Færsluflokkur: Samgöngur

Dýr lokun á Axarvegi

Við vorum að koma frá Borgarfirði eftir afskaplega langþráða letihelgi. Veit svosem ekki með aðra fjölskyldumeðlimi, en ég kem alltaf endurnærður frá Borgarfirði, enda nostra gömlu hjónin svoleiðis við okkur að það hálfa væri nóg.

Nú er þetta í þriðja sinn í desember sem við förum að heiman. Tvisvar fórum við í kaupstaðarferð í Egilsstaði og nú síðast á Borgarfjörð. Öll skiptin höfum við þurft að fara fjarðaleiðina, þar sem Öxi hefur verið ófær vegna þess að Vegagerðin vill af einhverjum ástæðum ekki opna hana.

Í hvert skipti sem ég þarf að fara fjarðaleiðina í stað Öxi, má ég gera svo vel að keyra auka 71 km (aðra leiðina), sem gera 142 km fram og til baka:

  • Það gerði það að verkum í desember að ég þurfti að keyra aukalega 426 kílómetra sem er svona sirka eins og að keyra frá Djúpavogi á Hvolsvöll eða frá Djúpavogi og langleiðina á Dalvík, takk fyrir.
  • Miðað við að ég eyði 7.5 lítrum á hundraðið þá kosta þessir auka 426 km mig 4600 krónur (m.v. þær 144 krónur fyrir sem ég borga fyrir líterinn hér á Djúpvogi).
  • Miðað við að ég keyri á 90km hraða á klst, þá eru þetta ca. aukalega 4,7 klukkutímar sem ég þarf að aka.
  • = Money and time well spent.
Nú er þetta bara dæmi um hvað það kostar venjulegan einstakling, sem notar Axarveg þegar hann er fær, að fara fjarðaleiðina í stað Öxi. 
 
Ég veit að það var reiknað út fyrir ekki svo löngu (en samt það löngu að það var á olíuverði fyrir hrun og hækkanir...) að venjulegur flutningabíl sem keyrir einu sinni í viku frá Reykjavík í Egilsstaði sparar um 4 milljónir, á árs basis, að fara Öxi í stað þess að keyra firðina. Það eru upphæð fyrir einungis einn bíl og eitthvað hefur hún sjálfsagt hækkað m.v. ástandið í dag.

Vegagerðin segir að það kosti ca. 200.000 krónur að opna Axarveg. Það er kaldhæðnislegt þegar maður lítur á hvaða fjárhæð var áætluð í snjómokstur af hálfu Vegagerðarinnar á árinu 2008, en sú fjárhæð var einmitt 200.000 krónur. 

Nú las ég það á bloggi Kristjáns vinar míns Ingimarssonar að fyrirtæki hér á Djúpvogi hafi núna fyrir jólin boðist til að borga fyrir opnun á Axarvegi. Vegagerðin neitaði þar sem... eins og Kristján orðar það: "...að það væri ekki hægt að taka ábyrgð á þessu þrátt fyrir að sömu aðilar og sjá vanalega um snjómokstur hefðu framkvæmt verkið."

Er nema vona að maður spyrji sig hvaða fábjánaháttur þetta sé í Vegagerðinni? Er nema von að maður gerist svo djarfur að velta fyrir sér hvort það sé tilviljun að þetta sé svona þar sem höfuðstöðvar Vegagerðarinnar á Austurlandi eru á Reyðarfirði, en þar eru einmitt hörðustu andstæðingar Axarvegar samankomnir?

Maður spyr sig.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband