5.6.2007 | 15:54
Hammondhátíð
Hammondhátíð á Djúpavogi er lokið og er það mál manna að sérstaklega vel hafi tekist til þetta árið. Drottning Karls Jóhanns Sighvatssonar var að sjálfsögðu í aðalhlutverki og fékk svo sannarlega að vinna fyrir kaupinu í þetta sinn enda var hún nánast stanslaust í notkun frá fimmtudagskvöldi fram að hádegi á sunnudegi en þá lauk sjómannadagsmessu í Djúpavogskirkju.
Heimamenn sáu um að skemmta fólki á fimmtudagskvöldinu á Hótel Framtíð og tókst það kvöld sérstaklega vel og ungir sem aldnir sýndu snilli sína á hljóðfærin undir traustum hammondleik herra Hammonds Djúpavogs, Svavars Sigurðssonar. Á annað hundrað manns mættu og stemmningin var frábær.
Föstudagskvöldið var undirlagt blúshundum að austan en Mæðusveitin Sigurbjörn (skipuð þremur Sigurðum og einum Birni) frá Hornafirði og Blúsbrot Garðars Harðar sáu um að svala þorsta blúsþyrstra tónleikagesta og tókst vel upp. Að öllum öðrum ólöstuðum er óhætt að fullyrða að gítarsnillingurinn Jón Hilmar Kárason í Blúsbroti Garðars hafi stolið senunni enda er hann gítarleikari á heimsmælikvarða. Mætingin var ágæt, 70-80 manns.
Á laugardeginum var hátíðin svo flutt í Íþróttamiðstöð Djúpavogs þar sem Egill Egilsson, þúsundþjalasmiður, var búinn að koma upp stórglæsilegu sviði. Landslið tónlistarmanna var mætt á Djúpavog til að sýna listir sínar og er óhætt að fullyrða að fáir hafi verið sviknir því tónleikarnir voru frábærir. Eðvald Lárusson og Halldór Bragason sáu um gítarleik, gítarleikarinn Guðmundur Pétursson sá um bassaleik, Ásgeir Óskarsson trommaði og Jakob Frímann Magnússon þandi Drottninguna. En flestra augu beindust að söngkonu sem Jakob Frímann kaus að kalla "5 karlmanna ígildi" og átti þar við Andreu Gylfadóttur sem án nokkurs vafa er ein af færustu söngkonum Evrópu en hún sá til þess að tónleikagestir, sem voru tæplega 200 talsins, færu út með nokkur kíló af gæsahúð.
Svavar Sigurðsson, Herra Hammond, á mikinn heiður skilinn fyrir einstaklega óeigingjarnt starf við að koma hátíð sem þessari á laggirnar og mega Djúpavogsbúar vera stoltir af honum og framtaki sem þessu. Menn eins og Svavar eru nauðsynlegir hverju byggðarlagi og nú þýðir lítið annað en að byrja að hlakka til næstu Hammondhátíðar. Eru Mezzoforte ekki á lausu?
Athugasemdir
Jááá ... það er gaman þegar sólin skín..!!
Ymmi (IP-tala skráð) 6.6.2007 kl. 20:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.