Magnús Einarsson - pt. II

Eftir nokkrar ábendingar og jafnvel skammir vegna ummæla minna um Magnús Einarsson, útvarpsmann, (auk þess sem hann hefur kannski skammast sjálfur hér á síðunni, nema einhver sé að fíflast í mér) hef ég tekið þá ákvörðun að biðjast afsökunar á óþörfum, niðrandi og óviðeigandi ummælum mínum í hans garð.

Það er reyndar svolítið mikil kaldhæðni að ég sé að kenna krökkum í grunnskóla að meiðandi ummæli á heimasíðum í garð einstaklinga séu einelti. En það er nú bara svoleiðis. Þetta er einelti. Og það sem ég hef skrifað hér á síðu minni um Magnús Einarsson er ekkert annað en einelti. Maður á nú að vera orðinn þroskaðri en það að sitja fyrir framan tölvuna sína og ausa fjúkyrðum yfir mann sem maður þekkir ekki neitt.

Hins vegar tek ég það fram að þegar ég hef skrifað um Magnús Einarsson, þá hef ég skrifað um útvarpsmanninn Magnús, ekki persónuna. Er þar mikill munur á en þó ekkert sem hægt er að réttlæta.

Hins vegar skulum við hafa það á hreinu að þó að ég sé að biðjast afsökunar á ummælum mínum, þýðir það ekki að mér finnist hann betri útvarpsmaður fyrir vikið. Ég hef nú aðeins hlustað á hann síðustu daga og hann hefur ekkert skánað, jafnvel bara versnað. En ég segi nú við sjálfan mig að hann sé þó skömminni skárri en Ívar Guðmundsson á Bylgjunni og af tvennu illu hlusti ég frekar á Magnús.

Reyndar hef ég greinilega ekki áttað mig á því að ég vinn ekki lengur í beitningarskúr, heldur skrifstofu og get þess vegna hlustað á þá útvarpsstöð sem ég kýs í gegnum netið. 

En þá hef ég líka ekkert til þess að mæðast yfir. 

-----

Niðrandi ummæli mín um Magnús má nálgast hér:
http://olafurbj.blog.is/blog/olafurbj/entry/250661/

Og í kommentun í þessari færslu:
http://olafurbj.blog.is/blog/olafurbj/entry/344913/#comments


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Óli minn,

Mikið er það gott að þú  baðst afsökunar á skrifum þínum um Magnús Einarsson útvarpsmann, sem mér þótti ekki sæmdandi .  Þú ert miklu meiri maður að viðurkenna að þú hafir farið yfir strikið.  Magnús finnst mér ágætur útvarpsmaður og ég man að ég var að vinna með honum í saltfiski á Höfn í kringum 1970 ásamt Axeli Aðalsteinssyni og reyndust þeir báðir góðir vinnufélagar. 

 Kveðja

Pabbi

Pabbi þinn (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 13:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband