Færsluflokkur: Tónlist

Stevie Riks

Jæja góðir lesendur.

Nú ætla ég að kynna ykkur fyrir grínista sem ég er búinn að vera að stúdera á YouTube upp á síðkastið. Ég rakst á hann fyrir einskæra tilviljun og er eiginlega ekki búinn að gera neitt annað í tölvunni síðustu daga en að skoða þau myndbönd sem hann hefur sett inn.

Stevie er eftirherma og hermir eftir tónlistarmönnum, breskum aðallega enda er hann breti sjálfur. Hann hefur sent inn á fimmta hundrað myndbönd og er óhætt að segja að þarna sé ótrúlegur talent á ferð. Hann er eftirherma af guðs náð en jafnframt fínn tónlistarmaður og hörku söngvari. Fyrst og fremst er hann þó húmoristi.

Ég hef ekki tölu á þeim tónlistarmönnum sem hann hefur hermt eftir en þeir eru orðnir andskoti margir. Sumum hermir hann eftir oftar heldur en öðrum og ber þá helst að nefna meðlimi Bítlanna, Freddie Mercury, Elvis Presley, David Bowie o.fl.

Ég ætla að láta fylgja með nokkur sýnishorn af verkum hans en hvet alla til að skoða síðuna hans á YouTube

Hér hermir hann eftir Freddie Mercury

Hér hermir hann eftir Lennon og McCartney

 Hér eftir Paul McCartney

John Lennon

Ringo

The Traveling Wilburys

 Elvis Presley (það er krípí hvað hann nær Presley vel)

Bowie (nær honum fullkomlega)

Elton John

Mick Jagger

 Cliff Richards

Elvis Costello

Art Garfunkel

Ofantalið er að sjálfsögðu aðeins brot af því sem Stevie Riks hefur afrekað.

Mæli enn og aftur með að þið skoðið síðuna hans á YouTube. Það er sannarlega hægt að gleyma sér þar.

Góðar stundir.


U2 og Bítlarnir

Ég heyrði fyrir stuttu í útvarpinu hinn yfirlýsingaglaða Ólaf Pál Gunnarsson lýsa því yfir að hljómsveitin U2 væri yfir það heila merkilegri hljómsveit en Bítlarnir sökum þess hvað þeir hafa afrekað á þeim tíma sem þeir hafa verið starfandi.

?

Hvern andskotann er hann að meina ?

Hljómsveitin U2 er búin að vera starfandi síðan 1976, eða í 33 ár. Á þessum 33 árum hafa þeir gefið út 11 breiðskífur sem flest allar eru mjög góðar. Það er ein plata á 3ja ára fresti. Taka verður þó með í dæmið að fyrsta platan, Boy, kom ekki út fyrr en 1980, þannig í raun eru þetta 11 plötur á 29 árum.

Bítlarnir voru starfandi á árunum 1960 - 1970 eða í 10 ár.  Á þessum 10 árum gáfu þeir út 13 plötur sem að mínu mati eru allar miklu betri en plötur U2. Fyrsta plata Bítlanna, Please please me, kom þú ekki út fyrr en árið 1964 þannig í rauninni eru þetta 13 plötur á 6 árum, meira en tvær plötur á ári. Þess fyrir utan liggur eftir þá óteljandi magn af aukaefni sem næði til að fylla fleiri tugi platna.

Báðar eru þessar hljómsveitir frábærar og hafa gert / gerðu stórkostlega hluti á ferli sínum. 

Mitt álit er þó það að ekki eigi að bera nokkra hljómsveit saman við Bítlana, ekki einu sinni Stones því það eru of ólíkar hljómsveitir.

En í guðanna bænum ekki reyna að halda fram að einhver hljómsveit hafi gert meira á sinni starfsævi en Bítlarnir náðu að afreka á þeirra.

 


Hilmar Garðarsson

Vinur minn, Hilmar Garðarsson, Stöðfirðingur og sonur Garðars Harðarsonar blúskóngs Austurlands, hefur gefið frá sér nýtt lag.

Á því herrans 2004 ári gaf Hilmar út sína fyrstu plötu, Pleased to leave you, sem var alveg hreint frábær plata í alla staði og fékk mikið lof gagnrýnenda á sínum tíma.

Aðdáendur Hilmars eru því búnir að bíða spenntir eftir nýju efni frá honum en ný plata er búin að vera í smíðum lengi. Nú á dögunum gaf Hilmar út nýtt lag, Aleinn á ný, sem er forsmekkur af nýju plötunni. Lagið hefur verið á topp 30 listanum á Rá2 í 3 vikur í röð og vakið verðskuldaða athygli.

Ég mæli með því fyrir alla unnendur góðrar tónlistar að kíkja á MySpace síðu Hilmars Garðarssonar, þar sem hægt er að hlusta á nýja lagið og þrjú lög af fyrstu plötu hans, þar á meðal hið frábæra lag Mr. Codein sem fékk langmesta hlustun á sínum tíma.

Smellið hér til að komast á MySpace síðu Hilmars og svo hér til að kjósa lagið hans á topp 30 lista Rásar2.

 


Hippashow á Hótel Framtíð

Um síðastliðna helgi hélt Tónleikafélagið Ýmir (áður Tónleikafélag Djúpavogs) tónleika á Hótel Framtíð á Djúpavogi. Ástæða þess að við tókum upp þetta nafn var brotthvarf Ýmis Más Arnarssonar úr félaginu og okkur fannst við bera skilda til að heiðra hann á þennan hátt.

Ákveðið var að gera að þessu sinni hippatónlistinni skil en áður höfðum við gert íslenskri tónlist frá árunum '70-'85 og erlendri tónlist frá '65-'75 skil. Íslensk og erlend hippamúsík ásamt hippasöngleikjalögum voru leikin og stemmningin var eins og best verður á kosið. Um 90 manns mættu og skemmtu sér að ég held mjög vel. Við skemmtum okkur allavega vel og vorum ánægð með mætinguna. Gunnar frá Sigvöldum sá um að kynna og fór mikinn. 

Meðfylgjandi eru tvö tóndæmi á myndformi (?).

Það fyrra er lagið Move over sem Janis Joplin gerði ódauðlegt, að þessu sinni sungið af nýliða í hópnum, Önnu Margréti Óladóttur. Hún kom að ég held flestum sem mættu á óvart því fæstir þeirra vissu ekki að stúlkan gæti sungið. 

Síðara tóndæmið er lagið Love me two times eftir hljómsveitina The Doors. Var þetta lokalag fyrir uppklapp og vakti mikla lukku.

Hljóð- og myndgæði eru ekki þau bestu, en þó furðugóð miðað við að notast var við litla heimilisupptökuvél söngvarans, Kristjáns Ingimarssonar.

Tónleikarnir voru einnig teknir upp á flottari myndavél og á eftir að koma í ljós hvernig útkoman verður úr þeirri upptöku.

 


Dallas Group

Hér til hliðar, í svokallaðan tónlistarspilara, hef ég komið fyrir lagi sem hljómsveitin Dallas Group frá Djúpavogi hljóðritaði á áramótadansleik á Hótel Framtíð árið 2006 (að ég held). Þó svo að hljómgæði séu svosem ekki upp á marga fiska og Kristján Ingimars fari á köflum með kolrangan texta, ákvað ég að láta það í spilarann.

Lagið er Húsið og ég og án vafa er ég að brjóta helling af einhverjum reglum með því að setja það hér inn (ég hef sko leyfi frá Dallas, en ekki Grafík). 


Hljómsveit Dallas Group frá Djúpavogi fær nýtt æfingarhúsnæði

Þessi færsla er sérstaklega fyrir Ingþór Sigurðarson frá Vegamótum.

Enn og aftur flytur hljómsveitin Dallas Group Inc. ehf.is frá Djúpavogi sig um set og nú má segja að hún sé komin hringinn, eða réttara sagt 3/4 hljómsveitarmeðlima, því þarna var æfingahúsnæði þeirra í kringum 1990, en þá var ég nú bara ennþá að éta sand, eða því sem næst. Húsnæðið er nánar tiltekið í bílskúrnum við gamla leikskólann. Djúpavogshreppur úthlutaði okkur þessu húsnæði og erum við mjög sáttir við það. Eins og gefur að skilja er margt sem þarf að lagfæra áður en nýtt húsnæði er orðið spilahæft og því var ekkert annað að gera en að hringja þrjár langar og eina stutta í Reykjavíkurhrepp og panta gólfefni og eggjabakkadýnur á veggina. Var efninu skellt á sl. miðvikudagskvöld og tók það c.a. eina kvöldstund. Rífa þurfti eitt stykki millivegg, bekk, vask o.fl. áður en gólfið var orðið lagningarhæft. 

Nú á aðeins eftir að fínisera húsnæðið, redda kaffikönnu og sófum og svona og þá verður þetta hin besta aðstaða og vonandi verður hún til frambúðar.

Meðfylgjandi myndir voru teknar við framkvæmdir. Njóttu vel Ingþór minn, vona að þú fáir sjúklega heimþrá...

 

DSCF0429 (Large)
 Æfingahúsnæðið fyrir breytingar
 
DSCF0432 (Large)
 Guðmundur yfirsmiður reynir að gera sér í hugarlund hvernig best sé að rífa helvítis vegginn
 

Það var svosem ekkert annað að gera en að byrja
 
DSCF0433 (Large)
Ég að máta hillurnar
 
DSCF0440 (Large)
Það hafðist að rífa vegginn enda einstakir niðurrifssérfræðingar að verkum
 
DSCF0446 (Large)
Svo þurfti að fjarlægja þennan stiga. Samvinna er lykilinn.
 
DSCF0449 (Large)
Þá var það teppalagningin, Guðjón Viðarsson kom til að taka út verkið
 
DSCF0453 (Large)
Steady hands...
 
DSCF0465 (Large)
Guðmundur mátar eggjabakkdýnurnar
 
DSCF0473 (Large)
Æfingahúsnæðið eftir breytingar. Teppi á gólfi og í gluggum, eggjabakkadýnur á veggjum

The great gig in the sky

Varla er til fallegra, hugljúfara, kraftmeira, dramatískara né dásamlegra lag heldur en The great gig in the sky af plötunni Dark side of the moon með Pink Floyd. Clare Torry gerði það ódauðlegt á sínum tíma en hún þurfti eina upptöku til að fullkomna meistaraverkið. Sagt var að hún hafi verið frekar ósátt við sína fyrstu tilraun við upptökur en þegar hún ætlaði að reyna aftur harðneituðu Floyd menn og sögðu þetta hafa tekist fullkomlega hjá henni. Þeir lugu engu um það.

Hér fyrir neðan er að finna útgáfu af laginu sem tekin var upp á PULSE tónleikum Pink Floyd árið 1994. Þar syngja þrjár söngkonur lagið, skipta því á milli sín en upphafskaflann, þann magnaðasta, fær stúlka að nafni Sam Brown. Að mínu mati nær hún nú Clare Torry ekki en mikið rosalega er þetta samt magnað hjá henni, ég fæ gæsahúð í hvert skipti sem ég hlusta á þetta. Hún endar sinn kafla með þvílíkum krafti, að ég hef sjaldan heyrt annað eins. Hún saltar þessar tuskudúkkur sem í dag tröllríða söngbransanum svo rækilega að það er ekki einu sinni fyndið.

Þær tvær sem á eftir henni koma í þessari útgáfu eru magnaðar líka, en fá ekki jafn kraftmikinn kafla til að vekja sömu athygli og Sam.

En spurningin er þessi: Hvaða íslenska söngkona getur mögulega sungið þetta svo eftir verði tekið?

Eina sem mér dettur í hug er Andrea Gylfa.

Endilega skoðið þessa klippu, hún er sannarlega mögnuð. 

 


Síldarskúr? - Nánar um tónleikana

159864AÍ frétt á mbl.is segir að nafnið Bræðslan dragi nafn sitt af samnefndum síldarskúr á Borgarfirði. Ef fréttamaður þekkir ekki muninn á síldarskúr og síldarbræðslu, þá held ég að hann ætti kanna málið betur áður en hann skrifar fréttina. Eins er prentvilla í fyrirsögninni, hann heitir Damien, ekki Damion.

En nóg um það.

Það eru að sjálfsögðu góðar fréttir að Damien Rice skuli ætla að koma í sumar. Hins vegar var ég farinn að halda að það yrði ekkert af hátíðinni, enda lítið verið um hana rætt í vetur. Ég fagna því að sjálfsögðu að Emilíana ætli að koma aftur "heim" og halda tónleika. En nú vil ég fá að heyra hana syngja af krafti, enda syngur hún best þannig. 

Annars var það sýnt og sannað að í fyrra að það þarf ekki stórt erlent nafn til að trekkja að. Megas var  frábær og hélt án efa eftirminnilegustu tónleikana í Bræðslunni hingað til, þó Belle & Sebastian hafi náttúrulega verið frábærir árið áður, þá var bara eitthvað svo magnað að sjá kallinn flytja 28 lög og blása ekki úr nös.  

Eins hefði ég ekkert haft á móti því að fá Jónas Sigurðsson aftur því hann var hálfgerður senuþjófur í fyrra enda með frábært band og snilldarlög.

Frekari upplýsingar má finna á vefsíðu Borgarfjarðar eystri, nánar tiltekið hér.


mbl.is Damion Rice leikur í Bræðslunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alvöru Íslendingur

funny-pictures-laugh2Á maður ekki bara að hegða sér eins og sannur, veruleikafirrtur Íslendingur og segja að maður haldi að þetta eigi eftir að vinna? 

Mér finnst myndbandið fínt, lagið ágætt, allavega nógu viðbjóðslega júrósvisjonlegt til að gera góða hluti. 

Meðfylgjandi mynd tengist málefninu ekki neitt. 


mbl.is „Fyndnasta og skemmtilegasta Eurovision myndbandið "
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytingar á söngkeppni framhaldsskólanna

457492Mér finnst eins það þurfi að fara að taka aðeins til í söngkeppni framhaldsskólanna. Keppnin er orðin alltof stór fyrir eitt kvöld, styttar útgáfur af lögum gera keppnina of Júróvisjónlega og svo er stressið svo mikið að láta þetta ganga að keppnin verður hálf klúðursleg.

Þannig var það allavega í kvöld.

Þessi sem vann heillaði mig svosem ekkert sérstaklega. En hann var fínn. Annað sætið fannst mér skelfilegt en sá sem hafnaði í þriðja sæti fannst mér bera sérstaklega af. Mér hefur reyndar fundist eins og þeir sem hafa hafnað í 1. sætið síðustu ár hafi alls ekki verið bestir hverju sinni. Eins vissi ég strax og ég sá skipan dómnefndar að þessu fólki væri vart hægt að treysta til að velja rétt. Því miður.

Buffarar voru að venju fínir. Þó fannst mér eins og lögum væri mörgum hverjum viljandi hraðað örlítið og því var úrkoman á köflum nokkuð klúðursleg. Þá var hljóðið heim í stofu aldrei alveg nógu gott, yfirleitt of hátt í einhverju af hljóðfærunum. 

Kynnirinn var líka fínn. Það er eitthvað við þennan dreng sem gerir það að verkum að þó hann sé hálf hallærislegur á stundum, þá finnst manni hann samt fyndinn. En sökum þess hve hraðar hendur þurfti að hafa til að láta allt ganga, þá saknaði ég þess að hann skyldi ekki kynna keppendur og lögin betur. Stundum sagði hann bara nafn skólans, stundum bara nafn keppanda og einstaka sinnum kom fram nafn lags. Hins vegar sagði hann aldrei frá upprunalegu heiti eða flytjanda hvers lags.

En með fullri virðingu fyrir Bjarti (held að hann heiti það) og kynnum síðustu ára, þá finnst mér að það ætti einfaldlega að fá Óla Palla bara til að kynna. Honum hefur alltaf tekist vel til þar sem hann hefur verið kynnir og hann kann þetta. Mér þykir of mikið gert úr því að kynnarnir séu fyndnir eða séu með eitthvað show. Yfirleitt verður útkoman drepleiðinlegir kynnar sem draga keppnina á langinn. Hins vegar tek ég fram að kynnir kvöldsins var hvorki leiðinlegur né langdreginn.

Mín skoðun er sú að kominn sé tími til að skipta keppninni í tvennt. 16 skólar keppa á tveimur kvöldum og 5-7 skólar úr hvorum hóp komast áfram í lokakvöld eða eitthvað þess háttar. 


mbl.is Verslósigur í söngkeppni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband