafnvel. Hann endaði eins og ég var búinn að spá, að Milanmenn færu með sigur af hólmi. Ég var reyndar búinn að spá því að þeir yrðu meira sannfærandi því það var nú enginn meistarabragur á þeim þó að meistaraheppnin hafi verið með þeim í liði. Fyrra markið óttaleg heppni en seinna markið einkar glæsilegt og sérlega vel klárað.

Ég sat aftast í salnum á Hótel Framtíð því mér þykir fátt eins skemmtilegt og að fylgjast með Liverpool aðdáendum þegar þeir horfa á sína menn spila. Og ég leyni því ekki að mér finnst alveg svakalega gaman þegar illa gengur hjá þeim því viðbrögð þeirra fara ekki framhjá neinum. Sótbölvandi og plastflöskukastandi Liverpoolaðdáendur geta kætt þunglyndustu menn. 

Það athyglisverðasta í leiknum í gær fannst mér að dómarinn flautaði leikinn af 15 sekúndum áður en settur viðbótartími var liðinn. Ég held að ég hafi nú aldrei séð þetta áður í úrslitaleik því frekar er 15 sekúndum bætt við uppgefinn viðbótartíma en hitt. Auk þess voru skiptingar í viðbótartíma og þær eiga nú að telja í bættum sekúndum við þann uppbótartíma sem gefinn er.

Og þar komum við að því sem þetta blogg átti fjalla um. Innáskiptingar. Mér finnst persónulega að banna eigi innáskiptingar í uppbótartíma. Enda eru þær með öllu óþarfar þegar sá partur af leiknum er leikinn. Ég hefði nefnilega haldið að uppbótartími væri fyrir þá sem leika þessar hefpbundnu 90 mínútur (auk þeirra sem skipt er inn á í venjulegum leiktíma). Auk þess eru innáskiptingar í uppbótartíma í 98% tilvika gerðar til að tefja ef sá sem skiptir inná er með yfirhönd í leiknum vegna þess að þær skiptingar virðast ekki vera teknar inní heildarviðbótartíma (reglan er 30 sekúndur fyrir hverja skiptingu). Ég hugsa að Platini komi nú ekki til með að lesa þetta blogg en ef einhver sem þekkir hann eða hefur ítök í UEFA aulast til að lesa þetta þá er sá hinn sami vinsamlegast beðinn um að koma þessu áleiðis til þeirra sem málið varðar.

Góðar stundir 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband