Færsluflokkur: Pepsi-deildin

Af KR, ÍA og getuleysi

Það verður seint sagt að mínir menn í KR séu, eða hafi síðustu ár, verið að gera góða hluti í Landsbankadeild karla. Það er keypt og keypt en ekkert gengur. Það er erfitt að segja hvað veldur, því í hverri stöðu eru toppklassa leikmenn. Andleysi og jafnvel áhugaleysi spilar þarna inni í og klárlega vantar einhvern til að rífa upp stemmninguna. Hélt reyndar að Logi Ólafs væri kjörinn í það starf og hann virtist vera að ná smá takti í liðið á tíma í sumar en nú er allt í sama farinu. Eini sem eitthvað sýnir er Mummi vinur minn, en ég spái því að hann verði kominn í gott lið í útlandinu fljótlega eftir að þessu móti lýkur

KR hefur ekki unnið FH í Frostaskjólinu síðan sautjánhundruðogsúrkál, sem er náttúrlega skandall. KR á einfaldlega ekki að tapa á heimavelli. Ekki með þessa stuðningsmenn og ekki í þessum búning. Það er einfaldlega bannað. 

Nóg um það.

Ástæðan fyrir þessu bloggi er í raun nýr leikmaður KR. Bjarni nokkur Guðjónsson klæddi sig í röndótta búninginn eftir að hafa skitið á sig, ásamt bræðrum sínum og frændum, í ÍA. Sjaldan eða aldrei hef ég verið jafn hneykslaður á nokkrum kaupum og einmitt þessum. Hvað á Bjarni að geta gert fyrir þetta lið? Hann er án nokkurs vafa einn af ofmetnari leikmönnum sögunnar og eins og kom í ljós í kvöld er hann fantur.

Þetta var engin tilviljun öll þessi rauðu spjöld hjá ÍA í sumar. Þetta var ekkert einelti eins og Gauji Þórðar vildi meina. Hann lagi einfaldlega upp með svona spilamennsku og Bjarni virðist eiga bágt með að kúpla sig út úr henni þegar hann er kominn í nýtt lið. Ég held að það sé ekki úr vegi að vitna í Dodda, mág minn, en hann orðaði þessa krísu hjá ÍA ansi vel í sumar;

"Hvernig ætlast Guðjón Þórðarson til að hann geti búið til gott lið úr ofmetnum og getulausum sonum sínum og afdala frændum?"

Þetta var ansi vel orðað hjá honum og hverju orði sannara því þetta var, og er, ekkert annað en skapstór fjölskylda þarna á Skaganum.

Ég óttast það mest að Logi Ólafsson verði látinn taka pokann sinn eftir þessa leiktíð og Guðjón Þórðarson verði ráðinn sem nýr þjálfari KR. Ja, ljótt er ef satt er.

Þá liggur leiðin rakleitt niður í 1. deild.


mbl.is Enn einn sigur FH á KR í Vesturbænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband