Færsluflokkur: Íþróttir

Ég sakna þeirra allavega ekki

englandÉg er ekki frá því að það Evrópumót sem nú er að klárast sé það besta sem ég hef séð síðan 1996, og er þetta jafnvel betra en það. Ég er búinn að horfa á alla leikina, nema 4, og hef enn ekki séð leiðinlegan leik, kannski að undanskildum leik Spáns og Ítalíu í 8 liða úrslitum, þó svo að hann hafi farið í vítaspyrnukeppni. Þegar lið eins og Sviss er að koma manni á óvart með skemmtilegum fótbolta þá hlýtur standardinn að vera góður. Ég ætla eftir úrslitaleikinn að koma með nánari hugleiðingar mínar um keppnina. Í þetta skiptið ætla ég að taka mér bessaleyfi og koppí/peista grein sem ég sá á www.fotbolti.net um enska landsliðið. ún er eftir kanadískan blaðamann og er vægast sagt skemmtileg og áhugaverð.  Njótið, ég sakna þeirra allavega ekki. Sorrí Þröstur.

 
EM 2008 er betra án Englands

Það er góð saga sem gengur hér í Genf í Sviss. Hún er um Steve McClaren, þann sem missti starfið þegar Englandi tókst ekki að komast í úrslitakeppni EM, en hann er hér í Sviss á EM2008 við einhverjar fótboltalýsingar fyrir BBC.

Sagan er að þegar McClaren kom í fréttamannamiðstöðina til að ná í fréttamannapassann sinn, þá hafi starfsmaður UEFA starað á hann smástund og sagt;
,,Ég veit ég á að þekkja þig." McClaren brosti sínu breiðasta og sýndi hvítar tennurnar, ánægður með að frægð hans væri á góðum grunni á alþjóðavísu. En þá sagði UEFA gaurinn;
,,Ó, já, auðvitað, þú ert fyrrverandi landsliðaþjálfari Írlands.”

Ég hef ekki hugmynd um hvort hyggindi og sérfræði þekking McClaren um EM2008 eru þess virði að heyra. En það er samhljómur í ensku pressunni um að Steve McClaren hefði átt að hafa vit á að halda sig fjarri hljóðnemanum með hyggindi sín um stórmótið sem hann gat ekki einu sinni komið landsliði sínu á.

Englandi tókst ekki að komast á EM2008, bara svona ef þú vissir það ekki, með tveimur töpum gegn Króatíu, einu tapi gegn Rússlandi, og einu jafntefli gegn litlu Makedóníu.

Satt best að segja, þá er EM2008 betra mót án Englands. Ekki bara vegna þess að enska landsliðið er miðlungs og oft vonlítið lið, heldur líka vegna þess að það spilar oft þunglamalegan og leiðinlegan fótbolta, sem hefði lækkað skalann hér.

Án Englands erum við laus við flóðbylgjuna af umfjöllun um fótinn á David Beckham, eða um nárann á Michael Owen. Vegna þess að enskir fjölmiðlar fjalla svo ýkt og svo yfirgnæfandi um fótbolta ef England er þáttakandi í móti, og síðan flækist þetta gaspur inn á helstu ensku miðlana um allan heim, og allt í einu lítur England út fyrir að vera mikilvægara en það er í raun og veru.

Enskur fótbolti er á niðurleið, staðreynd sem er dulbúin og falin með árangri Manchester United, Chelsea og Liverpool í Meistaradeild Evrópu. Öll þrjú liðin eru troðfull af frábærum leikmönnum, en þeir eru frá Þýskalandi, Portúgal, Hollandi og Spáni. Hugmyndin um að enska landsliðið standi jafnfætis portúgalska eða hollenska landsliðinu sem við höfum horft á, er farsakennd.

Flestir leikmenn enska landsliðsins eru ofmetnir, oflaunaðir, og ofar tunglinu í áliti á sjálfum sér. Flesta skortir sjálfsaga og tækni. Merkjanlega þá hafa örfáir “meikað” það með að spila með erlendum liðum. Þá má telja á fingrum annarrar handar – nú síðast Beckham og Owen hjá Real Madrid. Mig grunar að flestir séru einfaldlega hræddir við álagið sem fylgir því að spila á Spáni eða á Ítalíu.

Önnur góð saga sem hefur farið hringinn í Evrópu í nokkur ár er um enskan landsliðsmann sem var eitt keppnistímabil í Seríu A liði á Ítalíu. Eftir fyrsta leikinn spurði hann einn framámann liðsins um leiðina í “setustofu leikmanna.” Þess má geta að á Englandi eru liðin með sérstakan bar með drykki fyrir leikmenn, konur þeirra eða kærustur, og fyrir VIP. Þessi framámaður liðsins sagði leikmanninum að svona bar væri ekki til hjá þeim. Gapandi af undrun spurði leikmaðurinn; “En hvert fara þá leikmenn eftir leiki?” Og svarið var; “Þeir fara heim til sín.”

Ég er yfir mig ánægður með að þurfa ekki að þola leiðinlega leiki miðlungsleikmanna. Mig langar virkilega ekki til að horfa á Rio Ferdinand taka hálfa öld að labba frá enska markinu yfir í vítateig andstæðinganna þegar enskir eiga horn. Né heldur að vakna upp við það eftir 30 mínútna leik að David Beckham hefur ekki sést í leiknum.

Og ef England kemst á stórmót, þá er litið á þá staðreynd af evrópsku pressunni sem gamansama dægrastyttingu. Þar með fylgir með, sú hlægilega þráhyggja að fjalla í sífellu um WAG´s, eða eiginkonur og kærustur leikmanna, hin óumflýjanlega sálarkvöl einhvers aumingja fórnarlambs sem klikkaði á víti, grunurinn um að allir útlendingar hati England, að allir erlendir leikmenn geri sér upp meiðsli en það gera hugprúðir englendingarnir nefnilega ekki, og hinar fáráðlegu ýkjur um getu enskra leikmanna, sem í raun eru meðreiðarsveinar en ekki stjörnur.

Svo ekki sé minnst á að allt er smærra og þægilegra í sniðum – að mestu leiti á 30.000 manna og stærri völlum, í tiltölulega litlum borgum – sem hefðu aldrei geta tekið við hinum stóra her enskra áhorfenda. Og þrátt fyrir að enskir áhorfendur hagi sér yfirleitt vel þessa dagana, þá orsaka þeir samt taugatitring hjá innfæddum borgurum og lögreglu, sem verður til þess að skemma fyrir öllum hinum. Þegar ensku áhorfendurnir eru ekki, þá er öryggisgæsla slakari og börum í borginni þar sem leikirnir fara fram er ekki lokað á leikdegi.

EM2008 er um leikina og skemmtunina. Það er um gáska hollensku sóknarinnar, ítalina á bjargbrúninni, og spænsku hæfileikana. Þessir frægu ensku leikmenn, ef þeir eru að horfa á EM2008 í lúxusvillum sínum eða á einkastrandhýsi á einkaeyju í Karabískahafinu, eru að horfa á leikmenn sem eru betri en þeir. Og það sem meira er, enginn saknar þeirra.

 

 


Nokkur atriði varðandi leikinn

anelka_petit2Að þessum fína leik loknum er eftirfarandi ljóst:

1. Það hlýtur að vera skelfilegt að vera Chelsea maður

2. Nicholas Anelka toppaði sorglegasta knattspyrnuferil sögunnar í kvöld

3. Christiano Ronaldo þolir ekki pressu

4. Drogba er bjáni ( ef einhver hafði efast um það fram að atvikinu heimskulega )

5. Það hlýtur að vera hressandi að vera Man Utd maður í dag

6. Christiano Ronaldo þolir ekki pressu

7. Drogba er bjáni 

 


mbl.is Man. Utd Evrópumeistari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meistaraheppni

RafaBenitez_577835Til þess að ná einhverjum árangri þarf meistaraheppni. Svo einfalt er það.

Liverpool fékk sinn skerf af henni gegn Arsenal og Chelsea fékk meira en nóg af heppninni gegn Liverpool í gær. Chelsea eru reyndar meistarar í meistaraheppni. Það jaðrar oft við viðbjóð.

Þá er bara að sjá hvort Liverpool fær að smakka eitthvað á henni í næstu viku. 

Annars voru þetta hálfkjánalegar tilfinningar sem börðust í mér í gær þegar ég sá sjálfsmarkið. Auðvitað fannst mér á einhverjum tímapunkti þetta ógeðslega gott á Liverpool, en fljótlega fór ég að vorkenna þeim, því Chelsea hafa fengið það mikinn skerf af ógeðslegri heppni og viðbjóðslegum 1-0 (aðallega 0-1 samt) sigrum síðustu árin að þetta er nú ekki til að bæta það.


mbl.is Riise skoraði sjálfsmark og tryggði Chelsea jafntefli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virkilega sanngjarnt

Cesc_Fabregas_Arsenal_celeb_696617Mínir menn í Arsenal unnu frækinn sigur á and- og getulausu liði AC Milan.

Unglingarnir fóru nokkuð létt með prímadonnurnar hjá AC Milan, en engin þeirra gat nokkurn skapaðan hlut nema að sjálfsögðu Maldini, endur ungur og efnilegur leikmaður þar á ferð................

Maður hlýtur því að spyrja sig við hvað er miðað þegar talað eru um "bestu leikmenn heims". Ef maður ber saman Fabregas og Kaka í þessum tveimur leikjum er ljóst að Fabregas er fremri Kaka á öllum sviðum, nema þá kannski hraða. Það er kannski ekki sanngjarnt að bera þess tvo saman úr einungis tveimur leikjum en ef ekki úr þessum tveimur, hverju þá? Auðvitað veit maður hvað Kaka getur en það er einmitt í svona leikjum sem það á að skipta mestu máli að sýna eitthvað, en hann var afar slakur yfir það heila. 

Ef ég á segja alveg eins og er þá finnst mér varla hægt að bera aðra tvo leikmenn saman úr þessum tveimur liðum, þeir eru það ólíkir. Flamini fer, úr þessum tveimur leikjum, ansi létt með Gattuso, Hleb fer létt með Pirlo. Aðrir leikmenn eru það ólíkir að samanburður er ómögulegur. Hins vegar væri hægt að bera saman Gallas og Nesta, en persónulega hefur mér alltaf fundist Nesta einn af betri varnamönnum heims og var yfir það heila fínn í báðum leikjunum. Gallas er vissulega frábær en Nesta sennilega betri.  Það skal tekið fram, bara til að hafa það á hreinu, að maður ber engan saman við Maldini, enda einn af betri íþróttamönnum sögunnar þar á ferð.

En svo er hitt, að liðsheildin og liðsandinn skiptir að sjálfsögðu höfuðmáli í svona leikjum. Arsenalmenn spila yfirleitt þannig að það mætti halda að þeir hafi allir verið aldir upp saman. Hins vegar er ekki að finna vott af spilagleði eða samheldni í Milan liðinu.

Svo fagna ég að sjálfsögðu því að Manchester United hafi komist áfram og vona, og ætla, að Liverpool og Chelsea komist nokkuð létt úr þessum 16-liða úrslitum.

Amen 


mbl.is Arsenal vann frækinn 2:0 sigur í Mílanó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaka hjá AC Milan

180px-Kak%C3%A1 Kaka ársins 2008 hlýtur að vera Ricardo Izecson dos Santos Leite, betur þekktur sem Kaka, en hann leikur með AC Milan.
mbl.is Kaka ársins 2008
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snilld

Arsenal_engÞað væri nú ekki leiðinlegt að vera með 5 stiga forskot eftir leikinn annað kvöld. Man City gerðu sér lítið fyrir og unnu United á Old Trafford. Betra gæti það ekki verið.

Jú reyndar.. ef Liverpool myndu aulast til að vinna Chelsea þá væri þetta fullkomnað.

Áfram Arsenal! 


mbl.is Manchester City sigraði 2:1 á Old Trafford
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Platini veit hvað hann syngur

p1_platini_0828Ekki nóg með að Michel Platini sé einn besti fótboltamaður sögunnar, heldur vill svo skemmtilega til að ég er yfirleitt sammála honum í öllu sem hann lætur frá sér.

Ekki veit ég á hvaða sýru þessir bjánar hjá ensku úrvalsdeildinni eru, en þessi "útflutningur", sem eingöngu er hugsaður út frá gróðasjónarmiði, segir nánast allt sem segja þarf um hvaða átt knattspyrnan er að taka. Peningar á peninga ofan. Það er spurning hversu lengi þarf að bíða þangað til að skemmtanagildið víkur endanlega fyrir peningalegu hliðinni.

Annars fannst mér lýsingin hjá Platini nokkuð góð;

„Áður en langt um líður verða engir enskir forsetar í ensku félögunum, þau eru ekki lengur með enska þjálfara, það verða engir enskir leikmenn, og svo endar þetta með því að liðin leika ekki lengur í Englandi. Þetta er brandari,"

 


mbl.is Platini: Þetta er brandari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

England út

Eini leikmaður enska landsliðsins sem ég finn til með er Peter Crouch.

Allir aðrir eru bara yfirborgaðir fitukeppir sem geta ekki neitt. Svo er betra að vera með markvörð í markinu í stað þess að leyfa boltastráknum að spreyta sig á úrslitastundu. 

Svo kemur rokkstjarnan hlaupandi inná til að bjarga málunum. Hann gerði reyndar heiðarlega tilraun til þess en alltaf var jafn fyndið að sjá Beckham stilla sér upp fyrir myndavélarnar áður en hann tók aukaspyrnur eða horn. Sama þó að hann væri að flýta sér eins og hann gæti að taka horn þá tók hann alltaf 2ja sekúndna pósu fyrir myndavélarnar með þessari fyrirsætustellingu.

En Peter Crouch. Þó hann sé leikmaður Liverpool þá er ekki annað hægt en að hrífast af honum. Hann er ekki áferðarfallegur, hann hefur ekki flair (eins og Bretarnir segja), hann er ekki tignarlegur í hreyfingum og þá síður myndarlegur. En hann hefur hjarta. Og löngun til að gera vel. Það er annað en hinir keppirnir í enska landsliðinu.

Hvar voru svo öll þessi hrúga af enskum leikmönnum sem sir Alex er alltaf að gorta sig af? Ég gat ekki betur séð en að enginn úr ManU væri inná. Ekki voru þeir sjáanlegir, nema þá sláninn og keppurinn á bekknum. Ekki gat McClaren haft vit á því að velja eina skemmtilega enska leikmanninn, Theo Walcott, til að klára þetta fyrir Englendinga. 

Ef einhver átti það skilið að England kæmist áfram þá var það Peter Crouch. Og Þröstur frændi minn.

 


Takmörkun erlendra leikmanna í enska boltanum

Alex Ferguson hefur hátt um að hann vilji takmarka fjölda erlendra leikmanna í enska boltanum og beinir þeim orðum fast í átt til annarra liða í toppbaráttunni, Arsenal, Liverpool og Chelsea. Hreykir hann sig af því að vera sá eini í toppbáráttunni sem byggir lið sitt upp á enskum leikmönnum.  Hann talar reyndar lítið um það hversu mikið hann þurfti að borga fyrir þessa nýju ensku leikmenn sína (Ferdinand, Rooney, Hargreaves, Carrick og hvað þeir heita nú allir, allavega kostuðu þeir morðfjár).

Mér finnst nær að takmarka þær upphæðir sem má borga fyrir hvern leikmann og setja í leiðinni launaþak. Þá er ég hræddur um að hann stæði illa miðað hvað hann hefur spreðað síðustu ár. 

Það virðist nú bara vera þannig að ef þú vilt kaupa enskan leikmann í liðið þitt þá þarftu að borga fáránlega upphæð og er það að ég held aðalástæða þess að t.a.m. Arsene Wenger er með svona fáa enska leikmenn í sínum hópi, enda honum illa við að borga háar upphæðir fyrir leikmenn. Hann þurfti a.m.k. að borga fáránlega upphæð til þess að fá 17 ára englending til liðs við sig (Theo Walcott).

Ég held að takmörkun á erlendum leikmönnum gæti að mörgu leiti verið af hinu góða, hins vegar er óraunhæft að setja þessa reglu á fyrr en eftir tíu ár því lið hafa fjárfest í ungum erlendum leikmönnum fram í tímann og því verður ekki breytt einn tveir og þrír.

Hins vegar er hægt að setja þak á upphæðir fyrir leikmenn og laun á mun skemmri tíma.


Aðeins af fótbolta

Ég horfði á leik AC Milan og Liverpool í gær. Leikurinn var nú yfir það heila freka bragðdaufur og allt að því leiðinlegur jafnvel. Hann endaði eins og ég var búinn að spá, að Milanmenn færu með sigur af hólmi. Ég var reyndar búinn að spá því að þeir yrðu meira sannfærandi því það var nú enginn meistarabragur á þeim þó að meistaraheppnin hafi verið með þeim í liði. Fyrra markið óttaleg heppni en seinna markið einkar glæsilegt og sérlega vel klárað.

Ég sat aftast í salnum á Hótel Framtíð því mér þykir fátt eins skemmtilegt og að fylgjast með Liverpool aðdáendum þegar þeir horfa á sína menn spila. Og ég leyni því ekki að mér finnst alveg svakalega gaman þegar illa gengur hjá þeim því viðbrögð þeirra fara ekki framhjá neinum. Sótbölvandi og plastflöskukastandi Liverpoolaðdáendur geta kætt þunglyndustu menn. 

Það athyglisverðasta í leiknum í gær fannst mér að dómarinn flautaði leikinn af 15 sekúndum áður en settur viðbótartími var liðinn. Ég held að ég hafi nú aldrei séð þetta áður í úrslitaleik því frekar er 15 sekúndum bætt við uppgefinn viðbótartíma en hitt. Auk þess voru skiptingar í viðbótartíma og þær eiga nú að telja í bættum sekúndum við þann uppbótartíma sem gefinn er.

Og þar komum við að því sem þetta blogg átti fjalla um. Innáskiptingar. Mér finnst persónulega að banna eigi innáskiptingar í uppbótartíma. Enda eru þær með öllu óþarfar þegar sá partur af leiknum er leikinn. Ég hefði nefnilega haldið að uppbótartími væri fyrir þá sem leika þessar hefpbundnu 90 mínútur (auk þeirra sem skipt er inn á í venjulegum leiktíma). Auk þess eru innáskiptingar í uppbótartíma í 98% tilvika gerðar til að tefja ef sá sem skiptir inná er með yfirhönd í leiknum vegna þess að þær skiptingar virðast ekki vera teknar inní heildarviðbótartíma (reglan er 30 sekúndur fyrir hverja skiptingu). Ég hugsa að Platini komi nú ekki til með að lesa þetta blogg en ef einhver sem þekkir hann eða hefur ítök í UEFA aulast til að lesa þetta þá er sá hinn sami vinsamlegast beðinn um að koma þessu áleiðis til þeirra sem málið varðar.

Góðar stundir 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband