Færsluflokkur: Tónlist

Konur geta víst trommað!

Cindy-BlackmanAAÉg hef haldið því fram lengi, án þess að hafa nokkuð fyrir mér í því, að ekki sé til nokkur kventrommari sem hægt er að setja á stall með þeim bestu af karlkyninu. Ég er enn þeirrar skoðunar. Og ef einhverjir halda öðru fram þá endilega komið með haldbæra sönnun á því. Ég hef hins vegar gengið svo langt að halda því fram að þá sé ekki til neinn framúrskarandi kventrommari. Það er sennilega rangt hjá mér.

Ég fór á JúTjúb. Þangað fer maður ef maður vill kanna eitthvað. Ég skrifaði einfaldlega "Female drummer" og fékk upp aragrúa af myndböndum. 95% af þeim kventrommurum sem ég skoðaði voru algjörlega vonlausar og lítið annað hægt en að hlæja að þeim en svo voru nokkrar sem voru bara nokkuð góðar. Tvær þeirra voru magnaðar. Önnur heitir Cindy Blackman. Ms. Blackman er þekktust fyrir trommuleik hjá Lenny Kravitz.  Það sem heillaði mig mest var reyndar myndband af henni með hljómsveit sinni. Tjékk it át.

Ef myndbandið fyrir neðan virkar ekki þá smellið hér http://www.youtube.com/watch?v=R_21dIxpm6k  

Hin heitir Hilary Jones. Á henni kann ég engin frekari deili. Ég fann myndband með henni frá Modern Drummer Festival árið 2000. Hún er mögnuð. Tjékk it át. Konur geta víst trommað!


Sinister Dane

Jæja... erum á Borgarfirði. Eins og svo oft þegar ég kem heim á Borgarfjörð þá á ég erfitt með að sofna. Hef mikið verið að spá hvað það geti verið sem veldur því. Ein skýringin held ég að geti verið gamall vani. Ekki sá vani að eiga erfitt með að sofna, heldur sá vani að þegar ég bjó hér vakti ég yfirleitt ansi lengi frameftir um helgar. Hver veit nema að það orsaki þessar andvökur þegar ég kem heim.

Þegar maður er andvaka er oft ansi gott að skreppa á netið og kíkja t.d. á JúTjúb. Nú áðan fann ég svolítið merkilegt. Þannig er að þegar ég var úti á Spáni '99 ákvað ég að prófa að kaupa nokkra geisladiska í búð nokkurri sem ég kom í nánast daglega. Diskarnir kostuðu að mig minnir 50 peseta hver og ákvað ég einn daginn að kippa 4 diskum með. Ekki datt mér í hug að þetta væru neitt merkilegir diskar en það kom á daginn að þeir voru allir þrælfínir. Diskarnir voru með hljómsveitum sem heita (eða hétu) Room14 sem er (var) bandarísk hljómsveit í þyngri kantinum og spilaði þetta fína rokk, bandarískri hljómsveit sem hét Lucy's fur coat sem var í svona Presidents of the United States of America stíl, þýskri hljómsveit sem hét Gum (reyndar slappasti diskurinn) og síðast en ekki síst bandarískri hljómsveit sem kallaði sig Sinister Dane. Þessi diskur heillaði mig gríðarlega við fyrstu hlustun og hefur fengið að snúast í spilaranum hjá mér með vissu millibili síðan.

Sinister Dane er hljómsveit sem líkja má helst við blöndu af Living Colour og Faith no more. Gríðarlega færir hljóðfæraleikarar og svartur söngvari sem er alveg svakalega góður. Fyrir einhverja rælni datt mér í hug að skrifa Sinister Dane í leit á JúTjúb og fékk þar upp þrjú myndbönd með þessari merku hljómsveit. Hins vegar fann ég afskaplega lítið um hljómsveitina þegar ég leitaði að henni á Google, sem segir manni kannski að þeir hafi ekki verið neitt sérstaklega stórt nafn á sínum tíma. Hins vegar var hljómsveitin lofuð í bak og fyrir í commentum við myndböndin á JúTjúb, svo einhverja aðdáendur hlýtur hún að hafa átt. Platan sem ég keypti með þeim, sem heitir eftir hljómsveitinni) er eina platan sem þeir gáfu út (árið 1995) og það verð ég að segja að hún er ein af þessum heilsteyptu plötum sem maður hlusta á aftur og aftur. Ég fann myndband við uppáhalds lagið mitt á plötunni, Where's my parade, og skelli ég því hér link á það og mæli með að allir unnendur góðrar tónlistar kíki á þetta.

http://www.youtube.com/watch?v=BPQJQJjI7DM

Góðar stundir.

 


Tómas Tómasson - Jón var kræfur karl og hraustur

tomasÉg rakst fyrir tilviljun á þetta á JúTjúb. Tómas Magnús Tómasson, bassaleikari, að flytja Jón var kræfur karl og hraustur á afmælistónleikum Hins Íslenska Þursaflokks, sem fram fóru 23. febrúar síðastliðinn. Það var svosem kominn tími til að þetta yrði fest á filmu, enda Tómas búinn að syngja þetta lag með vissu millibili í 30 ár, fyrst með Þursaflokknum og svo með Stuðmönnum. Hápunktur þeirra balla sem ég hef farið á með Stuðmönnum er án undantekninga þegar Tómas flytur þetta lag með sinni hljómþýðu og angurværu rödd. Mynd- og hljóðgæði eru kannski ekki þau bestu enda myndbandið tekið upp af áhorfanda úr sal.

En nú er bara að hækka í botn og njóta.

 


Pétur Ben

Petur_BenÉg hafði orð á því hversu dásamlegt væri að innan um tilbúnu tilgerðarsöngkonurnar, sem tröllríða (ekki í bókstaflegri merkingu samt) nú öllu, leyndust gullmolar eins og Ólöf Arnalds.

Pétur Ben er mjög gott dæmi um svona gullmola. Ég skal viðurkenna að fáir hafa heillað mig eins mikið og hann síðustu árin. Einlægni er eina orðið sem hægt er að nota til að lýsa honum. Svo er hann náttúrulega stórkostlegur söngvari og einn af betri gítarleikurum landsins. En einlægni er samt orðið.

Myndbandið hér fyrir neðan útskýrir þetta allt saman.


Uppáhalds plötur

Topplistar Séra Ólafs Björnssonar, doktors í einlægri tónlistarspeki.


Aths.  -   Ég var að kíkja á gamla bloggið mitt (www.simnet.is/jeremy) og rakst á topplistana sem ég gerði fyrir einum fjórum árum. Þetta voru semsagt þrír listar yfir mínar uppáhalds plötur. Uppáhalds rokkplötur (erlendar), uppáhalds íslenskar rokkplötur og uppáhalds íslenskar dægurlagaplötur. Á þessum fjórum árum hefur ekki margt breyst en þó er eitthvað sem myndi bæta við og henda út í dag. En ég hendi þessu inn til gamans. Eins skora ég á aðra að búa til svona lista.


- Topp 15 yfir mínar uppáhaldsrokkplötur
-


Nr. Plata -------------------------------------------------------- ----------Lög
-----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

15. Clumsy - Our Lady Peace--------------------------------------Superman's dead, Big Dumb Rocket, 4 am,

Þegar Arnar kynnti mig fyrir þessu bandi árið 1999 þá hlustaði ég ekki á neitt annað í heilt ár. Allar plöturnar þeirra eru snilld en þessi stendur þó alltaf uppúr. Takk Arnar.

14. Superunknown - Soundgarden -----------------------------The day I tried to live, Black hole sun

Það er engin lygi að Chris Cornell er með betri söngvurum samtímans og Matt Cameron með betri trommurum samtímans. Þeir sýna það báðir á þessari plötu sem og reyndar á öllum hinum líka en það er eitthvað rosalega sérstakt við þessa.

13. Siamese dreams - Smashing Pumpkins -----------------Geek USA, Disarm, Today

Ef þú hefur umgengist Gúnda einhvern tíma á lífsleiðinni þá hefurðu umgengist Smashing Pumpkins töluvert. Þessi plata heillaði mig strax á rosalegum trommuleik Jimmy Chamberlain. Fyrst hlustaði ég bara á trommuleikinn. Svo hlustaði ég á lögin. Og þau voru líka svona helvíti góð.

12. Rage against the machine - RATM--------------------------Bombtrack, Wake up

Fullkomin riff, fullkomnir textar, fullkomin plata.

11. The Bends - Radiohead-----------------------------------------Fake plastic trees, High & dry,
My Iron Lung

Að sýna það og sanna að Creep var ekkert One hit wonder á svona hátt á ekki að vera hægt. Heilsteyptari en andskotinn þessi plata.

10. Back in black - AC/DC-------------------------------------------Back in black, You shook me all night long

Þetta gæti þess vegna verið Best of plata AC/DC. Ekki dauður punktur.

9. Lifun - Trúbrot--------------------------------------------------------Am I really livin?, What we believe in, Just another face

Þessi plata breytti lífi mínu talsvert. Ég hélt að Íslendingar hefðu ekki kunnað að gera alvöru rokkplötur í gamla daga. En það gátu Trúbrotsmenn greinilega. Þessi kom út 1969 og var svo brjálæðislega langt á undan sinni samtíð að það er eiginlega bara hlægilegt. Gunnar Jökull sýnir það þarna að hann er besti trommari Íslandssögunnar og var a.m.k. 10 árum á undan sinni samtíð. Ef þið hafið ekki hlustað á þessa plötu þá ætla ég að biðja ykkur að gera það strax.

8. Vs. - Pearl Jam ----------------------------- ------------------------Rearviewmirror, Elderly woman

Rosaleg Follow up plata. Og sándið toppaði næstum því Ten sándið en þau eru reyndar svo ólík að það er ekki hægt að bera þau saman. Vedder sýnir alveg brjálæðislega breidd í söngnum, jafnvel meiri en á Ten. Má segja að þetta sé beint framhald af Porch...

7. Paranoid - Black Sabbath ------------- ------------------------Electric Funeral, Iron Man

Þetta er náttúrulega bara með svalari plötum allra tíma. Kemur út 1970 og hlýtur að hafa talist asskvíti þung. Black Sabbath eru náttúrulega feður þungarokksins, það er engin launung. Snilldarsánd og viðurstyggilega svöl lög.

6 . Who's next - The Who-------------------------- -----------------Baba O'Riley, Won't get fooled again, The song is over

Það er dálítið erfitt að útskýra The Who. Þeir eru fyrirmynd margra hljómsveita í dag, voru til dæmis með þeim fyrstu til að taka upp á því að rústa hljóðfærum á sviði. Þótti nú ekkert voðalega smart á þeim tíma. Rústuðu eftirminnilega öllum hljóðfærunum sínum í þætti hjá Ed Sullivan eftir að hafa þurft að mæma My Generation. Platan er dásamleg. Hlustið bara á hana. Þetta voru alvöru rokkarar, Pete Townshend með bowling múvið á gítarnum eins og hann kallaði, Keith Moon snarvangefinn á trommunum, Roger Daltrey með sína dásamlegu rödd og John Entwistle þögla bassaleikaratýpan. Dásamleg plata.

5. Blood sugar sex magik - Red hot chili peppers--- --Naked in the rain, My lovely man.

Þessi plata er einfaldlega æði. Hún er æðislega æðisleg. Hef oft reynt að fá leið á henni en það er bara ekki hægt

4. Master of puppets - Metallica----------------------------------Master of Puppets, Welcome home

Að leyfa sér að gefa út 8 laga plötu og ætlast til að hún verði meistaraverk er að sjálfsögðu bara rugl. En það tókst. Aðeins hljómsveitum eins og Black Sabbath og AC/DC hafði tekist þetta og þar með sýndu Metallica að þeir voru strax þarna orðnir með bestu þungarokkshljómsveitum allra tíma. Hail to the master.

3. OK Computer - Radiohead--------------- -------------------- Climbing up the walls, No surprises

Þessi plata er ekki og verður aldrei hægt. Eiðar 1997. Öll herbergi, alltaf OK Computer. Maður sofnaði við hana og vaknaði við hana. Át, drakk og svaf OK Computer. Those were the days...

2. The Wall - Pink Floyd--- -----------------------------------------Mother, Comfortably numb, Hey You

Það er innan við ár síðan ég fór að hlusta á Pink Floyd. Og þeir hafa bara ekki látið mig vera síðan þá. Ef þú ætlar að hlusta á Pink Floyd af alvöru skaltu gera svo vel að búast við því að hlusta á fátt annað næsta árið. Upphaflega voru það nú Dúndurfréttamenn sem urðu til þess að ég fór að hlusta á Pink Floyd eftir að ég heyrði þá flytja The Wall. Svo var bara ekki aftur snúið. Flestir vilja nú meina að Dark side of the moon sé þeirra besta plata en að mínu mati er The Wall á toppnum. Svo eftir að hafa hlustað á The Wall í hálft ár lánaði Dóri Eiðs mér myndina og Guð minn almáttugur. Allt í einu varð platan 10 sinnum betri. Tvöföld plata og ekki dauður punktur. Það á ekki að vera hægt.

1. Ten - Pearl Jam------------------------------------- ---------------Black, Porch, Release


Það er dáldið sniðugt að segja frá því að áður fyrr þoldi ég ekki Pearl Jam. Það voru allir að hlusta á þetta helvítis band og ég gat aldrei skilið hvað í andskotanum var svona merkilegt við þá. Svo kom það. Sumarið 1997 ákvað ég að gefa þeim séns. Fór til Gúnda og fékk alla diskana lánaða og hann sá þá ekki aftur fyrr en löngu seinna þegar ég var búinn að kaupa safnið sjálfur. Persónulega finnst mér rosalega erfitt að gera upp á milli platna Pearl Jam, vegna þess að þær eru allar svo rosalega ólíkar og rosalega góðar. En Ten er alltaf sérstök. Besta Debut plata sem ég man eftir, sándið fullkomið, flutningurinn gjörsamlega óaðfinnanlegur og söngurinn eitthvað sem er erfitt er að útskýra. Textarnir eru líka efni í BA ritgerð.

------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Aðrar plötur sem börðust um hituna

Core - Stone Temple Pilots
Attack of the killer B's - Anthrax
Showbiz - Muse
Nevermind - Nirvana
Appetite for destruction - GNR
Stain - Living Colour
Chaos AD - Sepultura
Sixteen Stone - Bush
Black Album - Metallica
The color and the shape - Foo Fighters
Music for the jilted generation - Prodigy
Vulgar display of power - Pantera
Automatic for the people - R.E.M.



- Topp 15 yfir mínar uppáhalds íslensku dægurlagaplötur
-

Nr. Plata ------------------------------------------------------------------------------ Lög
----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------
15.
Pleased to leave you - Hilmar Garðarsson----------------------Snowstorm, Mr. Codein, Pleased to leave you

Þessi plata heillaði mig alveg sérstaklega. Ég vissi að Hilmar væri eitthvað að grúska við lagagerð en þegar þessi plata leit dagsins ljós gerði ég mér grein fyrir því hversu snjall hann er. Topp músíkantar með honum og ég mæli eindregið með plötunni.

14. Daybreak - Mezzoforte ----------------------------------------------------- Daybreak, Jorney's end, Roller coaster

Mezzoforte hefur lengi verið ein af mínum uppáhalds. Þessi plata er að mínu mati þeirra langbesta og varla hægt að segja að það sé dauður punktur á henni fyrir utan eitt lag sem heitir After hours og sýnir það hversu metnaðarlaus Friðrik Karlsson er í lagagerð....

13. Merman - Emiliana Torrini --------------------------------------- -------The boy who giggled so sweet, Premieré Lovin'

Ég man eftir því að þegar þessi plata kom út þá hlustuðum við Raggi á hana á Eiðum dag eftir dag og vorum svo heillaðir að samnemendur okkur voru orðnir vissir um það að við værum snaröfugir. En það var nú ekki svo. Platan er bara alveg hreint frábær og Emiliana Torrini er fáránlega góð söngkona og á ekkert annað en heimsfrægð skilið.

12. Hljóðlega af stað - Hjálmar ----------------------------------------------Kindin Einar, Varúð, Bréfið

Hjálmar er reggíhljómsveit. Ég er sennilega eini maðurinn í heiminum sem hatar Bob Marley út af lífinu og finnst hann með ofmetnari tónlistarmönnum sem uppi hafa verið. Ég hata reggí. Samt er ekki hægt að hata Hjálma. Þeir eru bara alveg dásamlegir. Vissi ekki alveg hvað ég átti að halda þegar ég heyrði Bréfið fyrst. Gríðarlega blendnar tilfinningar og það slógust í mér þessir tveir menn, þessi sem hatar reggí og hinn sem að lokum vann, sá sem elskar Hjálma.

11. Í gegnum tíðina - Mannakorn ------------------------------------------Sölvi Helgason, Gamli góði vinur, Ef þú ert mér hjá

Mannakorn kunnu þetta alveg. Þegar menn eru með Magga Eiríks í bandinu þá þarf ekkert að hafa áhyggjur af restinni. Ég man eftir að Bjössi Skúla lánaði mér þessa plötu og hún var búin að snúast djöfull marga hringi áður en ég skilaði henni aftur.

10. SSSól - SSSól ------------------------------------------------------------------ Nostalgía, Epli, Þú kysstir mína hönd

"Vá hvað þetta er tussugóð plata" hefði einhver sagt.

9. Ágætis byrjun - Sigur Rós ------------------------------------------------- Flugufrelsarinn, Starálfur, Viðrar vel til loftárása

Þarf ég að skrifa eitthvað hérna?

8. Með allt á hreinu - Stuðmenn --------------------------------------------Sigurjón digri, Ástardúett, Slá í gegn

Stuðmenn hittu andskoti vel á naglann með þessari plötu og myndinni. Ég þarf ekkert að útskýra hvað er gott við þessa plötu vegna þess að ég held að 90% Íslendinga kunni textana við öll lögin, meira að segja Maó Gling.

7. Sögur af landi - Bubbi Morthens -------------------------------------- Sonnetta, Fjólublátt flauel, Blóðbönd, Syneta

Það er af nógu að taka þegar kemur að Bubba og ég var lengi að ákveða hvaða plötu ég ætti að velja sem mína uppáhalds með honum. Ég er hræddur um að maður þykist eiga dáldið í þessari plötu vegna þess að maður er utan að landi og skilur stundum of vel um hvað hann er að syngja.

6. Sturla - Spilverk þjóðanna ------------------------------------------------Sirkus Geira smart, Sturla, Arinbjarnarson

Bjössi Skúla lánaði mér þessa líka. Hann lánaði mér reyndar helvítis margar plötur og þessi fékk að snúast meira en Í gegnum tíðina með Mannakornum. Hún stoppaði eiginlega ekki í nokkra mánuði. Spilverkið hafði eitthvað sem öðrum hljómsveitum hefur ekki tekist að leika eftir.

5. Megas - Megas ------------------------------------------------------------------Um skáldið Jónas, Silfur Egils, Vertu mér samferða...


Ég man það að Þröstur gaf mér þennan disk. Ég held að hann sjái jafnvel dáldið eftir því :). Þeir sem þekkja mig vita alveg að Megas er einn af mínum uppáhalds og mér finnst Megas bestur þegar einungis er kassagítarleikur og kannski smá flautur undir. Þessi plata er frábær. Textana á að kenna í grunnskóla og finnst mér það að krakkar eigi ekki að útskrifast úr grunnskóla öðruvísi en að kunna alla textana á þessari plötu.

4. Sumar á Sýrlandi - Stuðmenn -------------------------------------------Út á stoppistöð, Strax í dag, Í bláum skugga o.sfrv. :)

Jamm. Þarf ekkert að útskýra. Það þekkja allir lögin.

3. Deluxe - Nýdönsk --------------------------------------------------------------Sól, Landslang skýjanna, Ást mín á þér

Nýdönsk skipar andskoti stóran sess í mínu tónlistarlífi. Þegar ég settist niður til setja þennan lista saman þá vissi ég ekkert hverja af plötunum þeirra ég ætti að setja hérna inn. Mér finnst þær allar jafn góðar. En eftir löng fundarhöld, rifrildi og sáttir komst ég að því að þetta er uppáhaldsplatan mín. Hráa sándið er það sem gerir þessa plötu. Menn þurfa ekkert 600 tíma í stúdíói til að gera góða plötu. Þeir tóku þessa upp á 6 dögum. Það er ágætt.

2. Á bleikum náttkjólum - Megas og Spilverk þjóðanna -----Saga úr sveitinni, Orfeus og Evridís, Paradísarfuglinn

Þegar Megas og Spilverkið sameinast hlýtur eitthvað stórkostlegt að gerast. Bjössi Skúla lánaði mér þessa líka og fékk hún að snúast meira en Í gegnum tíðina og Sturla til samans. Á þessari plötu finnurðu allar tegundir af tónlist. Fallegasta lag í heimi (Orfeus og Evridís), ljótasta lag í heimi (Gamli skrjóðurinn), skemmtilegasta lag í heimi (Saga úr sveitinni) og besta lag í heimi (Paradísarfuglinn).

1. BJF - Björn Jörundur Friðbjörnsson -----------Upprisan, Himnasmiðjan, Syndin, Eilífðin, Handritið, Leikföngin

Þetta kemur sennilega mörgum á óvart en líka fjölmörgum ekkert á óvart. Menn vita alveg hvað Björn Jörundur er í miklum metum hjá mér. Sumir skilja það ekki, aðrir þola það ekki. En kallinn er snjall þó að Jökull segi að hann kunni ekkert að syngja en hann segir reyndar líka að Ragnheiður Gröndal kunni ekkert að syngja þannig að takiði því með fyrirvara sem hann lætur út úr sér. Ég skal viðurkenna að röddin í Birni er sérstök en hvað sem öðru líður þá náði hún að heilla mig. En þessi plata... úff. Seldist í 600 eintökum held ég. Var skotin niður og síðan hefur ekkert til hennar spurst. Nema austur á Borgarfirði kannski. Ég veit að Þröstur og Maggi Jóns setja þessa plötu ofarlega á listann sinn. Platan þarf tíma en ef þú sem ert að lesa þetta hefur einhvern áhuga á tónlist þá mæli ég með því að þú prófir að renna þessari plötu í gegn. Hún er sérstaklega vel samin, sniðugt konsept, frábærir textar, einlægni, fjölbreytni, kjarkur. Ég held að Björn sjálfur hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað hún er góð.

Aðrar sem komu til greina:

Húsmæðragarðurinn - Nýdönsk
Millilending - Megas
Drög að upprisu - Megas og Nýdönsk
Lífið er ljúft - Bubbi Morthens
Fingraför - Bubbi (og Megas)
Garg - Sálin hans Jóns míns
Live á Dubliner - Papar
Getum við ekki látið eins og hálfvitar? - Sniglabandið
Sinfónía - Todmobile (þessi átti að vera á topp 5 en mér finnst Live plötur ekki eiga rétt á sér á svona listum)
Get ég tekið séns? - Grafík

Bein leið - KK


- Topp 11 yfir mínar uppáhalds íslensku rokkplötur -

Nr. Plata ----------------------------------------------------------------Lög
------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------
11.
GCD - GCD ----------------------------------------- -Hér er nóg, Hamingjan er krítarkort, Kaupmaðurinn á horninu

Helvítis hellings góð plata. Flestir nefna nú Svefnvanaplötuna þegar minnst er á GCD en mér finnst þessi alltaf betri. Trommuleikurinn í Hér er nóg er náttúrulega bara asnalegur enda er Gulli Briem mjög asnalegur maður. Flott lög og ótrúlegt hvað hægt er að gera góða plötu með fáum gripum.

10. Bubbi Morthens - Ísbjarnarblús -----------------------Agnes og Friðrik, Ísbjarnarblús, Stál og hnífur

Frábær debut plata. Bubbi sýndi með þessu stykki hvað koma skyldi en hefðu nú sennilega fáir getað ýmindað sér þegar þessi kom út að hann ætti eftir að syngja Það er gott að elska og Sem aldrei fyrr 12-13 árum seinna.

9. Brain Police - Brain Police ------------------------------ --Rocket fuel, Jaccuzy Suzy, El Duderino

Ógeðslega svöl plata og Brain Police komu með það sem vantaði í íslenskt rokk, svalt, þungt, feitt, loðið og hrátt rokk. Ekkert rugl, bara allt stillt á 11 og Jens Ólafsson söngvari sýnir þarna að hann er með betri rokksöngvurum sem við höfum átt. Þegar ég heyrði Jaccuzy Suzy fyrst þá trúði ég ekki að þetta væri íslenskt band og alls ekki íslenskur söngvari. Röddin minnir mig helst á Chris Cornell, veit ekki hvort aðrir séu sammála en eftir því sem ég best veit er Chris Cornell uppáhaldssöngvari Jens. Frábær plata.

8. Lili Marlene - Das Kapital -------------------------Leyndarmál frægðarinnar, Snertu mig, Blindsker, Lili Marlene

Vá hvað ég hlustaði mikið á þessa plötu í eina tíð. Átti kassettuna og spólaði alltaf yfir fyrstu 1 og 1/2 mínútuna í Lili Marlene laginu til að heyra þegar þeir settu allt í botn í því. Þoldi ekki rólega kaflann í byrjuninni þó að mér finnist hann mjög flottur núna. Byrjunin í Snertu mig var með því fyrsta sem ég lærði á gítar og fannst það svo flott að ég gat spilað það allan daginn.

7. Halldór Laxness - Mínus ----------------------------------- Romantic Exorcism, Long face, Here comes the night

Fínt þegar ég spurði Arnar og Gúnda hvort þeir höfðu hlustað á Halldór Laxness með Mínus að þeir lýstu því yfir að þetta væri ömurlegt band og Krummi væri ömurlegur söngvari og úthúðuðu bandinu á allan hátt. Vona að þeir séu búnir að éta það ofan í sig núna.

6. Jet Black Joe - Jet Black Joe ------------------------- --Take me away, Stepping stone, Coming in

Ég hef aldrei verið sérstaklega mikill aðdáandi Jet Black Joe. Hlustaði þó svakalega mikið á þessa plötu því Jakó systir átti hana. Ég hélt á þeim tíma að þetta hlyti að vera besta hljómsveit í heimi, það gat bara ekki annað verið. Þær plötur sem fylgdu í kjölfarið fannst mér aldrei neitt sérstakar og svo fékk ég alveg nóg þegar helvítis Best of platan, You can have it all, kom út. Þar vantaði þrjú langbestu lögin þeirra (þau sem ég taldi upp hérna fyrir ofan). Svo þegar kombakkið kom þá lýsti ég því yfir og hef staðið við það síðan að ég hata Jet Black Joe. Þó get ég ekki annað en elskað 2/5 af þessu bandi en ég kem að því síðar. Þó ég hati Jet Black Joe er þessi plata rosaleg.

5. Geislavirkir - Utangarðsmenn -----------------Samband í Berlín, Poppstjarnan, Viska Einsteins, Hiroshima

Fór til Snæbjargar og Bjarts og kóperaði þessa plötu yfir á spólu og hlustaði fram og aftur á hana. Mikið rosalega fannst mér hún góð og finnst enn. Bjartur gat sagt mér ógrynni af sögum af Utangarðsmönnum, sem voru ábyggilega allar lygi, en góðar samt og ég drakk í mig fróðleikinn sem vall útúr honum. Bubbi Morthens tekur þátt í 4 af 10 plötum hérna á listanum og er sennilega bara kóngurinn.


4. Lof mér að falla að þínu eyra - Maus -------------- --90 kr perla, Poppaldin, Ég ímeilaðig, Kristalnótt

Þetta er alveg dásamleg plata. Maus hefur eitthvað sem er erfitt að skýra. Kannski eru það textarnir, það er gríðarleg einlægni í því sem þeir gera og söngurinn í Birgi Erni nær allavega að heilla mig upp úr skónum. Þeir sem segja að hann sé lélegur söngvari eru einfaldlega ekki að hlusta. Ég hef aldrei fengið leið á þessari plötu og ég held að það sé bara ekki hægt.

3. Þursabit - Hinn íslenzki Þursaflokkur -------Sigtryggur vann, Brúðkaupsvísur, Æri-Tobbi, Bannfæring

Hvað er hægt að segja um Þursaflokkinn? Þetta var svo óútskýranlegt fyrirbæri og hugmyndin að spila rokkmúsík við fleiri hundruð ára gamlar vísur þótti nú frekar furðuleg. En útkoman var svona líka stórkostleg. Bjössi Skúla lánaði mér þessa plötu eins og nokkrar aðrar. Þegar jafnaldrar mínir voru að hlusta á Prodigy og Oasis þá var ég að hlusta á Þursaflokkinn og þótti náttúrulega stórskrýtinn fyrir vikið. Ég held samt að mér hafi ekkert orðið meint af því að hlusta á þá. Tónlistarlegur skilningur minn náði allt öðru leveli eftir að ég fór að hlusta á þá og þessi plata er einfaldlega ekki hægt. Ásgeir Óskars hefur aldrei reynt að leika eftir trommuleik sinn á plötunni og lagasmíðarnar þykja of flóknar til að nokkur hafi reynt að covera þessi annars frábæru lög. Mæli með trommusólóinu í Bannfæring. Dálítið furðulegt.

2. Lifun - Trúbrot ------------------------------------
Am I really livin?, What we believe in, Just another face

Jahá. Nú spyrja sig flestir af hverju þessi plata er ekki í efsta sæti úr því að hún komst inn á fyrsta listann yfir uppáhaldsrokkplötur mínar. Svarið er einfalt: Ég veit það ekki. Kannski komst hún þangað inn af því að hún er sungin á ensku ólíkt þeirri sem trónir hér á toppnum. Mér fannst hún bara passa einhvernvegin inn á fyrsta listann. Þið getið lesið allt um hana þar.


1. Kafbátamúsík - Ensími
-----------------------Flotkví, Arpeggiator, Gaur, Atari, Kælibox, Naglabassi

Ég minntist á 2/5 í umfjöllun minni um Jet Black Joe. Þeir eru semsagt í þessu bandi sem sem á mína uppáhaldsrokkplötu. Þegar þessir tveir drengir Hrafn Thoraddsen og Jón Örn Arnarson fengu loksins að láta ljós sitt skína varð útkoman Kafbátamúsík með Ensími. Fyrir mér varð Jet Black Joe ekki alvöru band fyrr en það hét Ensími rétt eins og Nirvana varð ekki band að mínu skapi fyrr en það hét Foo Fighters.... Neinei, þetta var nú bara grín hjá mér. Hrafn og Jón fengu í lið með sér snillinga í hverja stöðu og í hvert skipti sem ég hlusta á þessa plötu heyri ég eitthvað nýtt sem hífir hana hærra upp. Þetta er svo þétt rokk að ég er viss um að það yrði ekki svona þétt ef Brain Police og Mínus myndu spila saman. Við Óskar Ragnarsson hlustuðum á þessa plötu þegar hún var nýkomin út og held ég að hún hafi gengið allan veturinn í Menntaskólanum. Síðan hefur Ensími verið mitt uppáhalds íslenska rokkband. Mér finnst þeir aldrei hafa toppað þessa plötu en þeir verða samt einhvernveginn betri og betri. Þó fannst mér þeir misstíga sig svolítið þegar þeir fóru að syngja á ensku. Einfaldlega vegna þess að textarnir eins og t.d. við Kafbátamúsík hefðu alveg getað virkað í útlöndum. Og það er einfaldlega vegna þess að þeir eru ekki að semja of innihaldsríka texta, heldur texta sem passa fullkomlega við músíkina. Hvert orð passar einhvernveginn við hvern tón. Mér finnst þetta ekki síður aðdáunarvert heldur en að semja virkilega vel saminn og innihaldsríkan texta. Mér finnst þeir ekki alveg hafa náð þessu með því að syngja á ensku. En ef það er einhver, sem er að lesa þetta, sem hefur ekki hlustað á þessa plötu þá á hann mikið eftir. Fullkomin plata á allan hátt.


Kvenkyns Megas

447153AJá, það sem ég var hneykslaður þegar Ólafur Páll Gunnarsson sagði að við hefðum eignast kvenkyns Megas í Ólöfu Arnalds. Hafði heyrt í henni útundan mér í útvarpinu nokkuð oft og heyrði eiginlega ekkert nema gaul og skyldi ekkert hvað menn voru að lofsama þetta.

Síðan ákvað ég að gefa Ólöfu séns. Hlustaði á plötuna í rólegheitum og þá sérstaklega á textana og þá var ekkert aftur snúið. Ólöf Arnalds er dásamleg. Frábær gítarleikari, laga- og textahöfundur og þá ekki síst söngkona. Einlægni er sennilega orðið, ef maður á að nota eitthvað orð um Ólöfu Arnalds.

Það er gott af því að vita að innan um allar glanspíurnar og tilgerðarlegu söngkonurnar þá leynist ein og ein Ólöf Arnalds, við og við. HA! Djöfull var þetta vel að orði komist.

En nú er ég sammála nafna mínum á Rás2. Hún er okkar kvenkyns Megas. 


mbl.is Ólöf Arnalds fær góða dóma erlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Keith Moon - In my life

Flestir sem eitthvað hafa kynnt sér tónlistarsöguna vita hver Keith Moon var. Hann er án efa einn besti og litríkasti trommari sögunnar og barði húðir með hljómsveitinni The Who. Það er alveg sama hvaða rokksukkara menn nefna, Keith Moon gekk alltaf skrefinu lengra. Keith Moon þurfti alltaf meira.

Gott dæmi um þetta eru hrossadeyfilyfjasagan af honum. Hann sem hafði prófað allt sem tengdist eiturlyfjum, heyrði að ef þú tækir eina töflu af hrossadeyfilyfjum myndirðu finna vímu sem ekki væri lík neinni annarri. Þannig að hann tók fimm. Að sjálfsögðu þoldi hann það ekki og féll í yfirlið yfir trommusettið á miðjum tónleikum. 

Keith Moon gerði margar tilraunir til þess að losna við eiturlyfjabölið sem fylgt hafði honum meira en helming ævi sinnar. Það er kaldhæðni örlaganna að síðasta tilraunin dró hann til dauða. Honum hafði gengið vel að halda sér frá eiturlyfjunum með læknalyfjum sem áttu að draga úr lönguninni. En þar sem Keith Moon vildi alltaf meira ákvað hann að taka fyrir svefninn tvöfaldan skammt af þessum læknalyfjum en það varð honum um megn og hann lést í svefni. Lyfin sem áttu að lækna hann drógu hann til dauða. Myndin hérna til hægri er síðasta myndin sem tekin var af Keith, kvöldið áður en hann dó.

Keith Moon hafði mikið dálæti af því að syngja. Honum hafði þó verið sagt það hvað eftir annað að hann væri vitalaglaus og gæti ekki sungið til að bjarga lífi sínu. Þess vegna gaf hann út sólóplötu, til þess að sanna fyrir öðrum að hann væri í raun fínasti söngvari. Platan, sem hét Two sides of the moon, kom út árið 1975 og var rökkuð niður af öllum gagnrýnendum enda ekki mikið eyrnakonfekt þar á ferð. Þó fundust inn á milli ágætis lög og eitt þeirra var ábreiða Keith's af Bítlalaginu In my life. Ég heyrði bút úr þessu lagi á netinu fyrir margt löngu og það var eitthvað við það sem heillaði mig. Þess vegna hef ég mikið haft fyrir því að finna þessa plötu og leitin bara árangur fyrir stuttu.

Að mínu mati er þetta besta ábreiða In my life sem ég hef heyrt. Söngurinn er, eins og við mátti búast, ekki stórfenglegur en einlægnin er mikil og viljinn til að gera vel er fyrir hendi.

Ég mæli með því að menn tékki á þessu lagi í nýja, fína tónlistarspilaranum hérna til vinstri. 

 

 Fram- og bakhlið plötunnar Two sides of the moon

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


JúTjúb
Meðlimir The Who o.fl. tala um Keith Moon


Af íslenskri músík

Ég keypti mér Sprengjuhöllina um daginn. Snilldarplata.
Einhver gagnrýnandi sagði að platan væri Sumar á Sýrlandi sinnar kynslóðar. Ég er bara alls ekki frá því að það sé rétt hjá honum. Hún er náttúrulega langt frá því að vera jafngóð og Sumar á Sýrlandi, ennþá allavega. Sjáum til eftir 25 ár. 

Það er allavega ljóst að það er gaman að ennþá skuli finnast íslensk bönd sem leggja upp úr hressleika, frumleika og almennum skemmtilegheitum. Sprengjuhöllin tekur sig passlega alvarlega, platan er ekki með  þetta ofurpródúseraða Bylgjusánd sem einkennir allar íslenskar hljómsveitir sem syngja á íslensku og hún er ekki með þetta meiksánd (sánd til að heilla erlenda) sem allar hinar plöturnar hafa. Sprengjuhöllin hefur einfaldlega þetta skemmtilega séríslenska sánd sem heyrist sjaldnar og sjaldnar. Svo eru þeir hressir og leggja mikið uppúr textunum. Það er nú ekki hverjum degi sem íslenskar hljómsveitir gera það. Eins eru þetta hörkuhljóðfæraleikarar.

Þá er bara að kaupa sér Mugison næst. Ég er spenntur.

Menn geta samt gleymt því að ég sé að fara að kaupa Pál Óskar eða Guðrúnu og Friðrik Ómar. 


mbl.is Fjórar gullplötur afhentar í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Radiohead í bissness

Þó mér persónulega finnist hljómsveitin Radiohead vera að fjarlægjast mér í tónlistarsköpun þá mega þeir eiga það að þeir færast alltaf nær og nær nútímanum (eða framtíðinni kannski) í að nýta sér nýjustu tækni.

Nýjasta dæmið um það er nýjasta platan þeirra.
Nú þegar umtal um að allir séu að stela öllu á netinu og ekki sé hægt að gefa út hljómplötu án þess að henni sé lekið inn á netið þá taka Radiohead menn upp á einhverju snjöllu. Mjög snjöllu. Nú getur semsagt hver sem er náð í plötuna á netið og hann ræður hvað hann borgar fyrir hana.

Nú hugsa eflaust einhverjir hvað mennirnir séu að pæla en þetta er án efa snjallasta vopn í baráttunni við stuld á netinu sem fyrirfinnst. Þú semsagt ræður hvort þú borgar 1 krónu eða 10.000 krónur fyrir plötuna og mátt svo hala henni niður í tölvuna og brenna á disk eða setja í Æpod apparatið.

Ég trúi ekki öðru en að flestallir sem þekkja til Radiohead nýti sér þetta tækifæri og eignist plötuna (löglega). Radiohead getur ekki annað en grætt á þessu. Það verða að sjálfsögðu alltaf einhverjir sem borga bara 1 krónu hlægjandi en megnið hlýtur að borga nokkur hundruð krónur eða um 1000 kallinn fyrir. Þar með losna Radiohead menn við allt umstang við að framleiða plötuna og hugsið ykkur bara sparnaðinn á því (engin hulstur og ekkert vesen)

Hef reyndar heyrt að síðar meir komi platan út í einhverri viðhafnarútgáfu hvort sem það er satt eður ei.

Nú er bara spurning hvort aðrar hljómsveitir fari nú ekki að fordæmi Radiohead og nýti sér tæknina til góðs. Ég er þó alls ekki að tala með því að hætta eigi allri framleiðslu á tónlist á geisladiskaformi, síður en svo. Það er bara aragrúi af hljómsveitum sem vælir allan liðlangan daginn yfir því að tónlist hennar sé stolið í ómældu magni á netinu. Radioheadleiðin er málið fyrir þessar hljómsveitir.

Svo eru aðrar hljómsveitir sem vita að raunveruleikinn er sá að sala á tónlist hefur aukist gríðarlega síðustu ár og því ekki hægt að kenna internetinu um að plötur seljist ekki. Mín persónulega skoðun er sú að þvert á móti sé "ólöglegt niðurhal" eins og það er kallað til þess að auka sölu á tónlist. Kannski ekki hér á Íslandi (enda tónlist og margmiðlunarefni almennt fáránlega dýrt) en í flestum öðrum löndum. Það er að sjálfsögðu ekki hægt að bera saman verð á nýrri tónlist, DVD, tölvuleikjum og forritum á Íslandsmarkaði og á mörkuðum annarsstaðar. Munurinn er svo fáránlegur að allur samanburður er vonlaus. Við getum þakkað glæpafyrirtækinu SMÁís fyrir það.

 


Bræðslan 2007

Helgin var nokkuð mögnuð.

Bræðslan klikkaði ekki þetta árið frekar en fyrri ár. Snilldartónleikar og helvítis hellingur af fólki.

Það var nokkuð vel við hæfi að við Björn Skúlason hlýddum saman á Megas í Bræðslunni heima á Borgarfirði. Það var nú einu sinni hann sem lánaði mér allar plöturnar þegar ég ákvað að fara að hlusta á Megas 15 ára gamall.  

Ég var bara nokkuð lengi að ná mér eftir tónleikana með Megasi. Fattaði ekki almennilega hvað hafði átt sér stað fyrr en tónleikarnir voru búnir.  Ég er ekki viss um að menn geri sér grein fyrir hvurslags tónleikar þetta voru hjá kallinum. Hann tók 28 lög og blés ekki úr nös. Það var varla að hann svitnaði. Þetta hlýtur að flokkast undir eitt af stærstu kombökkum íslenskrar tónlistarsögu.
Ég hefði ekki getað sett niður betra prógramm sjálfur. Þetta var fullkomið í alla staði og úr því að hann er búinn að gera tónleikaplötur sem heita Drög að sjálfsmorði og Drög að upprisu, er þá ekki borðlagt að fyrir jólin komi út Upprisan með Megasi og Senuþjófunum? Þetta var allavega tekið upp.

Annars verður Jónas Sigurðsson að fá að eiga það að hann kom mest á óvart af þeim tónlistarmönnum sem spiluðu þessa helgi. Hann kom eiginlega, sá og sigraði. Hann á afskaplega auðvelt með að ná upp stemmningu. Hann þarf ekki annað en að biðja um bassatrommubít og kinka kolli í takt, þá kinkar salurinn með og áður en maður veit af eru ótrúlegustu menn farnir að sýna áður ósýndar danshreyfingar. Súsafónninn var líka að gera sig hjá honum. Ég geri nú ekki mikið af því að kaupa nýjar plötur enda ekki margt sem heillar mig en Jónas þurfti ekki mikið til að sannfæra mig um að kaupa nýju plötuna sína. Helvíti var ég ánægður með hann.

Sonur minn tók reyndar upp á því að taka stóru pestina þessa helgi. Eftir að tónleikum lauk var hann kominn með bullandi hita þannig að þá varð ég að blása af ball með Á móti sól í Fjarðarborg. Það mættu víst rúmlega 300 manns en ég var reyndar sérlega ánægður með að vakna ótimbraður á sunnudeginum.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband