Euro shopper

Í Bónus má finna óteljandi vörur merktar vörumerkinu Euro shopper.

Euro shopper fær hrós vikunnar frá mér. Hræódýr gæðavara sem vert að skoða betur. Ég hef enn ekki smakkað vont nammi frá Euro shopper og er snakkið mjög fínt. 1L ávaxtasafarnir á 59 kr. eru líka að gera fína hluti. Mæli með þessu.

Bæ 


Freyju-auglýsingar

Steinn Ármann er án efa einn af fyndnustu mönnum Íslands. Ekki að furða þar sem hann er ættaður frá Borgarfirði eystri. Hann hefur í fjölda ára verið einn af mínum uppáhaldsleikurum og grínistum og ekkert sem hann hefur gert hefur valdið vonbrigðum hjá mér. Þar til núna.

 Og það eru þessar viðbjóðslegu Freyju-útvarpsauglýsingar. Sérstaklega þessar með Villiköttinn. Eins  Freyjudraumur og Buffaló bitar. Þetta er allt sami hryllingurinn. Þarna hefur sveitungi minn stórkostlega skotið sig í fótinn því maður finnur kjánahrollinn hríslast um sig allan þegar þessar auglýsingar eru spilaðar. Reyndar þegar maður hugsar um það þá hafa Freyju auglýsingar alltaf verið mjög slæmar. Jónsi í "Rosa góður draumur, maður" og Birgitta í "Þú átt það alltaf skilið". Eins eru nýjar Freyju-auglýsingar núna í útvarpinu með Helgu Brögu þar sem hún er m.a. að auglýsa sælgætið Freyju-djúpur. Hún er skelfileg. 

En það hlýtur að koma fyrir í lífi hvers grínara að þeir drulli upp á bak. Við skulum bara vona að þetta sé í fyrsta og síðasta skipti sem Steinn Ármann lendir í því.

 

 


Ríkisútvarpið

Það er ekki nóg með að það sé búið að skipta um fréttastef á RÚV (það er stefið sem kemur áður en fréttirnar eru lesnar) eftir 25 ár með sama stefi (sem er stefið sem ekki er hægt með nokkru móti að blístra og er tímalaus snilld) heldur er líka búið að henda út hinu fornfræga Mezzoforte lagi sem leikið hefur verið undir tilkynningalestri frá því að ég byrjaði að muna eftir mér. Í staðinn er komið eitthvað fréttastef frá Mars sem tónfræddustu tónlistarheilar geta ekki einu sinni skilið og svo er komið alveg afleitt klámmyndastef undir tilkynningalestrinum. Ég segi það ekki, öllu má venjast og eflaust gerir maður það með tímanum en þessar breytingar eru samt sem áður af hinu verra.

Mér er mjög illa við allar óþarfa breytingar því ég hef aldrei skilið hverju svoleiðis breytingar eiga að skila. If it's not broken, don't try to fix it er eitt af mínum mottóum og finnst mér það alveg hreint ágætis regla. 

En þetta er ekki það eina sem mér mislíkar á RÚV. Þar sem Rás 2 glymur í eyrunum á mér frá 7 á morgnana til rúmlega 3 á daginn er margt sem maður lærir að hata á þessari annars fínu útvarpsstöð. Eftir fínan morgunþátt Hrafnhildar Halldórs og Gests snillings Einarssonar tekur atvinnuhlandshausinn hann Magnús Einarsson við og ég hugsa að ég þurfi að búa til 2-3 blogg til að lýsa öllu mínu svekkelsi gagnvart honum því hann virðist gera í því að fara í taugarnar á mönnum eins og mér. Óli Palli nær nú alltaf að gleðja mig eftir hádegið þessa fáu daga sem hann er við stjórnvölin í Popplandi og Ágúst Boga er lítið hægt að setja út á. En svo kemur helvítið hann Guðni Már og eyðileggur daginn endanlega fyrri manni með þætti sem með sanni ætti að kalla "Lögin mín" af því að hann spilar bara lög sem honum finnst góð og ekkert annað. Annað vill hann bara ekki með nokkru móti spila og þegar svona menn stjórna 2ja tíma þætti þá er ekkert annað hægt en að verða brjálaður.

Ég hef mikla trú á því að mæðupistlar um Rás 2 eigi eftir að detta hérna inn næstu daga því af nógu er að taka. 

Bið að heilsa í bili. 

 


Aðeins af fótbolta

Ég horfði á leik AC Milan og Liverpool í gær. Leikurinn var nú yfir það heila freka bragðdaufur og allt að því leiðinlegur jafnvel. Hann endaði eins og ég var búinn að spá, að Milanmenn færu með sigur af hólmi. Ég var reyndar búinn að spá því að þeir yrðu meira sannfærandi því það var nú enginn meistarabragur á þeim þó að meistaraheppnin hafi verið með þeim í liði. Fyrra markið óttaleg heppni en seinna markið einkar glæsilegt og sérlega vel klárað.

Ég sat aftast í salnum á Hótel Framtíð því mér þykir fátt eins skemmtilegt og að fylgjast með Liverpool aðdáendum þegar þeir horfa á sína menn spila. Og ég leyni því ekki að mér finnst alveg svakalega gaman þegar illa gengur hjá þeim því viðbrögð þeirra fara ekki framhjá neinum. Sótbölvandi og plastflöskukastandi Liverpoolaðdáendur geta kætt þunglyndustu menn. 

Það athyglisverðasta í leiknum í gær fannst mér að dómarinn flautaði leikinn af 15 sekúndum áður en settur viðbótartími var liðinn. Ég held að ég hafi nú aldrei séð þetta áður í úrslitaleik því frekar er 15 sekúndum bætt við uppgefinn viðbótartíma en hitt. Auk þess voru skiptingar í viðbótartíma og þær eiga nú að telja í bættum sekúndum við þann uppbótartíma sem gefinn er.

Og þar komum við að því sem þetta blogg átti fjalla um. Innáskiptingar. Mér finnst persónulega að banna eigi innáskiptingar í uppbótartíma. Enda eru þær með öllu óþarfar þegar sá partur af leiknum er leikinn. Ég hefði nefnilega haldið að uppbótartími væri fyrir þá sem leika þessar hefpbundnu 90 mínútur (auk þeirra sem skipt er inn á í venjulegum leiktíma). Auk þess eru innáskiptingar í uppbótartíma í 98% tilvika gerðar til að tefja ef sá sem skiptir inná er með yfirhönd í leiknum vegna þess að þær skiptingar virðast ekki vera teknar inní heildarviðbótartíma (reglan er 30 sekúndur fyrir hverja skiptingu). Ég hugsa að Platini komi nú ekki til með að lesa þetta blogg en ef einhver sem þekkir hann eða hefur ítök í UEFA aulast til að lesa þetta þá er sá hinn sami vinsamlegast beðinn um að koma þessu áleiðis til þeirra sem málið varðar.

Góðar stundir 


Ræfilssáttmáli

Ok ég sagðist ekki ætla að skrifa um nýja ríkisstjórn en þar sem alltaf er sagt að Framsóknarmenn séu ekki menn orða sinna þá er best að ég skrifi um hana.

Ég var semsagt að lesa þennan sáttmála. Og þvílík og önnur eins innantóm vitleysa. Hvar er kjarkurinn? Hvar eru öll þessi tugmilljarðakosningaloforð Samfylkingarinnar? Þetta kemur mér fyrir sjónir eins og væmin sápuópera af verstu sort. Það þarf tilfinnanlega meiri hörku í þetta!

Djöfull er gaman að vera kominn í stjórnarandstöðu og geta vælt yfir öllu sem við kemur ríkisstjórninni. Grin 


mbl.is Ágreiningur um þjóðareign á náttúruauðlindum verði leiddur til lykta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttamennska

Nú hefur Elín Hirst verið í fréttamennsku í fjölda ára. Var áður á Stöð 2 og er nú hæstvirtur fréttastjóri Fréttastofu RÚV. Hún segir fréttir dag eftir dag í beinni útsendingu en virðist vera alveg fyrirmunað að læra þá list sem skyldi. Hún á það til að eiga fína spretti en yfirleitt lítur hún út eins og hún sé að lesa fréttir í fyrsta sinn. Ef eitthvað útaf ber, eins og verða vill á fréttatímum RÚV, þá liggur við að maður sjái hana svitna og angistarsvipurinn heltekur útsendinguna. Skyldi hún ekki ætla að vaxa uppúr þessum viðbrögðum? Hún hefur nú marga fjöruna sopið í þessum efnum og ætti að vera orðin ýmsu vön þegar hlutirnir fara ekki alveg eins og þeir eiga að fara. Neinei, angistarsvipur, panikk og tunguvafstur er það fyrsta sem hún tekur til bragðs ef fréttin sem á að fara í loftið lætur á sér standa.

Annars er lítið að frétta, 10 stiga hiti, heiðskýrt og stilla hér á Djúpavogi. Djöfull held ég þetta verði fínn dagur.

Það er pressa

Málið er nefnilega það að hér á blog.is er mikil pressa á manni að standa sig vel. Maður verður að passa sig gríðarlega á því að maður skrifa enga helvítis vitleysu því fjölmargir aðkomumenn koma til með að lesa bloggið hjá manni. Stafsetningavillur eru illa séðar og óþarfa blótsyrði ekki vinsæl. 

Ég ætla nú samt ekkert að gerast eitthvað linur þó ég sé kominn hingað. Þjóðfélagsrýni og mæðuköst verða í hávegum höfð sem fyrr. Ég hef samt ákveðið að skrifa sem minnst um þessa nýju ríkisstjórn enda engin ástæða til að vera að eyða óþarfa orðum í hana. Hún fellur illa að mínum hugmyndum og get ég ekki betur séð en að hér verði allt komið á hliðina innan nokkurra mánaða. Sjáum hvað setur. 

Þessi villupúki kemur samt gríðarlega sterkur inn í þessu bloggkerfi. Kannski óþarfa áhyggjur þar sem ég geri aldrei stafsetningavillur.... 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband