3.8.2007 | 08:35
Veðurspá
Nú er klukkan 08:25 á föstudagsmorgni. Verslunarmannahelgin um helgina.
Ég var að skoða veðurspána. Hún sýnir rigningu um helgina alls staðar nema í Eyjum. Sem er ekkert nýtt. Þetta er alltaf svona fyrir verslunarmannahelgina. Þó það rigni síðan eldi og brennisteini spá þeir alltaf sól og blíðu.
Eru eyjaskrattarnir búnir að múta Veðurstofu Íslands? Svona risasamsæri til að fá alla til Eyja? Maður veit aldrei. Þeir hafa náttúrulega Sigga storm í liði með sér þar sem hann er alltaf í Eyjum um verslunarmannahelgi. Hann hefur alltaf og undantekningarlaust spáð sól í Eyjum og rigningu annars staðar. Enda er hann rakinn þvagheili.
Ég ætla allavega að vona að Monsoon rigningarnar nái að sleikja Vestmannaeyjar um helgina. En annars er engin leið að vita hvernig veðrið þar verður, þar sem veðurfræðingar spá bara sól án þess að hafa nokkuð fyrir sér í því.
Bæ
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.8.2007 | 09:19
Bræðslan 2007
Helgin var nokkuð mögnuð.
Bræðslan klikkaði ekki þetta árið frekar en fyrri ár. Snilldartónleikar og helvítis hellingur af fólki.
Það var nokkuð vel við hæfi að við Björn Skúlason hlýddum saman á Megas í Bræðslunni heima á Borgarfirði. Það var nú einu sinni hann sem lánaði mér allar plöturnar þegar ég ákvað að fara að hlusta á Megas 15 ára gamall.
Ég var bara nokkuð lengi að ná mér eftir tónleikana með Megasi. Fattaði ekki almennilega hvað hafði átt sér stað fyrr en tónleikarnir voru búnir. Ég er ekki viss um að menn geri sér grein fyrir hvurslags tónleikar þetta voru hjá kallinum. Hann tók 28 lög og blés ekki úr nös. Það var varla að hann svitnaði. Þetta hlýtur að flokkast undir eitt af stærstu kombökkum íslenskrar tónlistarsögu.
Ég hefði ekki getað sett niður betra prógramm sjálfur. Þetta var fullkomið í alla staði og úr því að hann er búinn að gera tónleikaplötur sem heita Drög að sjálfsmorði og Drög að upprisu, er þá ekki borðlagt að fyrir jólin komi út Upprisan með Megasi og Senuþjófunum? Þetta var allavega tekið upp.
Annars verður Jónas Sigurðsson að fá að eiga það að hann kom mest á óvart af þeim tónlistarmönnum sem spiluðu þessa helgi. Hann kom eiginlega, sá og sigraði. Hann á afskaplega auðvelt með að ná upp stemmningu. Hann þarf ekki annað en að biðja um bassatrommubít og kinka kolli í takt, þá kinkar salurinn með og áður en maður veit af eru ótrúlegustu menn farnir að sýna áður ósýndar danshreyfingar. Súsafónninn var líka að gera sig hjá honum. Ég geri nú ekki mikið af því að kaupa nýjar plötur enda ekki margt sem heillar mig en Jónas þurfti ekki mikið til að sannfæra mig um að kaupa nýju plötuna sína. Helvíti var ég ánægður með hann.
Sonur minn tók reyndar upp á því að taka stóru pestina þessa helgi. Eftir að tónleikum lauk var hann kominn með bullandi hita þannig að þá varð ég að blása af ball með Á móti sól í Fjarðarborg. Það mættu víst rúmlega 300 manns en ég var reyndar sérlega ánægður með að vakna ótimbraður á sunnudeginum.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.7.2007 | 19:56
Vinnuskipti
Það er semsagt þó nokkuð að gerast hjá mér þessa dagana. Ég er að byrja í nýrri vinnu sem er margskipt og hefur marga starfstitla. 1. júlí byrjaði ég að vinna á hreppskrifstofunni hér á Djúpavogi og hef þar starfsheitið Tæknistjóri/Vefstjóri. Felst starfið í umsjón vefs Djúpavogshrepps og öllu því sem tengist tæknihluta Djúpavogshrepps, þ.e. umsjón tölvukerfis á hreppsskrifsstofu og öllum tölvum í stofnunum tengdum hreppnum (leikskóla, elliheimili, áhaldahúsi, íþróttamiðstöð, bókasafni, tónskóla o.s.frv.
Síðan mun ég 1. ágúst segja skilið við beitninguna alfarið og byrja að vinna (samfara starfsheitinu vefstjóri/tæknistjóri hjá hreppnum) hjá Grunnskóla Djúpavogs. Þar mun ég hafa heitið Kennari/Umsjónarmaður tölvukerfa en ég mun kenna tölvufræði ásamt einhverju fleiru og sjá um tölvukerfið í Grunnskólanum. Þar með er starfsheitið orðið Vefstjóri/Tæknistjóri/Kennari/Umsjónarmaður tölvukerfa. En sennilega auðveldast að nota starfsheitið hreppsstarfsmaður enda heyrir þetta allt undir hreppinn þegar upp er staðið.
Þar með verður 2ja ára starfsferli mínum sem beitningarmaður formlega lokið. Það er sennilega fátt þægilegra heldur en að vera beitningarmaður. Ræður vinnutímanum sjálfur, margir frídagar, fínt kaup. Ég hefði ekkert verið að þreifa fyrir mér annars staðar á vinnumarkaðinum ef beitningin væri ekki svona slítandi en eftir 2ja ára stanslausa beitningu finnur maður til alls staðar. Í öllum líkamanum. Axlir orðnar lúnar, mjaðmir, hné og hendur. Auk þess er bakið lélegt og maður er með sára olnboga. Svo er maður að væla eftir 2 ár þegar mamma og Sessa gamla er búnar að vera að beita síðan elstu menn muna.
En nú hvet ég alla til að fara á www.djupivogur.is og fylgjast með hvernig ég stend mig sem nýr vefstjóri.
Bæ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.6.2007 | 19:39
Magnús Einarsson
Og ég sem hélt að erkihimbriminn hann Magnús Einarsson á Rás2 væri búinn að sýna allri heimsbyggðinni hversu mikill grasasni hann væri, þ.e. að það væri ekkert meira til að sýna. En hann toppaði sjálfan sig margfalt í morgun. Byrjaði á því að spila lag sem búið er að vera í spilun á Rás2 í tvo mánuði. Þegar lagið "Your love alone is not enough" kláraðist tilkynnti hann að þarna hefði hljómsveitin Manic Street Preachers flutt ásamt söngkonu sem hann kynni nú bara engin frekari deili á. Fyrir utan það að lagið hefur verið í spilun þetta lengi og hljómsveitin hefur alltaf verið kynnt ásamt söngkonunni, nafngreindri að sjálfsögðu, hélt ég einfaldlega að allir vissu hver Nina Persson úr The Cardigans væri. Hún hefur allavega hingað til verið talin með nokkuð sérstæða rödd og auðþekkjanlega. En hann náði nú samt ekki að átta sig á hver þetta væri.
Þetta undirstrikar allt sem ég hef verið að ræða og skrifa um Magnús Einarsson. Hann er engan veginn hæfur í þetta starf þar sem hann fylgist engan veginn nógu vel með og kynnir sér lög og flytjendur aldrei nógu vel. Nema ef eitthvað verksmiðjuframleitt köntrí frá Bandaríkjunum er í spilun. Þá getur hann frætt hlustendur óendanlega um einhverja ómerkilegustu tónlistarstefnu og ómerkilegustu tónlistarmenn heims. Auk þess er ást hans á Macy Gray þessa dagana óendanleg en hún var einmitt að senda frá sér eitthvað alversta efni sem hún hefur sett saman. Þá er hann gríðarlega hrifinn af öllum coverum og remixum, sérstaklega ef þau er mjög léleg. Spilaði út í eitt fyrir stuttu alveg vonlaust remix af Doors laginu Riders on the storm og virtist mjög hrifinn, þó hann væri sá eini á Rás2 sem spilaði það. Svo er eitthvað helvítis köntrí cover af Honky tonk woman sem hann spilar ósjaldan. Fari það í helvíti.
Til að undirstrika að hann fylgist ekki með má nefna að hann tilkynnti í morgun að Dúndurfréttir og Sinfó væru með tónleika um helgina, þótt það sé búið að auglýsa alla vikuna og ræða mikið á Rás2 að tónleikarnir fari fram í kvöld (fimmtudagskvöld) og á morgun. Í kvöld er ekki um helgina og varla annað kvöld heldur.
Ég hef kannski lítinn rétt á því að vera að skíta yfir menn á almannafæri en þessi maður stjórnar því á hvað ég hlusta alla virka morgna og mér finnst ég að ég megi hafa eitthvað að segja um það, þó það sem ég segi hafi í raun ekkert að segja.
Veriði sæl.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.6.2007 | 20:48
Hressandi
Það sem er hressandi þessa dagana er eftirfarandi:
Arcade Fire - Intervention
Richard Thompson - Dad's gonna kill me
Megas - Flærðarsenna
The White Stripes - Icky Thump
Pétur Ben, Ólöf Arnalds og Lay Low - Freight train
Ljótu hálfvitarnir - Sonur hafsins
Arctic Monkeys - Brianstorm
Hvanndalsbræður - Maístjarnan
Smashing Pumpkins - Tarantula
Guns 'n Roses - Better (mættu nú fara að setja það í playlistann á Rás2)
Það sem er ekki hressandi þessa dagana er eftirfarandi:
Fergie - Big girls don't cry
Helvítis eilífðarlögin hans Magnúsar Einarssonar... allt með Rythm kings, Eric Clapton, Snörunum o.s.frv
Plötur sem ég mæli með þessa dagana:
Ólöf Arnalds - Við og við
Battles - Mirrored (Magnaðir helvítis tónlistarmenn - Blanda af Living colour og Mars Volta)
Wilco - Sky blue sky
Svo á The Wall með Pink Floyd alltaf við og sérstaklega þessa dagana þar sem Dúndurfréttir og Sinfó flytja verkið á fimmtudags- og föstudagskvöld.
Fleira var það ekki.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2007 | 20:54
Herferð
Ég þarf ekkert að leyna áhyggjum mínum af áhugaleysi sem virðist einkenna þessa síðu. Áhugaleysi mitt til skrifa er svolítið en áhugaleysi þeirra fjölmörgu fastagesta sem ég hef haft í gegnum bloggtíð mína sem spannar ein 5-6 ár er gríðarlegt og ástæða til að hafa miklar áhyggjur af. Eftir að ég flutti af www.simnet.is/jeremy hefur allt verið á niðurleið, eins og ég var svosem búinn að spá. Wordpress var ekki að meika það og nú virðist enginn vita af þessari síðu nema Erla, Ýmir og Ingþór. Ekki það að þau séu eitthvað ómerkileg, nema síður sé, enn mér þætti gaman ef gamlir fastagestir færu nú að gera vart við sig.
Því ákvað ég í kvöld að fara í smá herferð. Ég er með linka á nokkuð marga af þessum fastagestum og hef gert formlega innreið í gestabók þeirra og ákveðið að pressa á þá að uppfæra linkinn minn sem þeir hafa á síðum sínum en hann er ýmist stílaður á simnet eða worpress. Ef þessi herferð á ekki eftir að hafa áhrif er spurning hvort mál sé að linni.
Einn minna eftirlætis fastagesta hefur ekki látið heyra í sér í einhver ár. Þá er spurning hvort leyfilegt sé að kalla hann fastagest. Magnús Jónsson sem er háskólamenntaður andskoti og með sjálfsagt alltof há laun var manna duglegastur að kommenta á skrif mín og pressa á mig ef engin voru skrifin í einhvern tíma. Ég auglýsi hér með eftir nærveru hans.
Ég ætla svosem ekki að nefna fleiri nöfn en taki þeir það til sín sem eiga.
Fleira var það ekki bili.
Gestabók.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.6.2007 | 16:51
Sinfóníudúndur
Tónlist | Breytt s.d. kl. 16:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.6.2007 | 22:37
Boston Legal
Ég hef reynt ýmsilegt til að reyna að skilja hvað menn sjá við hinn geysivinsæla lögfræðiþátt, Boston Legal. Ótrúlegustu menn (það eru þeir sem ég þekki og hef hingað til haldið að væru með sæmilegan húmor) sjá ekki sólina fyrir Denny Crane, leikinn af William Shatner og Alan Shore sem er leikinn af James Spader. Ég get alveg lagt mig fram við að reyna að brosa að Denny Crane og finnst hann meira að segja stundum nokkuð hnyttinn. En Alan Shore get ég engan veginn skilið. James Spader er gjörsamlega vonlaus leikari, hefur alltaf verið og er sá síðasti sem ég get sagt að sé fyndinn. Þessi leikari lék í óendanlega mörgum B-myndum hér áður fyrr og var sjálfsagt ágætur sem slíkur.
Þetta er fyrir mér svona svipað og að taka Ívar Guðmundsson eða Ásgeir Kolbeinsson og gera þá að einhverjum gamanleikurum. Það getur bara ekki gengið upp. Eða hvað? Það gekk upp með James Spader. Kannski eru Íbbi og Geiri fínn efniviður í íslenskan lögfræðigrínþátt. Ég kem svosem ekki til með að hlæja að honum en ef ótrúlegustu menn geta hlegið að James Spader þá ætti þetta að vera skothelt.
Ég tel mig vera nokkuð vel til þess fallinn að greina á milli þess sem er fyndið og þess sem er ekki fyndið. En þarna er sennilega undantekningin sem sannar regluna.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.6.2007 | 16:33
Mínir menn
Það er óhætt að segja að "mínum mönnum" gangi ekki vel þessa dagana og undanfarin misseri. Alveg sama á hvaða vettvangi þá gengur þeim öllum illa. Veit ekki hvort þetta er svona hjá öllum, að öllum "þeirra mönnum" gangi illa í einu. Má vera að það haldist í hendur eða að þetta sé svona einstök óheppni hjá mér. En hverjir eru þessir "mínir menn"?
Allir eiga "mína menn". Það tala allir um "mína menn".
Mínir menn eru:
Arsenal - Þeir skitu á sig á síðasta tímabili
KR - Skítalyktin finnst alla leið á Djúpavog
Framsóknarflokkurinn - Riðu ekkert sérstaklega feitum hesti frá kosningum
Íslenska landsliðið í knattspyrnu - Þarf ég að útskýra það eitthvað nánar?
Spurning hvort ég eigi að fara að halda með ManUtd - FH - Sjálfstæðismönnum og Brasilíu. Þá gengur þeim kannski illa en hinum sönnu "mínum mönnum" vel.
Annars er það helst að frétta að ég er búinn að taka Ólöfu Arnalds í sátt. Það var erfitt þar sem ég var búinn að skíta svo mikið yfir hana bæði við vini og kunningja. En stundum þarf maður að éta yfirlýsingar ofan í sig og það er svosem ekkert að því. Ég er mjög hrifinn af því sem Ólöf er að gera. Sérstaklega þegar maður nær að hlusta á textana. Þeir eru snilld. Kannski var það ekkert svo fjarri lagi hjá Óla Palla þegar hann sagði að við værum búin að eignast kvenkyns Megas. Ég var ekki sáttur við þá yfirlýsingu þá en ég er mjög glaður í dag. Þó að mínum mönnum gangi illa.
Svo er Verum í sambandi með Sprengjuhöllinni gríðarlega hressandi lag.
Svo má kannski aðeins fara að minnka spilunina á Ég og heilinn minn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.6.2007 | 15:54
Hammondhátíð
Hammondhátíð á Djúpavogi er lokið og er það mál manna að sérstaklega vel hafi tekist til þetta árið. Drottning Karls Jóhanns Sighvatssonar var að sjálfsögðu í aðalhlutverki og fékk svo sannarlega að vinna fyrir kaupinu í þetta sinn enda var hún nánast stanslaust í notkun frá fimmtudagskvöldi fram að hádegi á sunnudegi en þá lauk sjómannadagsmessu í Djúpavogskirkju.
Heimamenn sáu um að skemmta fólki á fimmtudagskvöldinu á Hótel Framtíð og tókst það kvöld sérstaklega vel og ungir sem aldnir sýndu snilli sína á hljóðfærin undir traustum hammondleik herra Hammonds Djúpavogs, Svavars Sigurðssonar. Á annað hundrað manns mættu og stemmningin var frábær.
Föstudagskvöldið var undirlagt blúshundum að austan en Mæðusveitin Sigurbjörn (skipuð þremur Sigurðum og einum Birni) frá Hornafirði og Blúsbrot Garðars Harðar sáu um að svala þorsta blúsþyrstra tónleikagesta og tókst vel upp. Að öllum öðrum ólöstuðum er óhætt að fullyrða að gítarsnillingurinn Jón Hilmar Kárason í Blúsbroti Garðars hafi stolið senunni enda er hann gítarleikari á heimsmælikvarða. Mætingin var ágæt, 70-80 manns.
Á laugardeginum var hátíðin svo flutt í Íþróttamiðstöð Djúpavogs þar sem Egill Egilsson, þúsundþjalasmiður, var búinn að koma upp stórglæsilegu sviði. Landslið tónlistarmanna var mætt á Djúpavog til að sýna listir sínar og er óhætt að fullyrða að fáir hafi verið sviknir því tónleikarnir voru frábærir. Eðvald Lárusson og Halldór Bragason sáu um gítarleik, gítarleikarinn Guðmundur Pétursson sá um bassaleik, Ásgeir Óskarsson trommaði og Jakob Frímann Magnússon þandi Drottninguna. En flestra augu beindust að söngkonu sem Jakob Frímann kaus að kalla "5 karlmanna ígildi" og átti þar við Andreu Gylfadóttur sem án nokkurs vafa er ein af færustu söngkonum Evrópu en hún sá til þess að tónleikagestir, sem voru tæplega 200 talsins, færu út með nokkur kíló af gæsahúð.
Svavar Sigurðsson, Herra Hammond, á mikinn heiður skilinn fyrir einstaklega óeigingjarnt starf við að koma hátíð sem þessari á laggirnar og mega Djúpavogsbúar vera stoltir af honum og framtaki sem þessu. Menn eins og Svavar eru nauðsynlegir hverju byggðarlagi og nú þýðir lítið annað en að byrja að hlakka til næstu Hammondhátíðar. Eru Mezzoforte ekki á lausu?
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)