Heiðurshjónin Steindór Einarsson og Rúna Birna Halldórsdóttir frá Víðastöðum

Aths.:Langar að birta hér frásögn sem ég samdi fyrir réttu ári síðan á gamla blogginu mínu. Sagan hlaut góðar undirtektir og því leyfi ég henni að fá annan séns hér.

Þegar ég stend við það að draga björg í bú í beituskúrnum rifjast oft upp fyrir mér fysta skiptið sem ég afrekaði það að draga björg í bú. Það var ekki stór björg sem ég dró í búið en sennilega hefur hún skipt einhverju máli í einhvern tíma. Ég var, að ég hygg, 11 ára gamall og man þetta eins og það hafi gerst í gær.

Í þá daga var það siður þeirra heiðurshjóna, Steindórs Einarssonar og Rúnu Birnu Halldórsdóttur á Víðastöðum í Hjaltastaðaþinghá, að leggja leið sína á rútu sinni, klyfjaðri kartöflum og rófum, niður á Borgarfjörð í þeim tilgangi að selja sísvöngum Borgfirðingnum hluta uppskerunnar. Sá siður komst á að ég, þá barnungur drengurinn, var fenginn til þess að taka rúntinn með þeim um fjörðinn.

Hlutverk mitt var að lokka grandalausan sveitavarginn út að rútunni til þess að Steindór og frú gætu sýnt honum hvað þau hefðu þar að geyma. Þetta er reyndar kannski örlítið ýkt lýsing því það vissu alltaf allir með löngum fyrirvara að Steindór og frú væru væntanleg, en ég var fenginn til að banka á hvern bæ svo þau þyrftu nú ekki að óþörfu að hreyfa lúin bein eftir kartöflu- og rófutýnslu síðustu missera. Það má kannski fylgja sögunni að mér fannst alveg einstakt að hver einn og einasti kúnni skyldi kaupa af þeim og það engar smá birgðir. Ég taldi alveg víst að það væri allt saman mér að þakka, slík væri sannfæringin þegar ég útskýrði fyrir heimilisfólki að Steindór væri kominn til að selja kartöflur og rófur. Má vera að sölumannseðlið í mér hafi spilað þarna inn í en líklegri verður sú skýring að teljast að fólk hafi einfaldlega verið farið að lengja eftir varningnum.

Mér fannst þetta einstaklega göfugt starf og hlakkaði til í hvert skipti sem ég vissi að heiðurshjónin væru væntanleg af Héraði. Launin voru heldur ekki af lakara taginu. Ég er ekki viss um að krakkar nú til dags myndu gleðjast yfir laununum en mér fannst þau einstaklega höfðingleg. Og því gleymi ég aldrei þegar ég kom með þau heim í fysta sinn.

Það er mér ógleymanlegt þegar ég gekk inn um heimilisdyrnar í Heiðmörk eftir fyrstu ferðina, haldandi á tveimur kartöflusekkjum og einum rófusekk. Karl faðir minn lá upp í sófa og reis upp þegar hann sá mig. Það er ekki til neins að vera að orðlengja það, en það get ég sagt ykkur að stoltið skein úr augum hans. Ég man það sérstaklega að pabbi sagði við mig að ég mætti vera stoltur af því að þetta væri í fyrsta skipti sem ég færði eitthvað til heimilisins. Ég hafði nú svosem ekki áttað mig á því, þegar ég gekk inn um dyrnar, hversu mikill fengur þetta væri fyrir heimilið, en þegar pabbi sagði þetta við mig má segja að ég hafi verið í þann mund að rifna úr monti.

Þessi búbjargardráttur (þetta er nýtt orð sem ég fann upp) varð árlegur viðburður í ein 3-4 ár. Ég man nú ekki hvað varð til þess að Steindór og frú hættu að fá mig til að aðstoða sig. Kannski var skýringin sú að ég hafði misst sölumannseðlið, má vera að þeim hafi fundist að sannfæringarkrafturinn væri horfinn. Það getur líka verið að sú staðreynd að ég fór snemma í mútur hafi haft einhver áhrif. Hvað sem því líður er ég ævinlega þakklátur þeim hjónum fyrir þetta tækifæri. Tækifæri til að sýna að ég gat hjálpað til. Þó það væru ekki nema kartöflur og rófur sem ég færði til heimilisins þá hefur foreldra mína kannski munað um það í einhvern tíma.

Ja, allavega var pabbi stoltur. Og mamma grét.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband