Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
22.12.2008 | 22:15
Hippashow á Hótel Framtíð
Um síðastliðna helgi hélt Tónleikafélagið Ýmir (áður Tónleikafélag Djúpavogs) tónleika á Hótel Framtíð á Djúpavogi. Ástæða þess að við tókum upp þetta nafn var brotthvarf Ýmis Más Arnarssonar úr félaginu og okkur fannst við bera skilda til að heiðra hann á þennan hátt.
Ákveðið var að gera að þessu sinni hippatónlistinni skil en áður höfðum við gert íslenskri tónlist frá árunum '70-'85 og erlendri tónlist frá '65-'75 skil. Íslensk og erlend hippamúsík ásamt hippasöngleikjalögum voru leikin og stemmningin var eins og best verður á kosið. Um 90 manns mættu og skemmtu sér að ég held mjög vel. Við skemmtum okkur allavega vel og vorum ánægð með mætinguna. Gunnar frá Sigvöldum sá um að kynna og fór mikinn.
Meðfylgjandi eru tvö tóndæmi á myndformi (?).
Það fyrra er lagið Move over sem Janis Joplin gerði ódauðlegt, að þessu sinni sungið af nýliða í hópnum, Önnu Margréti Óladóttur. Hún kom að ég held flestum sem mættu á óvart því fæstir þeirra vissu ekki að stúlkan gæti sungið.
Síðara tóndæmið er lagið Love me two times eftir hljómsveitina The Doors. Var þetta lokalag fyrir uppklapp og vakti mikla lukku.
Hljóð- og myndgæði eru ekki þau bestu, en þó furðugóð miðað við að notast var við litla heimilisupptökuvél söngvarans, Kristjáns Ingimarssonar.
Tónleikarnir voru einnig teknir upp á flottari myndavél og á eftir að koma í ljós hvernig útkoman verður úr þeirri upptöku.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.8.2008 | 22:14
Hljómsveit Dallas Group frá Djúpavogi fær nýtt æfingarhúsnæði
Þessi færsla er sérstaklega fyrir Ingþór Sigurðarson frá Vegamótum.
Enn og aftur flytur hljómsveitin Dallas Group Inc. ehf.is frá Djúpavogi sig um set og nú má segja að hún sé komin hringinn, eða réttara sagt 3/4 hljómsveitarmeðlima, því þarna var æfingahúsnæði þeirra í kringum 1990, en þá var ég nú bara ennþá að éta sand, eða því sem næst. Húsnæðið er nánar tiltekið í bílskúrnum við gamla leikskólann. Djúpavogshreppur úthlutaði okkur þessu húsnæði og erum við mjög sáttir við það. Eins og gefur að skilja er margt sem þarf að lagfæra áður en nýtt húsnæði er orðið spilahæft og því var ekkert annað að gera en að hringja þrjár langar og eina stutta í Reykjavíkurhrepp og panta gólfefni og eggjabakkadýnur á veggina. Var efninu skellt á sl. miðvikudagskvöld og tók það c.a. eina kvöldstund. Rífa þurfti eitt stykki millivegg, bekk, vask o.fl. áður en gólfið var orðið lagningarhæft.
Nú á aðeins eftir að fínisera húsnæðið, redda kaffikönnu og sófum og svona og þá verður þetta hin besta aðstaða og vonandi verður hún til frambúðar.
Meðfylgjandi myndir voru teknar við framkvæmdir. Njóttu vel Ingþór minn, vona að þú fáir sjúklega heimþrá...
Trúmál og siðferði | Breytt 3.8.2008 kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)