Bræðslan 2007

Helgin var nokkuð mögnuð.

Bræðslan klikkaði ekki þetta árið frekar en fyrri ár. Snilldartónleikar og helvítis hellingur af fólki.

Það var nokkuð vel við hæfi að við Björn Skúlason hlýddum saman á Megas í Bræðslunni heima á Borgarfirði. Það var nú einu sinni hann sem lánaði mér allar plöturnar þegar ég ákvað að fara að hlusta á Megas 15 ára gamall.  

Ég var bara nokkuð lengi að ná mér eftir tónleikana með Megasi. Fattaði ekki almennilega hvað hafði átt sér stað fyrr en tónleikarnir voru búnir.  Ég er ekki viss um að menn geri sér grein fyrir hvurslags tónleikar þetta voru hjá kallinum. Hann tók 28 lög og blés ekki úr nös. Það var varla að hann svitnaði. Þetta hlýtur að flokkast undir eitt af stærstu kombökkum íslenskrar tónlistarsögu.
Ég hefði ekki getað sett niður betra prógramm sjálfur. Þetta var fullkomið í alla staði og úr því að hann er búinn að gera tónleikaplötur sem heita Drög að sjálfsmorði og Drög að upprisu, er þá ekki borðlagt að fyrir jólin komi út Upprisan með Megasi og Senuþjófunum? Þetta var allavega tekið upp.

Annars verður Jónas Sigurðsson að fá að eiga það að hann kom mest á óvart af þeim tónlistarmönnum sem spiluðu þessa helgi. Hann kom eiginlega, sá og sigraði. Hann á afskaplega auðvelt með að ná upp stemmningu. Hann þarf ekki annað en að biðja um bassatrommubít og kinka kolli í takt, þá kinkar salurinn með og áður en maður veit af eru ótrúlegustu menn farnir að sýna áður ósýndar danshreyfingar. Súsafónninn var líka að gera sig hjá honum. Ég geri nú ekki mikið af því að kaupa nýjar plötur enda ekki margt sem heillar mig en Jónas þurfti ekki mikið til að sannfæra mig um að kaupa nýju plötuna sína. Helvíti var ég ánægður með hann.

Sonur minn tók reyndar upp á því að taka stóru pestina þessa helgi. Eftir að tónleikum lauk var hann kominn með bullandi hita þannig að þá varð ég að blása af ball með Á móti sól í Fjarðarborg. Það mættu víst rúmlega 300 manns en ég var reyndar sérlega ánægður með að vakna ótimbraður á sunnudeginum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þvílíkir snilldartónleikar.. Ég man reyndar eiginlega bara eftir Megasi og Jónasi.. ekki sökum drykkju.. heldur vegna þess hve óóógeðslega góðir þeir voru!!

Vona að litli kútur sé að hressast!
Kveðjur í bæinn!

Harpa Rún (IP-tala skráð) 1.8.2007 kl. 12:06

2 identicon

Mikið djöfull hefði ég viljað vera þarna !

nr 1. sjá Jónas

nr 2. sjá megas

Ingthor (IP-tala skráð) 2.8.2007 kl. 21:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband