Færsluflokkur: Bloggar

Magnús Einarsson - pt. II

Eftir nokkrar ábendingar og jafnvel skammir vegna ummæla minna um Magnús Einarsson, útvarpsmann, (auk þess sem hann hefur kannski skammast sjálfur hér á síðunni, nema einhver sé að fíflast í mér) hef ég tekið þá ákvörðun að biðjast afsökunar á óþörfum, niðrandi og óviðeigandi ummælum mínum í hans garð.

Það er reyndar svolítið mikil kaldhæðni að ég sé að kenna krökkum í grunnskóla að meiðandi ummæli á heimasíðum í garð einstaklinga séu einelti. En það er nú bara svoleiðis. Þetta er einelti. Og það sem ég hef skrifað hér á síðu minni um Magnús Einarsson er ekkert annað en einelti. Maður á nú að vera orðinn þroskaðri en það að sitja fyrir framan tölvuna sína og ausa fjúkyrðum yfir mann sem maður þekkir ekki neitt.

Hins vegar tek ég það fram að þegar ég hef skrifað um Magnús Einarsson, þá hef ég skrifað um útvarpsmanninn Magnús, ekki persónuna. Er þar mikill munur á en þó ekkert sem hægt er að réttlæta.

Hins vegar skulum við hafa það á hreinu að þó að ég sé að biðjast afsökunar á ummælum mínum, þýðir það ekki að mér finnist hann betri útvarpsmaður fyrir vikið. Ég hef nú aðeins hlustað á hann síðustu daga og hann hefur ekkert skánað, jafnvel bara versnað. En ég segi nú við sjálfan mig að hann sé þó skömminni skárri en Ívar Guðmundsson á Bylgjunni og af tvennu illu hlusti ég frekar á Magnús.

Reyndar hef ég greinilega ekki áttað mig á því að ég vinn ekki lengur í beitningarskúr, heldur skrifstofu og get þess vegna hlustað á þá útvarpsstöð sem ég kýs í gegnum netið. 

En þá hef ég líka ekkert til þess að mæðast yfir. 

-----

Niðrandi ummæli mín um Magnús má nálgast hér:
http://olafurbj.blog.is/blog/olafurbj/entry/250661/

Og í kommentun í þessari færslu:
http://olafurbj.blog.is/blog/olafurbj/entry/344913/#comments


Blogg?

Hér á blog.is er talað um blogg í karlkyni. Ég komst að þessu þegar ég fékk þessi skilaboð:
"Engir bloggar eru til fyrir þennan notanda."

Hér er bloggur
um blogg
frá bloggi
til bloggs

Hér er bloggurinn
um blogginn
frá blogginum
til bloggsins

Ég beygi þetta semsagt eins og flokkur.

Hélt að það væri nú yfirleitt talað um blogg í hvorugkyni...

Hér er blogg
um blogg
frá bloggi
til bloggs

Hér er bloggið
um bloggið
frá blogginu
til bloggsins

Er ég eitthvað skrýtinn?

p.s. ef maður setur villupúkann á þessa færslu þá þekkir púkinn ekki orðið bloggur... merkilegt?


Sviðamessa

Best að auglýsa aðeins.

Nú styttist óðum í hina árlegu Sviðamessu, sem haldin er á Hótel Framtíð. Annað árið í röð ætlar Tónleikafélag Djúpavogs að vera með tónlistarsýningu að áti loknu en í fyrra tók Tónleikafélagið fyrir árin 1970-1985 í íslenskri tónlist. Það heppnaðist mjög vel.

Í ár er þemað erlend músík frá 1965 - 1975. Allt frá Bítlunum til Bowie. Lagavalið er mjög fjölbreytt og að okkur finnst mjög fínt. Af lögum má nefna Lady Madonna (The Beatles), She's not there (Zombies), Heart of Gold (Neil Young), Time (Pink Floyd), Summer in the city (Lovin' spoonful), White room (Cream) og m.fl. Alls verður prógrammið rúmlega 20 lög.

Æfingar eru á fullu og mikil stemmning komin í mannskapinn.

Þetta verður snilld, látið sjá ykkur.

 

 


Myndavélarsvipur

Ég er alltaf að rekast á fólk á netsíðum sem er með sérstakan svona myndavélarsvip. Lendi kannski inn á einhver albúm hjá fólki sem finnst fátt skemmtilegra en að taka myndir af sér með öðrum og er þá alltaf með sama svipinn. Þið hljótið að hafa tekið eftir þessu.

Mér finnst þetta pínulítið hallærislegt, ég verð að viðurkenna það. Það eru kannski 100 myndir inni á sömu síðunni og alltaf sami uppsetti myndavélarsvipurinn. Vinsælast, sérstaklega hjá stelpum, er að setja svona einhverskonar stút á munninn. Það á víst að vera rosalega flott. Gamla góða brosið er að víkja undan þessum stút. Hinn aðilinn á myndinni (sem fólk tekur mynd af sér með) er alltaf með einhvern kjánalegan svip eða bros en aðilinn sem tekur myndina er alltaf með stút. Lætur þann sem tekur myndina líta mjög vel út.

Svo finnst mér ég sjá oftar og oftar heilu myndaseríurnar inni á heimasíðum þar sem fólk er bara eitt með myndavélina að taka myndir af sjálfu sér. Venjulegast eru myndirnar bara teknar inni í herbergjum og fólk tekur tugi mynda af sjálfu sér með allskonar flotta svipi og setur svo á netið. Er það nú ekki svoldið kjánalegt? Jafnvel svoldið einmanalegt.  

Svona er þetta nú. 


Grill

Það er fátt, ef nokkuð, sem er leiðinlegra en að þrífa samlokugrill.

Verslunarmannahelgarblogg

Verslunarmannahelgin var fín. Ég var ekki að rolast einn í bænum.
Ætlunin var alltaf að fara í Ásbyrgi. Slæm veðurspá gerði það að verkum að það varð ekkert úr því þó við hefðum eiginlega alltaf verið á leiðinni þangað. Fórum þess í stað á Borgarfjörð og það var alveg hreint afbragð.

Skelltum okkur á hagyrðingamót þar sem Gísli Einars fór á kostum ástamt 6 hagyrðingum. Eflaust er þetta með bestu skemmtunum sem maður sækir. Eina sem ég get sett út á er að þær vilja verða aðeins of langar. Ég bara get ekki hlegið meira þegar ég er búinn að hlæja stanslaust í 3 tíma. 2 tímar væri fín lengd. En það var vel mætt, kjaftfullt hús og rífandi stemmning.

Laugardagurinn var athyglisverður. Veðrið var fínt framan af, fórum og fylgdumst með misjafnlega velásigkomnum og misjafnlega timbruðum einstaklingum spila fótbolta á Henson mótinu. Það var fínt og veðrið eins og best verður á kosið til fótboltaiðkunar. Um kvöldið var haldin grillveisla í garðinum í Heiðmörk. Það hafði nú spáð rigningu svo við ákváðum að henda upp tveimur partítjöldum. Þegar seinna tjaldið var að verða komið upp þá var veðrið orðið frekar athyglisvert. Það þýddi nú ekkert að pæla í því. Það var allt notað til að fest tjöldin betur niður og þó að Katrín (fellibylurinn) hefði heimsótt okkur þá hefðu tjöldin staðið það af sér. Þegar tjöldin voru klár þá var Badda Helga komið fyrir í þeim. Hann átti nefnilega að skemmta. Sem hann og gerði. Í 20 metrum og rigningu stóð Baddi sína vakt og spilaði eins og hann fengi borgað fyrir það (sem hann fékk ábyggilega ekki). Doddi og Bjössi Skúla sáu um að grilla og fólk hrúgaðist bara inn í bílskúrinn til að éta, þó sumir hafi tekið á honum stóra sínum og étið úti í partítjaldinu. En þegar leið á kvöldið er óhætt að segja að stóra óveðrið hafi komið. Það var slagviðri og ekki hundi út sigandi. 

Sunnudagur til sælu. Afslöppun og leti. Man barasta ekkert hvað ég gerði á sunnudeginum. Hann hlýtur að hafa verið fínn.

Á mánudeginum var sú ákvörðun tekin að bruna upp í Atlavík en þangað höfðu Ásbyrgisfararnir flestir flúið. Við hentum upp tjaldi í Atlavík og um kvöldið grilluðum við (Guðjón, Bella og Heiða) og drukkum bjór. Það var afskaplega fínt. Ég er alls ekki mikill tjaldmaður. Ég skal alveg viðurkenna það. Það sleppur þó að sofa í tjaldi þegar maður er með góða dýýýýýnu og þegar það er ekki rigning. Ég hafði góða dýnu og það var ekki rigning en ég var samt ekki hrifinn. Hitinn hefur sennilega farið niður fyrir frostmark og ég var hræddur um á tímabili að við bókstaflega frysum í hel. Sennilega hafa það verið óþarfa áhyggjur því við frusum ekki í hel. Það varð ekki einu sinni neinum meint af vistinni. Ekki einu sinni 8 mánaða gömlum syni mínum. En það var samt kalt. 

Þriðjudagurinn heilsaði okkur með sól og 20 stiga hita. Eftir það sem maður gerir yfirleitt í svona fjölskylduútilegu (sitja í sólinni, spila badminton og þetta drasl) var öllu pakkað saman og ákveðið að kíkja upp á Kárahnjúka. Lónið er að verða helvíti glæsilegt, sennilega það eina merkilega þarna, fyrir utan stíflurnar því ekki er náttúrufegurð fyrir að fara þarna í þessu óræktardrullusvaðsþurrkuntu svæði. Menn ættu að væla aðeins meira yfir því að það sé verið að sökkva þessu drasli.

Helgin var semsagt mjög fín.


Vinnuskipti

Það er semsagt þó nokkuð að gerast hjá mér þessa dagana. Ég er að byrja í nýrri vinnu sem er margskipt og hefur marga starfstitla. 1. júlí byrjaði ég að vinna á hreppskrifstofunni hér á Djúpavogi og hef þar starfsheitið Tæknistjóri/Vefstjóri. Felst starfið í umsjón vefs Djúpavogshrepps og öllu því sem tengist tæknihluta Djúpavogshrepps, þ.e. umsjón tölvukerfis á hreppsskrifsstofu og öllum tölvum í stofnunum tengdum hreppnum (leikskóla, elliheimili, áhaldahúsi, íþróttamiðstöð, bókasafni, tónskóla o.s.frv.

Síðan mun ég 1. ágúst segja skilið við beitninguna alfarið og byrja að vinna (samfara starfsheitinu vefstjóri/tæknistjóri hjá hreppnum) hjá Grunnskóla Djúpavogs. Þar mun ég hafa heitið Kennari/Umsjónarmaður tölvukerfa en ég mun kenna tölvufræði ásamt einhverju fleiru og sjá um tölvukerfið í Grunnskólanum. Þar með er starfsheitið orðið Vefstjóri/Tæknistjóri/Kennari/Umsjónarmaður tölvukerfa. En sennilega auðveldast að nota starfsheitið hreppsstarfsmaður enda heyrir þetta allt undir hreppinn þegar upp er staðið.

Þar með verður 2ja ára starfsferli mínum sem beitningarmaður formlega lokið. Það er sennilega fátt þægilegra heldur en að vera beitningarmaður. Ræður vinnutímanum sjálfur, margir frídagar, fínt kaup. Ég hefði ekkert verið að þreifa fyrir mér annars staðar á vinnumarkaðinum ef beitningin væri ekki svona slítandi en eftir 2ja ára stanslausa beitningu finnur maður til alls staðar. Í öllum líkamanum. Axlir orðnar lúnar, mjaðmir, hné og hendur. Auk þess er bakið lélegt og maður er með sára olnboga. Svo er maður að væla eftir 2 ár þegar mamma og Sessa gamla er búnar að vera að beita síðan elstu menn muna.

En nú hvet ég alla til að fara á www.djupivogur.is og fylgjast með hvernig ég stend mig sem nýr vefstjóri.



Hressandi

Það sem er hressandi þessa dagana er eftirfarandi:

Arcade Fire - Intervention
Richard Thompson - Dad's gonna kill me
Megas -  Flærðarsenna
The White Stripes - Icky Thump
Pétur Ben, Ólöf Arnalds og Lay Low - Freight train
Ljótu hálfvitarnir - Sonur hafsins
Arctic Monkeys - Brianstorm
Hvanndalsbræður - Maístjarnan
Smashing Pumpkins - Tarantula
Guns 'n Roses - Better (mættu nú fara að setja það í playlistann á Rás2)

Það sem er ekki hressandi þessa dagana er eftirfarandi:

Fergie - Big girls don't cry
Helvítis eilífðarlögin hans  Magnúsar Einarssonar... allt með Rythm kings, Eric Clapton, Snörunum o.s.frv

Plötur sem ég mæli með þessa dagana:

Ólöf Arnalds - Við og við
Battles - Mirrored (Magnaðir helvítis tónlistarmenn - Blanda af Living colour og Mars Volta)
Wilco - Sky blue sky
Svo á The Wall með Pink Floyd alltaf við og sérstaklega þessa dagana þar sem Dúndurfréttir og Sinfó flytja verkið á fimmtudags- og föstudagskvöld.

Fleira var það ekki. 


Herferð

Ég þarf ekkert að leyna áhyggjum mínum af áhugaleysi sem virðist einkenna þessa síðu. Áhugaleysi mitt til skrifa er svolítið en áhugaleysi þeirra fjölmörgu fastagesta sem ég hef haft í gegnum bloggtíð mína sem spannar ein 5-6 ár er gríðarlegt og ástæða til að hafa miklar áhyggjur af. Eftir að ég flutti af www.simnet.is/jeremy hefur allt verið á niðurleið, eins og ég var svosem búinn að spá. Wordpress var ekki að meika það og nú virðist enginn vita af þessari síðu nema Erla, Ýmir og Ingþór. Ekki það að þau séu eitthvað ómerkileg, nema síður sé, enn mér þætti gaman ef gamlir fastagestir færu nú að gera vart við sig.

Því ákvað ég í kvöld að fara í smá herferð. Ég er með linka á nokkuð marga af þessum fastagestum og hef gert formlega innreið í gestabók þeirra og ákveðið að pressa á þá að uppfæra linkinn minn sem þeir hafa á síðum sínum en hann er ýmist stílaður á simnet eða worpress. Ef þessi herferð á ekki eftir að hafa áhrif er spurning hvort mál sé að linni. 

Einn minna eftirlætis fastagesta hefur ekki látið heyra í sér í einhver ár. Þá er spurning hvort leyfilegt sé að kalla hann fastagest. Magnús Jónsson sem er háskólamenntaður andskoti og með sjálfsagt alltof há laun var manna duglegastur að kommenta á skrif mín og pressa á mig ef engin voru skrifin í einhvern tíma. Ég auglýsi hér með eftir nærveru hans. 

Ég ætla svosem ekki að nefna fleiri nöfn en taki þeir það til sín sem eiga.

Fleira var það ekki bili.

Gestabók. 


Mínir menn

Það er óhætt að segja að "mínum mönnum" gangi ekki vel þessa dagana og undanfarin misseri. Alveg sama á hvaða vettvangi þá gengur þeim öllum illa. Veit ekki hvort þetta er svona hjá öllum, að öllum "þeirra mönnum" gangi illa í einu. Má vera að það haldist í hendur eða að þetta sé svona einstök óheppni hjá mér. En hverjir eru þessir "mínir menn"?

Allir eiga "mína menn". Það tala allir um "mína menn".

Mínir menn eru:

Arsenal - Þeir skitu á sig á síðasta tímabili
KR - Skítalyktin finnst alla leið á Djúpavog
Framsóknarflokkurinn - Riðu ekkert sérstaklega feitum hesti frá kosningum
Íslenska landsliðið í knattspyrnu -  Þarf ég að útskýra það eitthvað nánar?

Spurning hvort ég eigi að fara að halda með ManUtd - FH - Sjálfstæðismönnum og Brasilíu. Þá gengur þeim kannski illa en hinum sönnu "mínum mönnum" vel.  

Annars er það helst að frétta að ég er búinn að taka Ólöfu Arnalds í sátt. Það var erfitt þar sem ég var búinn að skíta svo mikið yfir hana bæði við vini og kunningja.  En stundum þarf maður að éta yfirlýsingar ofan í sig og það er svosem ekkert að því. Ég er mjög hrifinn af því sem Ólöf er að gera. Sérstaklega þegar maður nær að hlusta á textana. Þeir eru snilld. Kannski var það ekkert svo fjarri lagi hjá Óla Palla þegar hann sagði að við værum búin að eignast kvenkyns Megas. Ég var ekki sáttur við þá yfirlýsingu þá en ég er mjög glaður í dag. Þó að mínum mönnum gangi illa.

Svo er Verum í sambandi með Sprengjuhöllinni gríðarlega hressandi lag.

Svo má kannski aðeins fara að minnka spilunina á Ég og heilinn minn. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband