Umferðarmenning

r153015_548364Nú er að sjá hvort einhverjir séu sammála mér.

Mín kenning er sú að stærstu valdar að slysum á Hellisheiði séu þeir sem keyra of hægt. Ekki þeir sem keyra of hratt. Þá er ég nú ekki að tala um stórslys eða banaslys, heldur minni slys og kjánaleg slys. Hversu oft hefur maður ekki lent í því að vera að keyra Hellisheiði og vera allt í einu lentur í 20 bíla röð, og sá sem leiðir þá röð keyrir á 70? Svona háttalag hlýtur að hlýtur að kalla á framúrakstur og ef sá sem fyrst gefst upp er t.d. sá 8 í röðinni, þá þarf hann að taka fram úr 7 bílum og það er ekki heillavænlegt. En það er að sjálfsögðu verk þess sem er annar í röðinni að taka fram úr slysagildrunni sem leiðir hópinn.

Nú er ég ekki að mæla með framúrakstri við svona aðstæður en það getur þó gerst að sumir þurfa að flýta sér (þó flestir flýti sér án þess að þurfa þess) og það að lenda í svona aðstæðum er ekki til að hjálpa.  Það er þó bara þannig að þegar aðstæður leyfa, þurrt er og skyggni gott þá á meðalhraðinn á Hellisheiði ekki að vera undir 90 km/klst. Ég hef jafn oft lent í því að keyra Hellisheiðina án þess að lenda á eftir silakeppum og fengið að halda 90-100 km jöfnum hraða og það er mun minni hætta að keyra á þeim hraða óáreittur heldur en að keyra í 20 bíla röð þar sem meðalhraðinn er 70.

Ástæðan fyrir þessum vangaveltum eru þær að ég var að koma að sunnan í gær. Lagði af stað kl. 16:00 úr höfuðstaðnum og gekk ferðin mjög vel, veður gott og marautt alla leið. Ég verð þó að minnast á að menn virtust vera að flýta sér mjög mikið austur því fleiri tugir bíla tóku fram úr mér og voru svo horfnir á nokkrum mínútum. Ég keyrði nú á mínum venjulega 100km hraða, þannig að þið megið ekki misskilja það þannig að ég hafi verið kominn í hlutverk silakeppanna á Hellisheiði. En eins og ég segi þá tóku ansi margir fram úr mér á miklum hraða, en það þótti mér ekki verst. Þegar dimmdi og háu ljósin voru sett á, voru mjög margir sem ekki höfðu fyrir því að taka háu ljósin af, bæði þegar þeir voru komnir fyrir aftan mig og þegar þeir tóku fram úr. Svona háttalag gerir náttúrulega hvern mann brjálaðan enda var ég hættur, undir það síðasta, að taka háu ljósin af þegar bíll með háu ljósin á tók fram úr.

Svona er þetta nú. 


Flugfélag Íslands

200_FlugfelagIslandsÍ gær flaug ég 750 km og keyrði 300. Það er ekki laust við að ég hafi verið þreyttur þegar ég kom heim. Mikið rosalega er samt dýrt að fljúga með þessu ágæta flugfélagi. Við þurftum að fara suður í jarðarför, ég, pabbi, Jakó, Dagur. Það kostaði okkur ekki nema 90.000 að fá Flugfélag Íslands til að ferja okkur á milli. Það er nú ekkert smáræði sem Flugfélagið hefur grætt á okkur. Auðvitað hefðum við átt að fara saman í bíl suður en ýmsar ástæður gerðu það að verkum að við gátum það ekki. Pabbi sagði mér að sama dag og hann bókaði 2x 12.000 krónur fram og til baka þá barst honum tilboð frá Icelandair um flug til Kaupmannahafnar á 8.000 krónur.
 
Hvernig getur það gengið upp?

Virkilega sanngjarnt

Cesc_Fabregas_Arsenal_celeb_696617Mínir menn í Arsenal unnu frækinn sigur á and- og getulausu liði AC Milan.

Unglingarnir fóru nokkuð létt með prímadonnurnar hjá AC Milan, en engin þeirra gat nokkurn skapaðan hlut nema að sjálfsögðu Maldini, endur ungur og efnilegur leikmaður þar á ferð................

Maður hlýtur því að spyrja sig við hvað er miðað þegar talað eru um "bestu leikmenn heims". Ef maður ber saman Fabregas og Kaka í þessum tveimur leikjum er ljóst að Fabregas er fremri Kaka á öllum sviðum, nema þá kannski hraða. Það er kannski ekki sanngjarnt að bera þess tvo saman úr einungis tveimur leikjum en ef ekki úr þessum tveimur, hverju þá? Auðvitað veit maður hvað Kaka getur en það er einmitt í svona leikjum sem það á að skipta mestu máli að sýna eitthvað, en hann var afar slakur yfir það heila. 

Ef ég á segja alveg eins og er þá finnst mér varla hægt að bera aðra tvo leikmenn saman úr þessum tveimur liðum, þeir eru það ólíkir. Flamini fer, úr þessum tveimur leikjum, ansi létt með Gattuso, Hleb fer létt með Pirlo. Aðrir leikmenn eru það ólíkir að samanburður er ómögulegur. Hins vegar væri hægt að bera saman Gallas og Nesta, en persónulega hefur mér alltaf fundist Nesta einn af betri varnamönnum heims og var yfir það heila fínn í báðum leikjunum. Gallas er vissulega frábær en Nesta sennilega betri.  Það skal tekið fram, bara til að hafa það á hreinu, að maður ber engan saman við Maldini, enda einn af betri íþróttamönnum sögunnar þar á ferð.

En svo er hitt, að liðsheildin og liðsandinn skiptir að sjálfsögðu höfuðmáli í svona leikjum. Arsenalmenn spila yfirleitt þannig að það mætti halda að þeir hafi allir verið aldir upp saman. Hins vegar er ekki að finna vott af spilagleði eða samheldni í Milan liðinu.

Svo fagna ég að sjálfsögðu því að Manchester United hafi komist áfram og vona, og ætla, að Liverpool og Chelsea komist nokkuð létt úr þessum 16-liða úrslitum.

Amen 


mbl.is Arsenal vann frækinn 2:0 sigur í Mílanó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæmar breytingar

250px-Megas_LMB1Vil byrja á því að segja að mér finnst að sjálfsögðu frábært að minn maður hafi fengið 4 tilnefningar.

Fyrir nokkrum árum fannst mér Íslensku tónlistarverðlaunin frábær hátíð. Ég beið spenntur að heyra tilnefningarnar og fylgdist með herlegheitunum í sjónvarpinu.

Nú finnst mér þessi hátíð vera orðin frekar þunn. Sennilega vegna þess að hætt var að veita hljóðfæraleikurum verðlaun. Sem er náttúrulega fáránlegt. Hver ætli hafi ákveðið það að nú skyldi hætta að útnefna í flokki gítar-, bassa-, trommu-, hljómborðs ogsvomættilengitelja leikara? Mér finnst skrítið að aðeins söngvarar séu tilnefndir. 

Svo verð ég að segja að mér finnst, þegar ég les yfir listann, þetta vera sama fólkið/böndin aftur og aftur sem tilnefnd eru. Er íslensk tónlistarútgáfa virkilega svona lítil? 3 tilnefningar eru jafnan í hverjum flokki. Maður hefði nú haldið að 5-6 tilnefningar væru lágmark. 

Svo hefur Urður (í Gus Gus) verið tilnefnd sem söngkona ársins í égveitekkihvað mörg ár í röð. Ég heyri hana sárasjaldan syngja. Ætli hún sé bara tilnefnd til að fylla upp í listann?

En ég má til með, hér í lokin, að hrósa aðstandendum hátíðarinnar fyrir að tilnefna á ný textahöfund ársins, en sá liður var aflagður í einhverjar hátíðir í röð og þess í stað kom myndband ársins. Sem betur fer hefur því verið breytt á ný. 

 


mbl.is Tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna birtar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heiðurshjónin Steindór Einarsson og Rúna Birna Halldórsdóttir frá Víðastöðum

Aths.:Langar að birta hér frásögn sem ég samdi fyrir réttu ári síðan á gamla blogginu mínu. Sagan hlaut góðar undirtektir og því leyfi ég henni að fá annan séns hér.

Þegar ég stend við það að draga björg í bú í beituskúrnum rifjast oft upp fyrir mér fysta skiptið sem ég afrekaði það að draga björg í bú. Það var ekki stór björg sem ég dró í búið en sennilega hefur hún skipt einhverju máli í einhvern tíma. Ég var, að ég hygg, 11 ára gamall og man þetta eins og það hafi gerst í gær.

Í þá daga var það siður þeirra heiðurshjóna, Steindórs Einarssonar og Rúnu Birnu Halldórsdóttur á Víðastöðum í Hjaltastaðaþinghá, að leggja leið sína á rútu sinni, klyfjaðri kartöflum og rófum, niður á Borgarfjörð í þeim tilgangi að selja sísvöngum Borgfirðingnum hluta uppskerunnar. Sá siður komst á að ég, þá barnungur drengurinn, var fenginn til þess að taka rúntinn með þeim um fjörðinn.

Hlutverk mitt var að lokka grandalausan sveitavarginn út að rútunni til þess að Steindór og frú gætu sýnt honum hvað þau hefðu þar að geyma. Þetta er reyndar kannski örlítið ýkt lýsing því það vissu alltaf allir með löngum fyrirvara að Steindór og frú væru væntanleg, en ég var fenginn til að banka á hvern bæ svo þau þyrftu nú ekki að óþörfu að hreyfa lúin bein eftir kartöflu- og rófutýnslu síðustu missera. Það má kannski fylgja sögunni að mér fannst alveg einstakt að hver einn og einasti kúnni skyldi kaupa af þeim og það engar smá birgðir. Ég taldi alveg víst að það væri allt saman mér að þakka, slík væri sannfæringin þegar ég útskýrði fyrir heimilisfólki að Steindór væri kominn til að selja kartöflur og rófur. Má vera að sölumannseðlið í mér hafi spilað þarna inn í en líklegri verður sú skýring að teljast að fólk hafi einfaldlega verið farið að lengja eftir varningnum.

Mér fannst þetta einstaklega göfugt starf og hlakkaði til í hvert skipti sem ég vissi að heiðurshjónin væru væntanleg af Héraði. Launin voru heldur ekki af lakara taginu. Ég er ekki viss um að krakkar nú til dags myndu gleðjast yfir laununum en mér fannst þau einstaklega höfðingleg. Og því gleymi ég aldrei þegar ég kom með þau heim í fysta sinn.

Það er mér ógleymanlegt þegar ég gekk inn um heimilisdyrnar í Heiðmörk eftir fyrstu ferðina, haldandi á tveimur kartöflusekkjum og einum rófusekk. Karl faðir minn lá upp í sófa og reis upp þegar hann sá mig. Það er ekki til neins að vera að orðlengja það, en það get ég sagt ykkur að stoltið skein úr augum hans. Ég man það sérstaklega að pabbi sagði við mig að ég mætti vera stoltur af því að þetta væri í fyrsta skipti sem ég færði eitthvað til heimilisins. Ég hafði nú svosem ekki áttað mig á því, þegar ég gekk inn um dyrnar, hversu mikill fengur þetta væri fyrir heimilið, en þegar pabbi sagði þetta við mig má segja að ég hafi verið í þann mund að rifna úr monti.

Þessi búbjargardráttur (þetta er nýtt orð sem ég fann upp) varð árlegur viðburður í ein 3-4 ár. Ég man nú ekki hvað varð til þess að Steindór og frú hættu að fá mig til að aðstoða sig. Kannski var skýringin sú að ég hafði misst sölumannseðlið, má vera að þeim hafi fundist að sannfæringarkrafturinn væri horfinn. Það getur líka verið að sú staðreynd að ég fór snemma í mútur hafi haft einhver áhrif. Hvað sem því líður er ég ævinlega þakklátur þeim hjónum fyrir þetta tækifæri. Tækifæri til að sýna að ég gat hjálpað til. Þó það væru ekki nema kartöflur og rófur sem ég færði til heimilisins þá hefur foreldra mína kannski munað um það í einhvern tíma.

Ja, allavega var pabbi stoltur. Og mamma grét.


Kaka hjá AC Milan

180px-Kak%C3%A1 Kaka ársins 2008 hlýtur að vera Ricardo Izecson dos Santos Leite, betur þekktur sem Kaka, en hann leikur með AC Milan.
mbl.is Kaka ársins 2008
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pétur Ben

Petur_BenÉg hafði orð á því hversu dásamlegt væri að innan um tilbúnu tilgerðarsöngkonurnar, sem tröllríða (ekki í bókstaflegri merkingu samt) nú öllu, leyndust gullmolar eins og Ólöf Arnalds.

Pétur Ben er mjög gott dæmi um svona gullmola. Ég skal viðurkenna að fáir hafa heillað mig eins mikið og hann síðustu árin. Einlægni er eina orðið sem hægt er að nota til að lýsa honum. Svo er hann náttúrulega stórkostlegur söngvari og einn af betri gítarleikurum landsins. En einlægni er samt orðið.

Myndbandið hér fyrir neðan útskýrir þetta allt saman.


HD ready

HD-Ready-BraviaNú segja þeir að HD-DVD sé að játa ósigur sinn gagnvart Blu-Ray. 

Er þá öll fínu "HD ready" sjónvörpin sem allir eru að kaupa einskis virði?

Djöfull væri það nú fyndið. 


mbl.is Hvítt flagg hjá HD-DVD?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að banka upp á

Æ, veslings piltarnir. Maður hálfvorkennir þeim fyrir að hafa óvart bankað upp á vitlausri íbúð, hrundið upp hurðinni og handleggsbrotið konu á níræðisaldri. Mönnum verða nú á mistök. (Fyrir þá sem ekki skildu þá var þetta kaldhæðni.)

Mér finnst það ekki skipta neinu máli og að það eigi ekki að koma fram í fréttinni að piltarnir hafi ruglast á íbúðum. Það skiptir bara ekki nokkru einasta mál. Það má kannski þakka fyrir að ekki fór verr því hvað veit maður hvað þeir hefðu gert manneskjunni sem þeir voru í raun að leita að? 

Úr fréttinni af mbl.is:
Þeir gáfu þá skýringu á því sem gerðist að um óviljaverk hefði verið að ræða og þeir hefðu bankað upp á hjá konunni fyrir mistök.

Þetta var nú aðeins meira en að banka. 


mbl.is Þrír piltar ruddust inn í íbúð konu á níræðisaldri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

5 stiga forskot

452022AÞetta var sko alls ekkert leiðinlegt.

Þrátt fyrir að vera yfir það heila nokkuð slakir þá hafðist þetta nú gegn baráttuglöðu en frekar bitlausu liði Blackburn. 3 verðskulduð stig og 5 stiga forskot á toppnum. 


mbl.is Arsenal komið með fimm stiga forskot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband