Áhrif álvers á Austurlandi

Ég vil byrja á þessum pistli með því að koma því á framfæri að ég er harður stuðningsmaður álvers á austurlandi.

easticelandÞað er samt ekki allt gott við álverið, eða réttara sagt ekki allt gott við áhrif álversins enda ekki við því að búast þegar farið er í svo stóra framkvæmd. Þegar framkvæmdir hófust var ég við nám í Reykjavík en stundaði vinnu á sumrin og í öðrum fríum heima á Borgarfirði eystra. Þá sá ég ekkert nema gott við álverið og fannst þetta svo frábært að slæmu áhrifin voru víðs fjarri. Enda stóð maður í því hvað eftir annað fyrir sunnan að verja þessa framkvæmd og útskýra fyrir Reykvíkingum hversu mikill fengur fyrir austfirðinga þetta væri.

Hvert skipti sem maður lagði leið sína austur á land sá maður uppgang og framkvæmdir, nýjar verslanir og önnur þjónusta hrannaðist upp og andrúmsloftið var allt annað og jákvæðara en maður hafði áður þekkt. Það var einfaldlegar uppgangur og allir höfðu nóg að gera. 

Það merkilega við allan uppganginn og hina óendanlegu vinnu sem bauðst er að það hvarflaði aldrei að mér að vinna í uppganginum né í álverinu sjálfu. Það hefur einhvern vegin aldrei verið inni í myndinni enda hefur Reyðarfjörðurinn sjálfur aldrei heillað mig og þar gæti ég aldrei ímyndað mér að búa. Eins fyndist mér fráleitt að flytja í Egilsstaði, maður fékk nóg af búsetu í því bæjarfélagi þetta eina ár sem ég sótti þar menntaskóla. Þetta er að sjálfsögðu mín persónulega skoðun.

// Nú kemur smá útúrdúr //
Eftir að námi lauk varð úr að við Inga fluttum á Djúpavog, en það hafði verið ákveðið nokkuð löngudjupivogur__ljosm._andres__large_ áður. Eflaust var þetta hálfeinkennileg ákvörðun enda Inga búin að klára klæðskeranám og ég tölvufræðinám. Það var nú bara þannig að eftir fjögurra ára búsetu í Reykjavík vildum við komast í rólegheitin en satt best að segja renndum við nokkuð blint í sjóinn enda hvorugt okkar búið að fá vinnu þegar við vorum búin að flytja okkar hafurtask austur á land. Það varð úr að okkur bauðst vinna við uppstokkun og svo beitningu á nýju kvótaári. Það skal viðurkennast að eftir fjögurra ára tölvunám var ég kominn með upp í kok og vildi komast í "alvöru" líkamlega vinnu. Beitningin hentaði mér alveg sérstaklega vel því þar er maður sinn eigin herra hvað varðar vinnutíma og afköst.
Eftir tvö ár í beitningunni vorum við nú farin að þreifa fyrir okkur á vinnumarkaðnum hér á Djúpavogi enda vinnuleiði kominn í mann og beitning svo sem ekkert framtíðarstarf. Okkur var báðum boðið starf við kennslu í grunnskólanum og mér aukinheldur boðið að taka við tæknimálum hjá hreppnum. Í dag eru þetta okkar störf og við unum okkur vel og höfum það fínt.
// Útúrdúr lýkur //

Þið verðið að afsaka þennan útúrdúr en hann er að nokkru leyti nauðsynlegur þar sem að eftir að ég hóf störf á hreppnum er ég meira inni í sveitarstjórnarmálum og þeirri baráttu sem Djúpavogshreppur er í. 

Eftir að ég flutti á Djúpavog hefur afstaða mín til álversins á Reyðarfirði breyst töluvert. Ég fagna að sjálfsögðu auknug_bulandstindur_rval_bulandstindur0334_largem atvinnutækifærum austfirðinga, aukinni þjónustu og öllu því góða sem svona framkvæmd fylgir. Ástæða þess að afstaða mín hefur breyst er sú að Djúpivogur er utan þessa svokallaða áhrifasvæðis álversins. Hér hefur nákvæmlega ekkert breyst og Djúpavogsbúar finna ekki að nokkru leyti fyrir uppganginum en það skal tekið fram að við erum alls ekki á neinni vonarvöl, síður en svo. En að sjálfsögðu er ansi sárt að horfa upp á að áhrifasvæðið sé ekki stærra en raun ber vitni. Egilsstaðir, Reyðarfjörður eru eðlilega svæðin sem mestur uppgangur er á og hans gætir einnig að nokkru leiti á Fáskrúðsfirði og að litlu leiti á Norðfirði en satt best að segja hef ég ekki heyrt að uppgangurinn sé mikill á Eskifirði eins einkennilega og það hljómar nú. Það væri synd að segja að eiginlegra áhrifa gæti á Stöðvarfirði en að sjálfsögðu eru þessir fjórir firðir í sama sveitarfélagi, Fjarðabyggð. Breiðdalsvík stendur, eins og Djúpavogur utan þessa áhrifasvæðis.

En aftur að Djúpavogi. Það sem ég hef tekið eftir eftir að ég flutti á Djúpavog og hefur breytt minni afstöðu gagnvart álverinu er að það er að myndast nokkuð mikil "klíka" á áhrifasvæðinu og þá sérstaklega á Reyðarfirði. Ég veit ekki hvort það megi kalla það valdhroka en af einhverri ástæðu sjá Reyðfirðingar ekkert nema álverið sem er að sjálfsögðu mjög slæmt. Þeim finnst sjálfsagt að allir vinni í álverinu eða álverstengdri starfsemi. Menn hljóti að vera annað hvort skrítnir eða einfaldlega bjánar að búa einhversstaðar annars staðar en á álverssvæðinu. Þegar ég segi við fólk, meira að segja fólk sem ég þekki, á Reyðarfirði eða Fáskrúðsfirði að ég búi á Djúpavogi verða menn hálfskrýtnir. "Af hverju flyturðu ekki hingað?", er yfirleitt fyrsta spurning. Mitt svar er að ég hafi ekki áhuga á því og þá verða menn sárir. Þeim finnst ótrúlegt að menn vilji búa annarsstaðar. "En af hverju vinnurðu ekki að minnsta kosti í álverinu þó þú búir á Djúpavogi?" er spurning sem ég hef líka heyrt. Svar mitt við þeirri spurningu er sú að það kemur bara ekki til mála að vinna annarsstaðar en þar sem ég bý þó að ég hefði einhverhundruðþúsund meira í árstekjur. Þá verða menn eiginlega hálfreiðir og skilja ekkert í svona hugsunarhætti enda skilja þeir enganvegin hvernig menn geta búið annarsstaðar en þar sem uppgangurinn er.

Þó að "valdhroki" sé dálítið stórt orð á það að mörgu leiti við í þessu tilfelli enda má merkja valdhroka í þessum spurningum sem ég upplýsti ykkur um hér fyrir ofan. Þetta er kannski það sem ég óttaðist mest að myndi þróast út úr þessari framkvæmd. Ef þú vinnur ekki í álverinu eða býrð ekki á Egilsstöðum, Reyðarfirði eða Fáskrúðsfirði (ég nefni Fáskrúðsfjörð líka því ég hef orðið var við þennan hugsunarhátt þar) þá hlýtur bara að vera eitthvað að.
Ég vil nú bara koma því á framfæri við þá sem hafa þetta að leiðarljósi að ef þeir halda að eðlilegt sé að allir búi á þessum þremur stöðum og vinni í álverinu eða einhverju sem spratt upp af álverinu þá þurfa þeir að hugsa sinn gang alvarlega og endurskoða heildarmyndina. Það liti nú ekkert sérstaklega vel út fyrir austurlandið í heild ef þar væri einvörðungu unnin verksmiðjuvinna eða þjónustutengd vinna og allir íbúar skiptu sér niður á þrjá staði. Fjölbreytnin verður að vera til staðar og byggðin verður að haldast í öllum sveitarfélögum. Svo einfalt er það.

Þá kem ég að því sem ég hef haldið aftur af mér að skrifa um lengi og tengist þessu áhrifamáli álversins mjög mikið. Vegna þessa máls hef ég rifist við mína nánustu, mína bestu vini, kunningja og eins fólk sem ég þekki ekki neitt. Það er fyrirliggjandi framkvæmd sem kallast heilsársvegur yfir Öxi.
Samgönguráðherra, sem mér hefur reyndar alltaf verið í nöp við, ákvað að farið yrði í að gera veginn yfir Öxi að heilsársvegi en Öxi styttir leiðina frá Berufirði upp í Egilsstaði um 71 kílómeter (ef miðað er við að keyra fjarðarleiðina um Fáskrúðsfjarðargöng en 61 ef miðað er við að keyra um Breiðdalsheiði). Það var að vonum mikill fögnuður sem braust út meðal Djúpavogsbúa og margra annarra sem notfæra sér þessa leið þegar þetta var tilkynnt. Annað hljóð barst frá álverssvæðinu. Það var ekki fögnuður, menn samglöddust ekki heldur voru menn þar á bæ svo hneykslaðir og svo reiðir yfir að fjármunum skuli verða varið í svo fáránlega framkvæmd og þar að auki framkvæmd utan álverssvæðisins að þeir höfðu aldrei vitað annað eins. Að menn skuli láta sér detta í hug að verja 1.3 miljörðum í vegaframkvæmd á austurlandi sem ekki tengist álverssvæðinu sé einfaldlega fráleitt. 

"Nú?" segi ég þá við andstæðinga Axarvegs. Hvað á þá að gera í staðinn? "Heldurðu að það sé nú ekki gáfulegra að bora í gegnum Berufjörð, yfir á Breiðdalsvík og klára svo samgöng frá Norðfirði upp í Egilsstaði?" er svarið sem ég fæ. Hins vegar stoppa þeir yfirleitt á Reyðarfirði, en ekki Egilsstöðum, vegna þess að það er náttúrulega borðleggjandi að ef búið er að bora í gegnum Berufjörð þá er orðið það stutt á Reyðarfjörð og þar af leiðandi stutt fyrir Djúpavogsbúa að sækja  vinnu á Reyðarfjörð. Eins er þá búið að koma því þá svoleiðis fyrir að sameining Djúpavogshrepps við Fjarðabyggð er nánast formsatriði.

Það veit ég ekkert um hvort er gáfulegra. Vegur yfir Öxi eða göng í gegnum Berufjörð og samgöng í Egilsstaði. En hitt veit ég að seinni framkvæmdin tekur að minnsta kosti 20 árum lengri tíma en Axarvegur sem á að vera tilbúinn 2011. 20 ár höfum við Djúpavogsbúar ekki. Þess vegna styð ég heilshugar heilsársveg yfir Öxi. Auk þess sem Djúpavogsbúar hafa lítinn sem engan áhuga á að sameinast Fjarðabyggð. Hvers vegna ætti ég að vilja sameinast sveitarfélagi sem hefur ekki einu sinni flugvöll?

Ég get kannski að mörgu leyti skilið Fjarðabyggðarbúa að þeim finnist fáránlegt að heilsársvegur sé byggður yfir Öxi, enda ekki nema örfáir þar sem notfæra sér þann veg. En þeir eru ekki heldur einir í heiminum. Það að þeir geti ekki samglaðst öðrum þegar vel gengur er mér óskiljanlegt og er að mörgu leiti sorglegt.

Niðurstaða mín er samt sem áður sú að góðu áhrif álversins eru fleiri en neikvæðu. Aukin þjónusta og aukin vinna er það sem málið snýst um. Mér finnst frábært að fara í Egilsstaði og nýta mér þá auknu þjónustu sem þangað er komin vegna áhrifa álversins.

-- 

Nú er ég kominn með bloggsting. Ég gæti haldið áfram að tjá mig um þessi málefni en ef ég held áfram þá fer ég að bulla. Vegna bloggstings. Hér vil ég láta staðar numið því ef ég fer að bulla þá fer ég hljóma eins og vinstri-grænn (sorrí Andrés) og það vill ég ekki.

Þetta er lengsta færsla sem ég hef skrifað á mínum 7 ára ferli sem bloggari og því skal ég lofa að svona langa færslu skal ég aldrei aftur skrifa. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nei......þetta var of langt til að ég nennti að lesa. löngu farin að hugsa um skútu......;)

kannski les ég þetta seinnna.

kveðja úr rokrassgatinu keflavík

Heiða táknmálspía (IP-tala skráð) 16.12.2007 kl. 14:56

2 identicon

Þökk sé Heiðu er ég farin að hugsa um Skútu og búinn að gleyma löngu ritgerðinni sem ég ætlaði að setja hérna inn.

Birkir (IP-tala skráð) 17.12.2007 kl. 13:01

3 identicon

Heyr, heyr! Las alla færsluna þína Óli og er hjartanlega sammála!

Gaman að lesa bloggið þitt! Það er gott og gáfulegt :)

Bið að heilsa konunni :)

Kveðja Unnur (afkomandi Hjálmars Guðmundsonar sem gerði fyrsta veginn yfir öxina  ;)

Unnur í Dölum á Djúpavogi (IP-tala skráð) 18.12.2007 kl. 01:16

4 identicon

Þetta er snilldar blogg hjá þér og mikið voðalega er ég þér sammála.  Ég er einnig stuðningsmaður álversins en eins og þú þá efast ég líka en sé samt að kostirnir eru fleiri en gallarnir.

Í sambandi við veginn yfir Öxi þá bara hreinlega skil ég ekki hvernig sumir geta verið svona á móti þessu... eins og maður eyddi nú tíma í að verja álversframkvæmdirnar fyrir þá þó að okkar heimastaður sé ekki á áhrifasvæði.  Stundum þegar ég heyri raddir sem eru á móti Axarvegi þá verð ég oft svo pirraður að ég sé eftir því að hafa stutt þá í þessum álversframkvæmdum.  Það er bara ósköp einfalt mál að þó að Axarvegur yrði einhverntíma gerður að þjóðvegi eitt sem mér er svo nákvæmlega sama um þá hefði það engin áhrif á umferð í gegnum blessaða fjarðabyggð.  Ef maður er að fara frá a til b þá vill maður auðvitað komast styðstu leið og ég tala nú ekki um þegar þú sleppur við 71 km.  Þetta eru svo fáránleg mótrök að fjarðabyggð missi svo mikkla umferð í gegn að maður á ekki orð.  Þeir sem hafa erindi í fjarðabyggð eða hvert sem er fara þangað... annars ekki.
En ekki má dæma alla, þó flesta:p 

 kv. Gunnar Sigvalda (maðurinn sem fann upp saumnálina).... hahh þú trúðir þessu....

Gunnar Sigvalda (IP-tala skráð) 19.12.2007 kl. 00:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband