Færsluflokkur: Sjónvarp

Munurinn á Stöð2 og RÚV...

... er alveg hreint rosalegur.

Í nótt, þegar allir á mínu heimili voru í fastasvefni, settist ég fyrir framan tölvuna og horfði á Fréttaannál Stöðvar 2. Hann er alltaf eins.

Fréttamenn koma fram í búningum, illa farðaðir og asnalegir og gera grín að öllu sem gerðist á árinu. Alveg sama hvort verið var að segja frá árangri íslenskra á ÓL eða fjöldamorðum í Afríku, allt var þetta sett fram á einhvern furðulegan grínmáta og viðeigandi lög úr tónlistarsögunni spiluð undir. Þar að auki gleymdi fréttastofa S2 alveg aragrúa af viðburðum í upptalningunni.

Því tók ég eftir þegar ég settist í dag niður og horfði á endursýningu af innlendum svipmyndum hjá RÚV. Bara fyrstu tíu mínúturnar voru fréttamenn RÚV búnir að rifja upp 4 eða 5 atriði sem Stöð2 gleymdi, t.a.m. máli Paul(s) Ramses(ar) (eins og þeir segja á RÚV). Þessi aðferð ríkismanna að skipta umfjölluninni í tvennt, þ.e. innlenda og erlenda og aukinheldur að fara yfir málin í tímaröð er svoleiðis margfalt þægilegra og skemmtilegra heldur en þessi tilviljanakennda frásagnaraðferð S2 manna. Auk þess bera Rúvarar sínar svipmyndir ekki fram í grín- og hæðnistón, heldur á ítarlegan og fróðlegan máta.

Óvenju margt gerðist á þessu ári og tókst RÚV að koma öll atburðum þess fyrir, í sínum svipmyndum, á mjög skipulagðan hátt.

Skaupið var fínt, ekki orð um það meir.

Að lokum þakka ég fyrir liðið ár sem var mér og minni fjölskyldu afskaplega ánægjulegt. Vona að það eigi við um fleiri.

Megi árið 2009 vera ykkur heillaríkt.

Góðar stundir.


Sýnarbjánarnir

Ég ætlaði að vera löngu búinn að hvetja alla til að sýna samstöðu og kaupa ekki áskrift af enska boltanum á Sýn. Þetta svívirðilega verð er fyrir neðan allar hellur og forsvarsmenn Sýnar gera sig hvað eftir annað að fíflum með einhverjum fráleitum útskýringum á þessu verði. Reyndar eru þeir nú svo sniðugir á Stöð2 að þeir hafa aldrei tekið viðtal við forsvarmenn Sýnar nema að fá þá eina í settið, þannig að það sé enginn sem geti svarað þeim. Þá geta þeir svarað fyrir sig í rólegheitum án þess nokkur fái að koma með rök á móti.

Hins vegar braut Kastljósið þetta aðeins upp í fyrradag og fékk þá einn frá Sýn og svo áhugmann um enska boltann sem auk þess er hagfræðingur. Hann tók sig til og jarðaði Sýnarmanninn, enda þurfti kannski ekki mikið til, en Sýnarmaðurinn bullaði og þvaðraði um hluti sem áttu sé enga stoð í raunveruleikanum. Bar fyrir sig að Sýn væri nú líka að sýna frá ensku fyrstu deildinni en var samstundis jarðaður með þeim rökum frá hagfræðingnum að Enski boltinn (Skjárinn) hafi nú líka verið að sýna frá Ítalska boltanum í fyrra en hefðu samt náð að halda verði í lágmarki. 

Þess má til gamans geta að Sýn borgaði jafn mikið fyrir réttinn af enska boltanum og Danir, Norðmenn og Svíar til samans. Einhvern veginn verða þeir að koma réttu megin við núllið og þá er náttúrulega borðleggjandi að hækka áskriftina upp úr öllu valdi.

Ég nú skulum við sameinast um að kaupa ekki áskrift, rifja frekar upp gamla tíma og safnast saman á börum og hótelum og horfa þannig á leikina. Þá fer þessi okurstöð vonandi á hausinn og við fá enska boltann aftur á sanngjörnu verði.

Rassgat. 


Boston Legal

Ég hef reynt ýmsilegt til að reyna að skilja hvað menn sjá við hinn geysivinsæla lögfræðiþátt, Boston Legal. Ótrúlegustu menn (það eru þeir sem ég þekki og hef hingað til haldið að væru með sæmilegan húmor) sjá ekki sólina fyrir Denny Crane, leikinn af William Shatner og Alan Shore sem er leikinn af James Spader. Ég get alveg lagt mig fram við að reyna að brosa að Denny Crane og finnst hann meira að segja stundum nokkuð hnyttinn. En Alan Shore get ég engan veginn skilið. James Spader er gjörsamlega vonlaus leikari, hefur alltaf verið og er sá síðasti sem ég get sagt að sé fyndinn. Þessi leikari lék í óendanlega mörgum B-myndum hér áður fyrr og var sjálfsagt ágætur sem slíkur. 

Þetta er fyrir mér svona svipað og að taka Ívar Guðmundsson eða Ásgeir Kolbeinsson og gera þá að einhverjum gamanleikurum. Það getur bara ekki gengið upp. Eða hvað? Það gekk upp með James Spader. Kannski eru Íbbi og Geiri fínn efniviður í íslenskan lögfræðigrínþátt. Ég kem svosem ekki til með að hlæja að honum en ef ótrúlegustu menn geta hlegið að James Spader þá ætti þetta að vera skothelt. 

Ég tel mig vera nokkuð vel til þess fallinn að greina á milli þess sem er fyndið og þess sem er ekki fyndið. En þarna er sennilega undantekningin sem sannar regluna. 


Fréttamennska

Nú hefur Elín Hirst verið í fréttamennsku í fjölda ára. Var áður á Stöð 2 og er nú hæstvirtur fréttastjóri Fréttastofu RÚV. Hún segir fréttir dag eftir dag í beinni útsendingu en virðist vera alveg fyrirmunað að læra þá list sem skyldi. Hún á það til að eiga fína spretti en yfirleitt lítur hún út eins og hún sé að lesa fréttir í fyrsta sinn. Ef eitthvað útaf ber, eins og verða vill á fréttatímum RÚV, þá liggur við að maður sjái hana svitna og angistarsvipurinn heltekur útsendinguna. Skyldi hún ekki ætla að vaxa uppúr þessum viðbrögðum? Hún hefur nú marga fjöruna sopið í þessum efnum og ætti að vera orðin ýmsu vön þegar hlutirnir fara ekki alveg eins og þeir eiga að fara. Neinei, angistarsvipur, panikk og tunguvafstur er það fyrsta sem hún tekur til bragðs ef fréttin sem á að fara í loftið lætur á sér standa.

Annars er lítið að frétta, 10 stiga hiti, heiðskýrt og stilla hér á Djúpavogi. Djöfull held ég þetta verði fínn dagur.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband