Færsluflokkur: Bloggar

Þetta gengur ekki lengur

Ég er mikið að velta fyrir mér að gerast bloggari aftur. Ég hef reyndar haldið úti bloggsíðu síðan 2001 en staðið mig afskaplega illa sl. ár. Einungis bloggað í törnum eða bara ekki neitt. Nú held ég að tími sé kominn að ég gerist reglulegur bloggari aftur.

Annars er svo komið að bloggrúnturinn sem ég var vanur að fara er orðinn ískyggilega stuttur. Margir af mínum vinum sem voru frábærir bloggarar eru hættir og er það miður. Nú eru allir komnir með Facebook og láta það nægja. Facebook er þó sem betur fer mikil snilld og því hægt að fyrirgefa því fólki sem hefur látið hana koma í staðinn fyrir bloggið. Það eru þó enn einhverjir bloggarar eftir; síðustu Móhíkanarnir, og er ég að spá í að slást í lið með þeim og viðhalda hinu sígilda bloggi. 

Þeir bloggarar sem eftir standa og ég fylgist með eru eftirtaldir:

Andrés Skúlason. Þessi tvöfaldi sveitungi minn heldur úti einni skemmtilegustu bloggsíðu sem ég skoða, það má hann eiga. Þrátt fyrir að ég sé ósammála honum í einu og öllu hef ég gaman af flestu því sem hann skrifar. Auk þess deilir hann með lesendum aragrúa af skemmtilegum myndum, enda einn besti ljósmyndari á Íslandi.

Kristján Ingimarsson. Hann bloggar nokkuð reglulega og er hnyttinn. 

Magni í Brekkubæ. Magni hefur upp á síðkastið bloggað reglulega og fer mikinn. 

Ingþór Sigurðarson. Gullkálfurinn frá Vegamótum er án efa einn skemmtilegasti bloggari landsins. 

Heiða á Bakka. Það kemur fyrir að ég æli úr hlátri þegar ég les bloggið hennar.

Þar með er bloggrúntinum lokað hjá mér. 

Síðan eru bloggarar eins og Harpa Rún, Frekja litla frænka, Dagur bróðir, Bidda litla, G. Þorkell o.fl. sem blogga af og til og hitta þá í mark.

Hins vegar skora ég á þá sem einu sinni héldu út frábærum bloggsíðum (eða blogga mjög sjaldan) að hugsa sinn gang og endurskoða þá ákvörðun að hætta að blogga. Þeir eru eftirtaldir:

Þröstur Fannar Árnason
Guðmundur Björnsson Hafþórsson
Hafþór Snjólfur Helgason
Arnar Pétursson
Hólmfríður Jóhanna Lúðvíksdóttir
Garðar Valur Hallfreðsson
Magnús Einþór Áskelsson
Hilmar Garðarsson

Nóg um það.

Af öðru er þetta er helst að frétta:

Þeir sem ekki eru búnir að fá sér Facebook eru vinsamlegast beðnir um að bæta úr því strax.

Þeir sem ekki hlusta á Kings of Leon eru beðnir um að bæta úr því strax.

Þeir sem ekki hafa séð Burn after reading eru löglega afsakaðir (það kunna ekki allir að dánlóda)

Fleira var það ekki.


Fartölvur...

..eru verkfæri djöfulsins.

Ég hef aldrei átt fartölvu. Ætla aldrei að eignast fartölvu.

Samt vinn ég við þetta drasl allan daginn og uppsker ekkert nema bras og vandræði.

Fari þetta í helvíti.


Það er "bullandi samkeppni"

Allavega í þessum töluðu orðum. Innan gæsalappa samt. Ekki er nú samkeppnin mikil nema ef litið er til þess að venjulega er nákvæmlega sama verð hjá öllum olíufyrirtækjunum. Þetta er því ný staða; samkeppni. Þangað til öll félögin verða komin með sama verð. Sem verður sennilega á morgun.

Þegar þetta er skrifað hefur Olís hækkað bensínlítrann um 6 krónur.
Eftir því sem ég best veit hækkað N1 lítrann um 2 krónur og Skeljungur hefur ekki enn hækkað. Þeir verða þó eflaust búnir að hækka þegar ég verð búinn að ýta á "vista" hnappinn.

Þetta þýðir þó það að N1 er að bjóða ódýrara bensín en Olís og Skeljungur býður ódýrara en bæði N1 og Olís. Sem þýðir "bullandi samkeppni".

Bara spurning hvað það helst lengi.


mbl.is Eldsneytisverð snarhækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég þoli ekki þegar...

... fyrirtæki geta ekki gefið upp verð á vörum sem sýndar eru á heimasíðum þeirra. 

 


Það er allt til...

myinterestingfiles135145Þegar maður heldur að maður hafi séð það allt, þá sér maður eitthvað nýtt og eitthvað sem maður að hélt að væri bara til í ævintýramyndum. Maður getur nú fátt annað en vorkennt veslings manninum og vonað að þær aðgerðir sem nú þegar eru farnar að skila árangri, eigi eftir að gera honum kleyft að lifa eðlilegu lífi.

Svo er maður að kvarta ef maður finnur einhversstaðar til.... 

 


mbl.is „Trjámaðurinn" á batavegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæmar breytingar

250px-Megas_LMB1Vil byrja á því að segja að mér finnst að sjálfsögðu frábært að minn maður hafi fengið 4 tilnefningar.

Fyrir nokkrum árum fannst mér Íslensku tónlistarverðlaunin frábær hátíð. Ég beið spenntur að heyra tilnefningarnar og fylgdist með herlegheitunum í sjónvarpinu.

Nú finnst mér þessi hátíð vera orðin frekar þunn. Sennilega vegna þess að hætt var að veita hljóðfæraleikurum verðlaun. Sem er náttúrulega fáránlegt. Hver ætli hafi ákveðið það að nú skyldi hætta að útnefna í flokki gítar-, bassa-, trommu-, hljómborðs ogsvomættilengitelja leikara? Mér finnst skrítið að aðeins söngvarar séu tilnefndir. 

Svo verð ég að segja að mér finnst, þegar ég les yfir listann, þetta vera sama fólkið/böndin aftur og aftur sem tilnefnd eru. Er íslensk tónlistarútgáfa virkilega svona lítil? 3 tilnefningar eru jafnan í hverjum flokki. Maður hefði nú haldið að 5-6 tilnefningar væru lágmark. 

Svo hefur Urður (í Gus Gus) verið tilnefnd sem söngkona ársins í égveitekkihvað mörg ár í röð. Ég heyri hana sárasjaldan syngja. Ætli hún sé bara tilnefnd til að fylla upp í listann?

En ég má til með, hér í lokin, að hrósa aðstandendum hátíðarinnar fyrir að tilnefna á ný textahöfund ársins, en sá liður var aflagður í einhverjar hátíðir í röð og þess í stað kom myndband ársins. Sem betur fer hefur því verið breytt á ný. 

 


mbl.is Tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna birtar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heiðurshjónin Steindór Einarsson og Rúna Birna Halldórsdóttir frá Víðastöðum

Aths.:Langar að birta hér frásögn sem ég samdi fyrir réttu ári síðan á gamla blogginu mínu. Sagan hlaut góðar undirtektir og því leyfi ég henni að fá annan séns hér.

Þegar ég stend við það að draga björg í bú í beituskúrnum rifjast oft upp fyrir mér fysta skiptið sem ég afrekaði það að draga björg í bú. Það var ekki stór björg sem ég dró í búið en sennilega hefur hún skipt einhverju máli í einhvern tíma. Ég var, að ég hygg, 11 ára gamall og man þetta eins og það hafi gerst í gær.

Í þá daga var það siður þeirra heiðurshjóna, Steindórs Einarssonar og Rúnu Birnu Halldórsdóttur á Víðastöðum í Hjaltastaðaþinghá, að leggja leið sína á rútu sinni, klyfjaðri kartöflum og rófum, niður á Borgarfjörð í þeim tilgangi að selja sísvöngum Borgfirðingnum hluta uppskerunnar. Sá siður komst á að ég, þá barnungur drengurinn, var fenginn til þess að taka rúntinn með þeim um fjörðinn.

Hlutverk mitt var að lokka grandalausan sveitavarginn út að rútunni til þess að Steindór og frú gætu sýnt honum hvað þau hefðu þar að geyma. Þetta er reyndar kannski örlítið ýkt lýsing því það vissu alltaf allir með löngum fyrirvara að Steindór og frú væru væntanleg, en ég var fenginn til að banka á hvern bæ svo þau þyrftu nú ekki að óþörfu að hreyfa lúin bein eftir kartöflu- og rófutýnslu síðustu missera. Það má kannski fylgja sögunni að mér fannst alveg einstakt að hver einn og einasti kúnni skyldi kaupa af þeim og það engar smá birgðir. Ég taldi alveg víst að það væri allt saman mér að þakka, slík væri sannfæringin þegar ég útskýrði fyrir heimilisfólki að Steindór væri kominn til að selja kartöflur og rófur. Má vera að sölumannseðlið í mér hafi spilað þarna inn í en líklegri verður sú skýring að teljast að fólk hafi einfaldlega verið farið að lengja eftir varningnum.

Mér fannst þetta einstaklega göfugt starf og hlakkaði til í hvert skipti sem ég vissi að heiðurshjónin væru væntanleg af Héraði. Launin voru heldur ekki af lakara taginu. Ég er ekki viss um að krakkar nú til dags myndu gleðjast yfir laununum en mér fannst þau einstaklega höfðingleg. Og því gleymi ég aldrei þegar ég kom með þau heim í fysta sinn.

Það er mér ógleymanlegt þegar ég gekk inn um heimilisdyrnar í Heiðmörk eftir fyrstu ferðina, haldandi á tveimur kartöflusekkjum og einum rófusekk. Karl faðir minn lá upp í sófa og reis upp þegar hann sá mig. Það er ekki til neins að vera að orðlengja það, en það get ég sagt ykkur að stoltið skein úr augum hans. Ég man það sérstaklega að pabbi sagði við mig að ég mætti vera stoltur af því að þetta væri í fyrsta skipti sem ég færði eitthvað til heimilisins. Ég hafði nú svosem ekki áttað mig á því, þegar ég gekk inn um dyrnar, hversu mikill fengur þetta væri fyrir heimilið, en þegar pabbi sagði þetta við mig má segja að ég hafi verið í þann mund að rifna úr monti.

Þessi búbjargardráttur (þetta er nýtt orð sem ég fann upp) varð árlegur viðburður í ein 3-4 ár. Ég man nú ekki hvað varð til þess að Steindór og frú hættu að fá mig til að aðstoða sig. Kannski var skýringin sú að ég hafði misst sölumannseðlið, má vera að þeim hafi fundist að sannfæringarkrafturinn væri horfinn. Það getur líka verið að sú staðreynd að ég fór snemma í mútur hafi haft einhver áhrif. Hvað sem því líður er ég ævinlega þakklátur þeim hjónum fyrir þetta tækifæri. Tækifæri til að sýna að ég gat hjálpað til. Þó það væru ekki nema kartöflur og rófur sem ég færði til heimilisins þá hefur foreldra mína kannski munað um það í einhvern tíma.

Ja, allavega var pabbi stoltur. Og mamma grét.


Að banka upp á

Æ, veslings piltarnir. Maður hálfvorkennir þeim fyrir að hafa óvart bankað upp á vitlausri íbúð, hrundið upp hurðinni og handleggsbrotið konu á níræðisaldri. Mönnum verða nú á mistök. (Fyrir þá sem ekki skildu þá var þetta kaldhæðni.)

Mér finnst það ekki skipta neinu máli og að það eigi ekki að koma fram í fréttinni að piltarnir hafi ruglast á íbúðum. Það skiptir bara ekki nokkru einasta mál. Það má kannski þakka fyrir að ekki fór verr því hvað veit maður hvað þeir hefðu gert manneskjunni sem þeir voru í raun að leita að? 

Úr fréttinni af mbl.is:
Þeir gáfu þá skýringu á því sem gerðist að um óviljaverk hefði verið að ræða og þeir hefðu bankað upp á hjá konunni fyrir mistök.

Þetta var nú aðeins meira en að banka. 


mbl.is Þrír piltar ruddust inn í íbúð konu á níræðisaldri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

5 stiga forskot

452022AÞetta var sko alls ekkert leiðinlegt.

Þrátt fyrir að vera yfir það heila nokkuð slakir þá hafðist þetta nú gegn baráttuglöðu en frekar bitlausu liði Blackburn. 3 verðskulduð stig og 5 stiga forskot á toppnum. 


mbl.is Arsenal komið með fimm stiga forskot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Karlgreyið

452002AUmræðan í samfélaginu er orðin svolítið mikið í þessa áttina; "Æ, karlgreyið..", í staðinn fyrir "Karlfíflið!"

Ég sé á myndinni hér til hliðar sorglegan gamlan karl sem hefur gert margsinnis upp á bak og veit ekki sitt rjúkandi ráð. Veit ekki hvenær á að hætta. Situr einn við borð á fundi sem hann mætti alltof seint á, ver sínar gjörðir, segist hafa "axlað ábyrgð" og sé að velta fyrir sér hvort hann ætli að taka aftur við sem borgarstjóri. Hvað er í gangi? 

Er hægt að kenna ellikerlingu um? Eða er þetta bara siðleysi í Vilhjálmi? 

 


mbl.is Vilhjálmur: Hef axlað ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband